Heim ÝmislegtApps Windows 10 kemur 29. júlí

Windows 10 kemur 29. júlí

eftir Magnús Viðar Skúlason

Microsoft hefur staðfest að nýjasta útgáfan af Windows, sem nefnd hefur verið Windows 10, komi í sölu og dreifingu 29. júlí.

Sjaldan hefur eftirvæntingin eftir uppfærslu á Windows-stýrikerfinu verið beðið með eins mikilli eftirvæntingu því eins og kunnugt er þá hefur Microsoft gefið það út að Windows 7 og Windows 8.1 notendur geti uppfært ókeypis upp í þessa útgáfu af Windows-stýrikerfinu.

Nú þegar ættu Windows 7 og 8.1-notendur að taka eftir tilkynningu þar sem þeim er bent á að hægt er að taka frá uppfærslu og þá fá notendur tilkynningu um hvenær þeir geti nálgast sína útgáfu frítt.

Með Windows 10 mun m.a. Cortana-raddstýringin sem verið hefur í Windows Phone fram til þessa verða aðgengileg í Windows-tölvum, nýr vafri kynntur til sögunnar sem nefnist Microsoft Edge og líkur þar með ævintýrum Internet Explorer sem fylgt hefur Windows-stýrikerfinu til fjölda ára. Að auki mun Windows Continuum verða hluti af Windows 10-upplifuninni og mun þessi virkni tryggja að þú getir notað Windows forrit á hvaða tæki sem er, sem keyrir á Windows, hvort sem það er spjaldtölva, borðvél, fartölva eða sími. Hugmyndin á bakvið Windows Continuum byggir á þeirri hugsun hjá Microsoft að bjóða upp á aðeins eina útgáfu af smáforritum eða forritum fyrir Windows-tæki þannig að óháð því hvort þú ert í síma eða tölvu þá getur þú alltaf notað forritið. Síðast en ekki síst er vert að minnast á Start-takkann góða sem snýr aftur af fullum krafti og má segja að Start-takkinn úr Windows 7 og Start-valmyndin úr Windows 8.1 hafi sameinast í Windows 10.

Einnig hefur Windows Store tekið stakkaskiptum í ljósi þessi að Universal Apps verður einn af stærstu þáttunum í nýju Windows-útgáfunni.

Hér fyrir neðan er síðan stutt myndskeið þar sem Joe Belfiore (launsonur Sylvester Stallone og Tom Cruise) fer yfir það helsta sem Windows 10 er að bjóða upp á:

Heimild: Neowin.net

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira