Við fengum í hendurnar, frá Eldhaf ehf, ný Bluetooth headset frá Sol Republic sem bera nafnið Shadow wireless. Sol Republic er ekki stórt merki hér á landi en er ört stækkandi erlendis, mest vegna hliðhollra umfjallana.
Hér er hægt að sjá upplýsingar frá Sol Republic um Shadow Wireless heyrnartólin sem fást hér á Íslandi hjá Eldhaf ehf, listaverð hjá þeim er 18.990 kr. m/vsk.
Hérna er svo afpökkunarmyndbandið okkar.
Hvað er þetta og hvað er í kassanum?
Shadow Wireless er Bluetooth 4.0 heyrnatól sem hægt er að tengja við öll tæki sem styðja Bluetooth, hvort heldur sem það er sími, spjaldtölva eða venjuleg tölva, til að spila tónlist ásamt því að það virkar líka sem handfrjáls búnaður fyrir síma. Heyrnatólin eru tæplega 40 gr., smella í eyru og liggur stærsti hluti þeirra við hnakka.
Rafhlaða heyrnatólanna er gefin upp fyrir allt að 8 tíma endingu og rétt rúmlega 9 m drægni í opnu rými. Lítil USB snúra fylgir tækinu fyrir hleðslu með venjulegu A tengi á öðrum endanum og micro tengi á hinum endanum, en það er eins snúra og er notuð fyrir alla helstu farsíma í dag (að undanskyldum iPhone).
Í kassanum eru heyrnatólin, hleðslusnúran og auka gúmmí, ef þau sem eru á heyrnatólunum passa ekki í eyrun. Að auki er að finna leiðarvísi með upplýsingum um tækið og hvernig á að setja það upp og tengja. Ég hef haft það fyrir venju að rýna alltaf aðeins í leiðbeiningar til að sjá hvort að flækjustig á tengingarferlinu sé nokkuð of kjánalegt en það er mjög einfalt með þessum heyrnatólum.
Hönnun
Shadow Wireless heyrnatólin liggja aftan á hálsinum og fram á við. Á endum koma svo út snúrur með þeim hluta sem situr í eyranu. Mér fannst þau liggja vel og ég hætti fljótt að verða eitthvað sérstaklega var við að þau lægju þarna á mér. Ég hafði ekki séð svona hönnun áður en það eru til önnur sem eru svipuð hönnuð en þau virðast öll vera stífari og ekki jafn sveigjanleg. Sol Republic segja að þessi hönnun sé fyrsta “NASA inspired” hönnunin á heyrnatólum. Hægt er að fá þau svört og það sem þeir kalla Rich Grey.
Á hægri hluta heyrnatólana eru 4 takkar, Bluetooth-, hækka-, lækka- og aðgerðartakki. Aðgerðartakkinn er notaður til að virkja raddstýringar, svara símtali og tónlistarstjórnun (pása,spila, næsta lag o.s.frv). Bluetooth takkinn er svo notaður til að tengja heyrnatólin við búnað og slökkva/kveikja. Þá er líka hleðslutengið undir litlum gúmmíflipa sem notar micro USB snúru til að hlaða. Gúmmíið sem er notað í þessi heyrnatól er í háum gæðum og fyrir vikið eru þau svita- og rakaheld. Ég myndi ekki mæla með því að þetta væri notað í einhverjum miklum djöflagangi en í skokki og göngu fannst okkur þau mjög fín.
Uppsetning
Uppsetningin á þessum heyrnatólum er eins og fyrr segir mjög einföld og ekki mikið hægt að skrifa um það. Við fyrstu tengingu er Bluetooth takkanum haldið niðri þar til bláa ljósið ljómar, en blikkar ekki, og svo er farið í tækið, t.d. símann og þar birtast heyrnatólin til að tengja þau. Þetta var eina skiptið sem ég þurfti að para það við þetta tæki, það tengdist svo bara sjálfkrafa næst.
Hægt er að hafa tólin tengd við tvö tæki og tala Sol Republic mest um að þú getir verið með tólin tengd við tölvu og síma á sama tíma og því ættir þú ekki að missa af símtali þó þú sért að hlusta á tónlist í tölvunni.
Hljómburður
Ég hef prófað nokkur þráðlaus heyrnatól og finnst mér ekki sanngjarnt að bera þessi saman við neitt annað en önnur heyrnatól sem fara svona í eyru en ég hef ekki ennþá prófað þráðlaus heyrnatól sem eru með betri hljóm en þessi. Sjálfgefin hljómstyrkur (e. volume) er nokkuð fyrir miðju og gefur ekki alveg rétta mynd af möguleikum heyrnatólana.
Ég hækkaði dálítið hressilega á heyrnatólunum, hækkaði svo í tónlistinni í símanum og mér fannst allt skila sér býsna vel, allt frá bassa að háum hljómum og það án þess að bjaga hljóðið. Ef ég ætti að setja út á eitthvað þá myndi ég alveg vilja að bassinn væri aðeins þéttari og betri.
Niðurstaða
Ég er einn af þessum sem er með leiðindareyru sem þessi “in-ear” heyrnatól tolla aldrei almennilega í, þessi eru þó ein af þeim skárstu hvað það varðar. Hljómurinn í þessum heyrnatólum var mjög góður og ég var mjög sáttur með þau. Hvað símtöl varðar þá kvartaði enginn af mínum viðmælendum yfir því að heyra illa í mér.
Tólin eru vel hönnuð, sterkleg og liggja það vel að maður hættir að taka sérstaklega eftir þeim. Rafhlöðuendingin var mjög nálægt þessum 8 tímum en að jafnaði var rafhlaðan að endast í nokkra daga þar sem ég var bara að nota þau frá 15 til 60 mínútum í hvert skipti. Hafa ber þó í huga að þessi tól eru ekki hugsuð sem tól fyrir fólk sem er að leita sér að heyrnatólum í hlaup, virkilegum djöflagangi (parkour?) heldur minni og almennri hreyfingu.
Þetta eru heyrnatól sem ég myndi hafa í topp 5 listanum þegar ég færi að setjast niður og spá í kaupum af einhverri alvöru, þ.e.a.s. ef ég væri að leita af þráðlausum tólum. Það má svo ekki gleyma að minnast á að Sol Republic bjóða “Ear tips for life” semsagt ef þig vantar ný gúmmí þá geturðu óskað eftir því og þeir gefa sér ca. 3-4 vikur í afhendingartíma, en þú gætir þurft að borga sendingarkostnaðinn.