Fyrir rúmu ári fengum við á Lappari.com Yoga 3 Pro vél frá Lenovo til prófunar en hún heillaði mig mikið fyrir utan að örgjörvinn hefði mátt vera öflugri og lyklaborðið var bara ágæt. Yoga 3 Pro vélin þótti mér afar glæsileg, fjölhæf og vel smíðuð en það verður áhugavert að prófa Yoga 900 sem er nýjasta vélin í Yoga línunni og sjá hvort hún bæti það sem bæta þurfti..
Þar sem ég er meðlimur í Lenovo Insider þá fæ ég reglulega glaðning beint frá Lenovo í Singapore til að leika mér að. Allt sem ég skrifa um þessar sendingar eru mínar skoðanir, byggðar á prófunum mínum og reynslu. Þessi félagsskapur er algerlega ótengdur Nýherja á Íslandi og án allra kvaða varðandi skrif.
Þessi pakki sem kom rétt fyrir jól gladdi mig mikið en þetta var nýjasta Yoga vélin frá Lenovo, vélin sem ég fékk er flagskip nýju línunar og heitir Yoga 900 eins og fyrr segir.
Lesendur athugið: ekki er öruggt að nákvæmlega þetta model sé til sölu á Íslandi.
Hér má sjá afpökkun á þessari vél.
Hönnun og vélbúnaður
Yoga 900 er ein sú fallegasta Ultrabook vél sem ég hef handleikið hingað til og hef ég þó prófað nokkuð margar. Nýja Macbook vélin sem ég prófaði fyrir skemmstu er alls ekki gallalaus en ég heillaðist mjög af hönnuninni en þessi Yoga 900 vél minnir mig töluvert á hana, ekki beint í útliti heldur sú upplifun að þetta sé premium vél og að það hafi farið virkilega mikil vinna í hönnunina.
Vélin er létt og örþunn en á sama tíma virkar hún sterkleg og vel smíðuð. Hönnunin er látlaus og stílhrein með fullt af litlum krúsidúllum sem ég hef fallið fyrir í þessum prófunum mínum.
Helstu stærðir í cm:
- Breidd: 32.4
- Dýpt: 22.5
- Þykkt: 1,49
- Þyngd: 1,3kg
Eins og með aðrar Yoga vélar þá er ekki alveg hægt að flokka Yoga 900 sem venjulega fartölvu þar sem hægt er að stilla henni í fjórar mismunandi stellingar sem auka notagildið umtalsvert.
Laptop: Bara eins og venjuleg fartölva
Stand: Vélin stendur á lyklaborðinu, þannig er þægilegt að nota vélina svona þegar horft er á bíómynd en þá þvælist lyklaborðið ekki fyrir á meðan
Tent: Vélin stendur eins og tjald, nota þetta við pönnukökubakstur (já ég baka oft)
Tablet: Þarna er hún brotin alveg saman og er bara eins og venjulega spjaldtölva
Lamirnar á Yoga 900 eru ótrúlega magnaðar og merkilegar fyrir margar sakir. Þær eru aðeins stífari en þær voru á Yoga 3 Pro en lamirnar eru núna einnig hluti af kælikerfinu þar sem þær leiða hita frá örgjörva og skjákorti.
Hér má sjá myndband frá Lenovo sem sýnir meðal annars lamirnar betur.
Skjárinn á Lenovo Yoga 900 er svipaður og á Yoga 3 PRO, þetta er skarpur og góður 13,3″ QHD+ Samsung snertiskjár með 3200 x 1800 upplausn og styður 10 punkta snertivirkni.
Lenovo Yoga 900 vélin sem ég fékk er vel búin vélbúnaðarlega og mun öflugri en Yoga 3 Pro vélin síðan í fyrra. Hún er með Intel i7-6500U örgjörva (SkyLake) sem keyrir á 2.5 – 3.1GHZ klukkuhraða sem er töluvert öflugri en Intel Core M 5Y70 sem er í Yoga 3 Pro og Apple Macbook vélinni sem báðar virka máttlausar. Yoga 900 er með 16 GB af vinnsluminni sem ætti að vera nóg fyrir langflesta ásamt því að vera með mjög hraðvirkum 256GB M.2 SSD disk.
Lenovo fóru þá leið, eins og á Yoga 3 Pro, að hafa powertakkann á hægri hliðinni sem ég bara skil ekki. Ég veit ekki hversu oft ég hef rekið mig í hann og sett vélina í sleep en ég fór þá leið að afleggja virkni takkans þannig að hann virkar bara til að kveikja á henni.
Lenovo Yoga 900 er með Intel HD 520 skjákorti og er með ágætis 720p vefmyndavél fyrir ofan skjáinn og skilar hún sínu verkefni ágætlega. Myndavélin hentar vel í allt þetta venjulega, sem við notum þessar vélar í, eins og Skype símtölin.
Tengimöguleikar
Á vinstri hlið er Yoga 900 er með 4-1 kortalesara sem styður flestar gerðir minniskorta (SD, MMC, SDXC, SDHC) sem er þægilegt að hafa til að tæma af heimilismyndavélinni. Þar er einnig annað USB 3 og eitt USB 3 Type C tengi.
Yoga 900 er til viðbótar með eitt USB 3 tengi á vinstri hlið sem er einnig notað til hleðslu, það er eins og USB tengi í laginu en með auka haki þannig að hleðslutækið fari rétt í samband. USB Type-C tengið er hægt að nota sem skjátengi og getur keyrt skjáupplausn allt að 4096 x 2304 upplausn með DisplayPort breyti eða 2560 x 1600 með HDMI.
Á hægri hlið Yoga 900 er annað USB 3, síðan er 3.5mm tengi fyrir heyrnartól, power takki og restore takki en hann ræsir upp restore hugbúnað sem gerir notendum kleyft að endursetja vélina aftur eins og hún var ný.
Yoga 900 er með sambyggðu Bluetooth 4.1 og góðu þráðlausu netkorti (Intel Dualband-AC 8260) sem styður öll helstu bönd og tíðnir. Það er magnað að hafa öll þessi tengi, sérstaklega ef þau eru borin saman við Macbook vélina sem er bara með einu USB-C tengi og töluvert heft vegna þessa.
Rafhlaða og lyklaborð
Lenovo Yoga 900 er, eins og fyrr segir, mjög þunn og meðfærileg og má leiða líkum af því að það sé á kostnað rafhlöðu, sérstaklega þessi bjarti QHD+ skjár. Vélin er með 4 sellu, 66 Wh rafhlöðu sem er gefinn upp fyrir 9 tíma endingu en ég náði samt einungis 6-7 tímum við stanslausa notkun í vinnu með birtuskilyrði í 50%. Þarna var ég reyndar með tónlist eða youtube í gangi allan tíma og notaði hana við venjulega vinnu.
Þegar vélin er fullhlaðin, power saving er á og birta alveg niðri þá segir Windows 10 að rafhlaðan muni endast í 15 klst en ég leyfi mér að efa það 🙂
Eins og venja er með flestar Lenovo vélar þá er lyklaborðið á Yoga 900 frábært og þægilegt í notkun.
Svipað og með Yoga 3 Pro og reyndar Macbook líka þá mundi ég vilja hafa takkana örlítið hærri þar sem þeir hreifast bara 1.2mm en það er líklega bara sérviska í mér. Yoga 900 er með gúmmí sem umleikur lyklaborðið en það gerði notkun enn þæginlegri en gott og mjúkt undirlag undir únlið er kostur ef skrifa á mikið.
Músin er orðin mun betri og leysti allt sem ég vildi þó að músin á Macbook, til samanburðar, hafi verið betri.
Hljóð og mynd
Skjárinn á Lenovo Yoga 900 er, eins og fyrr segir, frábær og líklega einn sá besti sem ég hef notað á fartölvu. Upplausnin á þessum 13,3″ QHD+ Samsung snertiskjá er 3200 x 1800 og skjárinn styðir 10 punkta snertivirkni eins og fyrr segir. Litir eru mjög skarpir, litadýpt góð og ekkert mál að nota hann þótt hann sé ekki alveg beint á móti notanda. Reyndar vill ég taka fram að ef ég horfði mikið á hlið (meira en 45 gráður) þá dekktist myndin og ég sá liti renna saman. Þetta er nær alveg sama niðurstaða og á Yoga 3 Pro vélinni. Sem sagt frábær skjár en svartur litur lekur stundum yfir í grátt þegar mynd er mjög dökk.
Það er ekki allt frábært við að hafa svona mikla upplausn því sum forrit eru ekki gerð fyrir svona mikla upplausn þar sem stafir verða mjög smáir. Með því að fikta í skjástillingum (DPI) þá náði ég að gera flest forrit góð eða í það minnsta nothæf.
Þrátt fyrir fjölhæfni þá er Yoga 900 bara venjuleg PC tölva og því get ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi, af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með öflugan örgjörva, nóg af vinnsluminni, hraðvirkum disk og vel fær um að leysa flest margmiðlunarverkefni með stæl.
Yoga 900 er með JBL hátölurum og Dolby Audio Premium hugbúnaði og er hljómur með þeim betri sem ég hef heyrt í fartölvu en það skiptir máli í hvaða stöðu vélin er. Ef vélin er notuð sem fartölva eða í spjaldtölvuham þá er hljóðið svolítið kæft en mun betra í tjald- eða standham enda eru hátalarar undir vélinni.
Samanborið við aðrar Ultrabook vélar sem ég hef prófað þá eru þessir hátalarar mjög góðir en hljóðið bjagast samt örlítið ef hækkað er í botn.
Margmiðlun
Það eru kannski stór orð en fjölhæfni og flottur vélbúnaður gera Lenovo Yoga 900 að einni af bestu heimilisvélunum á markaðnum til að neyta margmiðlunefnis. Hún er með öllum þeim helst tengjum sem heimili eða nemendur getur vantað til að tengja við hana USB lykla eða flakkara ásamt því að vera með HDMI tengi og Miracast stuðning.
Mjög einfalt, vélin gerði allt sem ég lagði fyrir hana og er hún í sérflokki vegna Yoga eiginleika.
Hugbúnaður og samvirkni
Yoga 900 kemur með Windows 10 og því hægt að setja upp öll venjuleg Windows forrit ásamt snertivænum forritum sem eru aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Með innbyggðum forritum og Office 365 áskrift þá er þessi klár í flest öll verkefni hvort sem það er heima fyrir eða í skólanum.
Eins og venjulega prófaði ég vélina með Office 2016, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust. Vélin er spræk og skemmtileg vél í alla staði.
Þessi vél, eins og flestar aðrar nýjar vélar, er hlaðin auka hugbúnaði frá framleiðanda og kemur það niður á upplifun notenda. Þessi upplifun er sannarlega breytileg milli notenda en yfirleitt eru 1-3 forrit nothæf meðan restin er söluvara eða óþarfi. Notendur geta vitanlega fjarlægt það sem þeir vilja ekki eins og með öll önnur Windows forrit en þetta pirrar mig og pirrar mig mikið.
Það er alltaf gaman að setja upp nýja Windows 10 vél því ég skrái mig bara inn með Microsoft notandanum mínum og eftir nokkrar mínúndur þá er tölvan eins og ég vil hafa hana. Tölvan sækir notandann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) og þannig fæ ég allar sérstillingar sem ég nota, bakgrunnsmynd o.s.frv.
Niðurstaða
Lenovo Yoga 900 er fjölhæf, öflug og falleg vél sem ætti að vera öðrum framleiðendum til fyrirmyndar, reyndar eru aðrir framleiðendur komnir með ýmisleg Yoga afsprengi til sölu.
Það er margt jákvætt skrifað um þessa vél hér að ofan og stend ég fyllilega við það allt því þetta er besta fjölnota heimilisvélin sem ég hef prófað hingað til. Eina sem er slæmt við hana er að konan var búin að ræna henni fljótlega eftir að hún kom á heimilið, en það er líklega gæðastimpill frekar en eitthvað annað. Vélin er mest notuð sem venjuleg fartölva en möguleikin að geta breytt stöðu hennar eftir notkun og umhverfi er frábær.
Sem vinnuvél þá mundi ég ekki skipta út Thinkpad Carbon vélinni minni fyrir þessa, sér í lagi þar sem hún kemur með Home stýrikerfi og því ekki hægt að skrá hana á domain. Sem heimilis- eða skólatölva þá er hún aftur á móti frábær og mæli ég heilshugar með henni eða Yoga 700, sem er minni týpan af þessari.
Eins og með allar vélar þá er hún ekki gallalaus en helstir eru þeir að powertakkinn er á hliðinni og vélin er ofhlaðin auka hugbúnaði frá framleiðanda.