Heim Ýmislegt Ertu að fá HD sjónvarpsmerki frá Símanum og Vodafone?

Ertu að fá HD sjónvarpsmerki frá Símanum og Vodafone?

eftir Jón Ólafsson & Gestapenni

Stutta svarið er Já…  en hversu gott er það?

Það ætti að vera nóg kaupa HD sjónvarp og tengja það með HDMI snúru við myndlykillinn sem Síminn eða Vodafone afhenda viðskiptavinum sínum og þannig fá Full HD mynd í nýja sjónvarpið..   þetta er samt ekki alveg svona einfalt.

Ég var eitthvað kvöldið að leita mér að flottu efni til að sýna félaga mínum nýja 55″ HD sjónvarpið mitt. Ég renndi í gegnum íslensku HD stöðvarnar og leiguna og sá ekkert sem kom nálægt því sem ég vissi að sjónvarpið gæti ráðið við. Ég endaði á 4K efni á Netflix og Youtube sem eftirá að hyggja er ansi furðulegt.

Ég fór síðan að pæli í þessu um helgina og rakst á þetta á vef RÚV

RÚV sendir út í 720p. Þetta er í samræmi við gæðamat European Broadcasting Union (EBU), en niðurstaða sérfræðinga EBU er að þótt ýmsir dagskrárliðir, þar sem hreyfing er lítil, komi vel út í staðlinum 1080i, væru gæði annarra útsendinga þar ekki jafngóð. Einkum er þá horft til íþrótta og annarra viðburða þar sem hraði er mikill.

Birt : 19.12.2014 – 10:43

Ég ákvað að skoða þessa EBU vísun á vef RÚV en í ljós kom að hún er úreld, þessi tilvísun er úr gæðamati sem unnið var fyrst 2004 en síðast endurskoðuð í fyrra og nú mikið breytt eins og hér má sjá. Í stuttu máli er ekki lengur talað um að 720p sé ráðlagt heldur að þeir mæli með progressive frekar en interlacing, en meira um það síðar.

Árið 2015 segir EBU: 720p/50 has been the optimum solution in the H.264 environment but currently 1080p/50 is the attractive option for H.265/HEVC.

Meira er um 720p, 1080i og 1080p staðla hér neðar

Við ákváðum því að leita til Símans og Vodafone og einnig að senda fyrirspurn á Stöð 2 og RÚV vegna þessa til að fá beint frá þeim hvernig þessum málum er háttað.

Spurningarnar sem fóru á RÚV og 365 voru.:

  1. Hver er upplausnin á straumnum sem Vodafone og Síminn fá frá ykkur (SD, 720p, 1080i eða 1080p)
  2. Ef hann er SD eða 720p…  Afhverju er það þegar margir af þeim þáttum sem þið sýnið eru nú fáanlegir í 1080 eða betra á t.d. Netflix?
  3. Ef hann er SD eða 720p…  Hvenær munið þið færa ykkur yfir í 1080 eða betra?
  4. Í hvaða formi sendið þið strauminn frá ykkur?  (MPEG2, MPEG4 eða annað)

Svarið frá RÚV

Svarið var svo sem ekki ýtarlegt en það svaraði öllu sem við vildum vita. Síminn og Vodafone eru að fá 1080i streymi frá RÚV.

Við sendum út í 1080i núna.

Við erum ekki komin með á tímaplanið hvenær við færum okkur í 1080p, en það er alls ekki slegið út af borðinu. Við bendum á að langflestar sjónvarpsstöðvar heimsins senda út í 720p, og að yfirleitt eru notaðir mun litadýpri kódekkar en netsjónvarpsstöðvarnar nota. Satt að segja þekkjum við ekki til þess að nein stöð innan Evrópu sendi í hærra en 1080i.

Svarið frá 365

Svarið frá 365 var mun ýtarlegra og benti á hluti sem okkur datt ekki í hug.

Við afhendum merki til Vodafone og Símans yfir HD-SDI sem er um 1.485 Mbps. Það er merki í bestu gæðum og óþjappað. HD rásirnar okkar eru í 1080i og þær rásir sem enn eru í SD eru sendar í SD til Vodafone og Símans. Dreifiveiturnar (Vodafone og Síminn) taka svo við. SD rásir eru á MPEG2 og HD rásirnar á MPEG4. Bæði Vodafone og Síminn kóða merkin frá okkur á HD rásunum í 1080i MPEG4 c.a. 8 – 12 Mbps.

Okkur þótti nokkuð áhugavert að sjá þennan mun á HD útsendingum Símans og Vodafone en í góðu sjónvarpi sérðu töluverðan mun á 720p eða 1080i útsendingu.

Vodafone skilar HD rásunum í 720p.

Síminn skilar HD rásunum í 1080i.

Til viðbótar komu þessar upplýsingar frá 365

Báðir aðilar sjá um kóðun á merkjum og ráðast gæðin af stillingum í kóðum og gæðum eða getu myndlykils.

Meiri þjöppun = minni bandbreidd = minni gæði.

Minni þjöppin = meiri bandbreidd = meiri gæði.

Hafa þarf í huga að dreifiveiturnar eru með margar gerðir af myndlyklum í umferð og straumarnir eru stilltir þannig af að þeir virki á móti öllum týpum.

Semsagt, 365 er að senda allt HD efni frá sér í óþjappað og í fullum HD gæðum og ef það skilar sér ekki til neytenda þá er þjónustuveitan að breyta/þjappa merkinu. Samkvæmt þessum upplýsingum virðist sem Vodafone downsampli 1080i efnið í 720p meðan Siminn sendir út í fullum gæðum eða 1080i.

Til viðbótar að þá kemur allt efni í Frelsi stöðvanna nema SkjásEins til dreyfingaraðila í Mpeg2 af einhverri ástæðu en ekki í Mpeg4. Þetta hefur mikil áhrif á gæðin og hamlar því að gæðin á Frelsisefni geti orðið betri.

Snúum okkur næst að Símanum og Vodafone og hvernig þessi fyrirtæki meðhöndla þetta 1080i merki sem berst frá RÚV og 365. Við vitum svo sem svarið eftir upplýsingar frá 365 og RÚV en okkur fannst nauðsynlegt að fá þetta staðfest frá þjónustuveitum.

Spurning mín var: “Hæ, getur verið að HD rásirnar ykkar séu að senda merki í 720p en ekki 1080i?”

Svarið frá Vodafone

Svarið frá Vodafone sem barst í gær (mánudag) var í takti við það sem kemur fram hjá 365, fyrirtækið virðist downsampla allt efni í 720p í stað þess að senda út í 1080i.

Ég persónulega skil ekki hvað viðmótið hefur um þetta að segja, annað hvort er efnið Full HD eða niðursamplað í 720p. Það getur verið að bakendinn/dreifikerfið þoli ekki bandvíddina, eða er það endabúnaður sem viðskiptavinir þeirra fá afhentan?  Hver svo sem ástæðan er fyrir því að Vodafone sé að downsampla efni úr 1080i í 720p árið 2016, þá þarf fyrirtækið að svara fyrir það.

Svarið frá Símanum

Svarið frá Símanum kom samdægurs en var nokkuð óljóst í upphafi…  Það verður samt að koma fram að ég sendi þeim þessa fyrirspurn á sunnudegi og mögulega hafði sá sem sá um Twitter hjá þeim ekki aðgang að réttum upplýsingum þá.

það er bara mjög misjafnt, normið í tv útsendingum er 720p en ekki 1080i einhverra hluta vegna og þannig kemur merkið oft bara

Í gær (mánudag) fékk ég síðan mun ýtarlegri upplýsingar og samkvæmt þeim þá er allt sent út hjá þeim í 1080i nema DR1, DR3, SVT 1 og NRK 1 sem eru í 720p.

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum þá eru allar stöðvar með SD og síðan 1080i HD rásir nema vitanlega DDR, SVT og NRK eins og áður hefur komið fram. Þetta er vegna þess að það eru ekki allir með háhraðatengingar sem bera HD straum eða þá að þeir þurfi tvo eða fleiri myndlykla á ADSL línu sem þannig hefur ekki bandvíddina.

Sjá eftirleikinn og viðbrögð Vodafone

Hvað er þetta 720p, 1080i og 1080p og hvaða máli þetta skiptir?

Eftir að hafa lesið þessi svör þá er kannski spurning að skoða aðeins þessa staðla og fyrir hvað þeir standa.

576i
Hér í Evrópu var stuðst við staðall sem kallast PAL (Phase Anlternating Line) fyrir tíma HD viðtækja. Þótt flestir noti skamstöfunina PAL þá er tækniheitið 576i og notar PAL upplausnin 720×576 en þetta kallast í daglegu tali SD (Standard Definition)

720p
Útsending í 720p þýðir upplausn sem er 1280×720 (við 50 ramma þá er pixlafjöldi 921.600) en þetta er rúmlega tvöföld upplausn á SD. 720p er oft kallað HD Ready en þetta er vegna þess að 720p er lágmarksupplausn til að geta talist vera HD. Þetta er sannarlega HD útsending en eðlimálsins samkvæmt þá ertu með mun færri pixla sem minnkar myndgæðin eðlilega samanborið við annað og sérstaklega ef fjarlægð í tækið er lítil eða sjónvarpstækið í stærri kantinum.

1080i/p
Útsending sem notar 1080 er það sem kallast Full HD (stundum True HD) en það segir ekki allt því það er til 1080i (Interlaced scan) og 1080p (Progressive scan).

Interlaced þýðir að hver rammi er sendur út í tvennu lagi sem sjónvarpið fléttar síðan saman í 1920 x 1080 upplausn við pixlafjöldi um 2.073.600 við 25 ramma. Það er sem sagt búnaður í sjónvarpinu sem sér um að de-interlace´a myndina, búa til einn ramma úr þessum tveim. Sjónvörp í dag eru orðin mjög fær að gera þetta hnökralaust enda hefur vinnslugeta sjónvarpa hundraðfaldast síðustu ár.

Progressive þýðir að römmunum er ekki skipt upp eins og í “i” staðlinum og flestir á því að þannig fáist mýkri og mun betri mynd en ella. BlueRay spilarar spila natively allt efni í 1080p og til að klára þetta þá má segja í mjög stuttu máli að 1080p sé málið og stálið þar sem sjónvörpin spila 1080p native án breytinga og líka þar sem við skoðum ekki 4K eða 8K hér i þessari færslu.

Það er svo sem ekki farið mjög djúpt í þetta hér í þessari færslu en til samanburðar

  1. 576i:           720 x 576 upplausn.
  2. 720p:         1280×720 upplausn.
  3. 1080i/p:    1920×1080 upplausn.
    Til viðbótar þá má taka fram að
  4. 4K:             3840×2160 upplausn.
  5. 8K:             7680×4320 upplausn.

Upplausn skiptir mjög miklu en er samt alls ekki allt í þessari jöfnu. Mín reynsla er sú að á sjónvarpi sem er um eða minni en 30” þá skiptir ekki öllu hvort útsendingin er 720p eða 1080i, nema ef setið er mjög nálægt því. Á stærra tæki þá skiptir þetta orðið mun meira máli og sér í lagi ef fjarlægð milli tækis og notenda er um eða undir 3m.

Ég þekki aðeins til í Bretlandi og þar eru allar rásir BBC, Channel 4, Sky og Virgin sem dæmi sendar út í 1080i. Þess má geta að Sky er að skipta yfir í 4K útsendingar með nýju Sky Q top-set boxinum sýnum

Niðurstaða

Svona til að pakka þessari langloku saman þá er gott að vita að RÚV og 365 eru að senda þjónustuveitum 1080i merki, ég efaðist um þetta en veit nú betur. Það er hinsvegar vonbrigði að Vodafone skuli niðursampla 1080i efnið í 720p en þetta er staðfest af bæði 365 og síðan Vodafone hér að ofan.

Það má með sanni segja að 720p sé partur af HD staðlinum en þessi upplausn er samt algert lágmark. Það er sorglegt að á meðan við erum með allar þessar háhraðanettengingar eins og þær eru kallaðar inn á rúmlega 90% heimila að sumir þurfi núna árið 2016 að sætta sig við 720p eins og ráðlagt var fyrir 10 árum síðan…..

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira