Heim Föstudagsviðtalið Hrafn Jónsson

Hrafn Jónsson

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 101 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Rúmlega þrítugur piltur af Gröndunum sem hefur líka búið í Skerjafirðinum, Kópavogi, Mosfellsdal, Breiðholti, Seltjarnarnesi, Tékklandi og í smá stund í fáránlega hakkaðri íbúð við Bankastræti. Er núna fluttur inn á Brynhildi, kærustuna mína, sem réttindalaus leigjandi.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Þessa dagana vinn ég sem “Samfélagsstjóri” hjá hátæknihipsterkrúttunum í Plain Vanilla. Starfið gengur að stórum hluta út á samskipti við notendur QuizUp og almennt bara að vera fyndinn og skemmtilegur við fólk. Til hliðar við það sæki ég í vitsmunalegt og tilfinningalegt samþykki fólks með því að skrifa pistla á Kjarnann og vonast til þess að sem flestir læki þá. Þar á undan vann ég á framköllunarstofu, í kjörbúð, var til skamms tíma verslunarstjóri hjá Epli, kokkaði í mörg ár á allskonar veitingahúsum, lærði kvikmyndagerð í Prag og reyni svona að halda mér við í listinni með því að taka eitt og eitt freelance verkefni við að klippa og allskonar.

 

Hvert er draumastarfið?

Vá, er ekki besta svarið til að fá launahækkun og/eða vera ekki rekinn að segja “starfið sem ég er í akkúrat núna”? Annars er ég mjög ánægður í mínu starfi. Til hliðar við það langar mig að skrifa meira, grína meira, mögulega snerta eitthvað meira á bíói í einhverri fjarlægri framtíð.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég vakna hakkaður og illa sofinn og rúlla fram úr svona korteri seinna en ég ætlaði mér. Hef rétt tíma til að bursta tennurnar áður en ég mæti aðeins of seinn í vinnuna. Drekk c.a. 5-6 kaffibolla og er orðinn nokkuð góður um hádegisbilið. Vinn á milli þess sem ég refresha bæði Twitter og Facebook í von um að fólk sé að læka eða fava eitthvað grín sem ég setti inn. Hugsa aðeins um að hætta á öllum samfélagsmiðlum því ég sé búinn að leggja allt of mikið andlega undir og get ekki meir. Pósta svo nokkrum hlutum í viðbót. Á góðum degi reyni ég að fara að hreyfa mig í hádeginu sem verður samt til þess að ég mæti fáránlega sveittur aftur í vinnuna. Hef áhyggjur af því það sem eftir lifir vinnudagsins. Flest kvöld elda ég fyrir mig og Brynhildi, sem er ósjálfbjarga í eldhúsinu, tweeta nokkrum hálfkláruðum hugsunum sem ég sé svo strax eftir, fer í mjög langt bað, ætla mér að fara snemma að sofa en vaki til rúmlega 2 að horfa á 90s sjónvars-sci-fi á borð við Star Trek DS9 eða Farscape og kaupa fyndið dót af AliExpress.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Er mjög spenntur að plana síðbúið sumarfrí til Mið-Ameríku í nóvember og desember, en er þrátt fyrir það mjög sterka undirliggjandi fóbíu fyrir því að þar muni einhverskonar fluga verpa inn í mig. Annars bara þessi eilífa baraátta við að öðlast einhverja meiningu og tilgang.

 

Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?

Ég er stafrænn maður. Vinnandi hjá einhverskonar framtíðarhátækninetfyrirtæki þá fer öll mín vinna fram í gegn um tölvu. Ég skrifa í tölvu, klippi í tölvu, grína í tölvu, horfi á vont 90s sci-fi í tölvu. Í raun er þetta frekar sjúkt. Það er mögulega eitthvað að mér.

 

Lífsmottó?

Vá, ég veit það ekki. Grín? Grín er gott lífsmottó.

 

Sturlið staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Flestir sem þekkja mig vita kannski að ég er með frekar lamandi sviðsskrekk. Alveg þannig að ég stama og svitna ef ég þarf að tala fyrir framan fleiri en 5 í einu. Internetið er fínt tól fyrir fólk eins og mig – gefur mér tækifæri til að koma fram opinberlega og fæða egóið án þess að bresta í grát úr taugaveiklun á sama tíma. Kannski þarf ég að byrja í hláturjóga eða eitthvað.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Verandi starfsmaður töff startupfyrirtækis þá lifi ég Eplalífstíl. Ég er reyndar með Windows 10 sett upp í einhverju ömurlegu virtual machine sem ég hætti mér bara inn í af illri nauðsyn. Svo reyndar er ég með Rasperry Pi 2 maskínu sem ég hef verið að keyra allskonar Linux útgáfur á. Til hvers? Ég veit það ekki.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er með iPhone 6 núna sem er minn fyrsti iPhone í allnokkur ár. Ég reyndar skipti um síma á c.a. hálfs árs fresti því að ég er sjúklingur sem hatar peningana sína. Hef átt ótrúlegt magn af misfáránlegum Android símum síðustu ár. Sá fáránlegasti var líklega Asus Padphone, sem var snjallsími sem maður gat smellt í svona spjaldtölvu dokku og breytti þannig símanum í spjaldtölvu. Áhugavert á pappírunum, fullkomlega fráleitt og fáránlegt í praktík. Kostaði líka 190.000. Er enn að borga niður raðgreiðsluna.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég er aftur orðinn pínu iPhone fanboy. Um tíma fannst mér rosa sniðugt að geta verið með Android síma sem ég gat rootað og lódað einhverjum h4x0ruðum stýrikerfum á – en það var alltaf svo mikið ströggl. Núna er ég orðinn svo gamall, ráðsettur og hræddur að ég vil bara eitthvað persónuleikasnasnautt dót sem að virkar og ifónninn er rosalega fínn í það. Svo er minn gulllitaður þannig að mér líður alltaf eins og smá fancy boy.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Refresha Twitter notifications
  2. Refresha Facebook notifications
  3. Pósta hlutum á meðan ég er á klósettinu.
  4. Browsa AliExpress
  5. Peppa fólk á RunKeeper svo þau peppi mig.

Ég er ekki mikill app-maður. Ég ætla mér alltaf að vera það, downlaoda allskonar öppum sem eiga að vera sniðug og auðvelda mér lífið en sitja svo bara og deyja hægum dauða milli þess sem þau senda mér örvæntingarfull push notification þar sem þau biðla til mín að opna sig, þó það væri ekki nema bara einu sinni enn. Ég nota t.d. ekki neitt app til að skoða stöðuna í íþróttaleikjum, heldur fer ég bara á textavarp.is/390 í símabrowsernum.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég er Nokia 5110 barn. Fékk minn fyrsta síma þegar ég var að byrja í menntó, um svipað leyti og allir aðrir voru að fá sér nýrri og betri síma. Ég elskaði þennan síma samt, sérstaklega í samanurði við martraðakennda Sagem símann sem ég keypti mér næst. Annars reyndi ég að telja um daginn hversu marga farsíma ég hef átt og gafst upp þegar ég var kominn yfir 20. Ég er nefnilega mjög langt leiddur af áráttukenndri kaup-og-endursölufíkn.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Erum við ekki að komast að ákveðnum þrotmörkum hvað varðar það sem hægt sé að troða inn í farsíma? Það er í raun pínu fráleitt að kalla þetta síma lengur þar sem það er raunar minnsti parturinn af þessum tækjum. Ég svara t.d. nánast aldrei í símann og óþekkt símanúmer valda mér miklum kvíða. Annars fór ég upp í CCP um daginn og fékk að prufa hjá þeim Oculus VR dótið sem þau eru að þróa þar og nú á ég mér bara að þá einu ósk að allur minn veruleiki, þar á meðal sími, hverfi einhvern veginn inn í einhvern sýndarheim. Engin lægð þar.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég rúnta reglulega inn á Engadget og Gizmodo sem mér finnst reyndar forheimskast meira og meira með hverju árinu. Svo er ég með mikið kvikmyndatekknóblæti þannig að ég fylgist mikið með tæknisíðum tengdum því á borð við Newsshooter, Nofilmschool og Cinema5D þar sem þvalir nördar eru reglulega að telja pixla og tala um litadýpt og annað hræðilega leiðinlegt en áhugavert stöff.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ef þið sjáið Tweet eða Facebook póst eftir mig, plís staldrið við og lækið hann. Þið þurfið ekki einu sinni að lesa hann frekar en þið viljið.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira