Lappari.com hefur verið með í prófunum Pebble Steel snjallúr undanfarna daga. Um er að ræða fyrstu kynslóða Pebble úra en nýlega hélt fyrirtækið Kickstarter herferð þar sem það seldi í forsölu nýjustu útgáfu af snjallúrunum sínum. Mikil eftirvænting var greinilega eftir uppfærðri útgáfu af úrinu því rúmlega 78.000 einstaklingar styrktu verkefnið og tryggðu sér um leið eintak af úrinu. Alls safnaði fyrirtækið ríflega $20 milljónum en margir höfðu búist við því að fyrirtækið myndi nýta sér hefðbundnari sölu- og dreifileiðir þar sem fyrirtækið er þegar með vefverslun til staðar.
Tæp þrjú ár eru síðan Pebble hóf sölu á fyrstu kynslóð af úrunum sínum einmitt í gegnum Kickstarter en í þeirri herferð safnaðist yfir $10 milljón frá tæplega 69.000 einstaklingum.
Oft er talað um að Pebble sé brautryðjandinn þegar kemur að snjallúrum en fyrirtækið var með þeim fyrstu til að setja vöru í þennan vöruflokk.
Pebble Steel úrið sem við höfðum til prófunar er veglegri útgáfan af úrinu en einnig er hægt að fá ódýrari útgáfu þar sem er gúmmíól auk þess sem kassinn sjálfur utan um úrið er stærri og gerður úr plasti.
Hér að neðan er samanburður á annars vegar Pebble Steel úrinu sem við höfðum til prófunar og hins vegar Pebble Time úrinu sem kemur út á þessu ári og er þegar farið að rúlla út til þeirra sem forkeyptu í gegnum Kickstarter.
Pebble Steel | Pebble Time Steel | |
Ummál | 46mm x 34mm x 10,5mm | 40,5mm x 37,5mm x 10,5mm |
Þyngd með ól | 56gr | 62,3 gr |
Tengimöguleikar | Bluetooth 4.0 | Bluetooth 4.0 |
Skjár | 1,26″ 144×168 px e-paper | 1,25″ 144x168px color e-paper |
Skynjarar | 3D accelerometer, compass, light sensor | 3D accelerometer, compass, light sensor, microphone |
Rafhlaða | Lithium-ion polymer, 7 daga ending | Lithium-ion polymer, 10 daga ending |
Efni | Úrverkið: Marine grade stainless steelÓlin: Leður | Úrverkið: Marine grade stainless steelÓlin: Leður |
Hönnun
Nú höfum við hjá Lappari.com einnig prófað Apple Watch og er persónulegt mat þess sem skrifar að Pebble úrið fer betur á hendi heldur en Apple úrið. Það er nettara og hönnunin sem slík svipar mjög til þeirra hefðbundinna úra sem eru á markaðnum nú þegar. Á smá stundu hætti maður að vera meðvitaður um að úrið væri á hendinni og í raun einu áminningarnar voru þegar tilkynningar komu á símann en því fylgdi heldur hastur víbringur á úlnliðnum.
Leðurólin sem fylgir úrinu kemur vel út með úrinu sjálfu og saman myndar þetta skemmtilega heild. Eftirá að hyggja hefði ég ekki kosið að fara í hefðbundna Pebble úrið þó það sé helmingi ódýrara í verlsunum hérlendis en byggist það einna helst á heildar yfirbragði úrsins.
Uppsetning og samvirkni
Auðvelt er að setja úrið upp en til þess þurfti að setja upp Pebble appið í símanum hjá mér og samkeyra það í gegnum Bluetooth. Eftir það var þetta í raun einfalt mál. Í appinu er einnig verslun þar sem hægt er að sækja t.d. nýjar klukkuskífur (watchfaces) eða viðbætur við úrið eins og fyrir Runkeeper.
Pebble appið er í boði fyrir Android og iOS símtæki og einnig eru til takmörkuð 3rd party forrit fyrir Windows símtæki.
Úrið eitt og sér fjarri símtæki virkar eins og hvert annað úr, ef það er utan við drægni símans þá segir sig sjálft að það sækir engar upplýsingar um tilkynningar eða neitt slíkt. Ég setti upp appið Misfit sem er heilsu mælitæki og var því sífellt verið að skrá skrefafjölda en það hélt einnig utan um svefninn hjá mér þær nætur sem ég gleymdi að taka úrið af úlnliðnum.
Hugbúnaður
Stýrikerfi úrsins er mjög einfalt. Vinstra megin á úrinu er stakur hnappur staðsettur fyrir ofan hleðslutengið en hægra megin eru þrír hnappar. Strax þegar maður byrjar að fikta sér maður að hnappurinn vinstra megin er “back” hnappur.
Takkarnir hægra megin opna valmyndina og hjálpa manni að fara um hana. Einnig er hægt að stilla úrið þannig að upp og niður hnappurinn kveiki á einhverju sérstöku forriti en ef þeir eru látnir óbreyttir eru þeir til þess að fletta á milli þeirra skjámynda sem maður vill hafa hverju sinni.
Ágætis framboð er af forritum fyrir úrið, einna helst er maður þó að falast eftir heilsu tengdum forritum og er nóg af þeim í boði. Einnig er mikið úrval af skjámyndum (watchfaces) fyrir úrið.
Allar tilkynningar sem birtast á símanum hjá mér birtust einnig á úrinu og þurfti ég ekkert að stilla neitt varðandi það, meira að segja tilkynningar um að síminn hafi uppfært öpp komu upp á úrinu.
Heilt yfir kom á óvart hversu vel úrið og síminn minn (iPhone 6) tengdust vel saman og reyndist úrið verða þessi auka skjár fyrir símann sem olli því að síminn varð ansi oft eftir á borðinu í stað þess að rata í vasann.
Eina sem maður hefði viljað hafa í úrinu væri hjartsláttarmælir, það hefði fullkomnað úrið sem “health tracker” fyrir mig auk þess sem GPS hefði mátt vera þar einnig.
Eins og staðan er núna þarf síminn að vera í vasanum þegar maður fer út að hlaupa og hefur úrið ekki möguleikann að vera “standalone” þegar kemur að slíku. Hinsvegar vinnur úrið einstaklega vel einmitt þegar farið er út að hlaupa t.d. en með Runkeeper verður úrið að auka skjá og birtir helstu upplýsingar varðandi árangurinn auk þess sem hægt er að stýra forritinu að einhvejru leiti í gegnum úrið (pause workout).
Dagleg notkun og rafhlöðuending
Ólíkt Apple Watch er skjárinn á Pebble úrinu sífellt í gangi en hægt er að “vekja” úrið með því að hrista það hressilega fram úr erminni og við það kviknar á baklýsingu. Skjárinn styðst við sömu tækni og Amazon Kindle og því meira í ætt við úr þar sem upplýsingarnar eru sífellt til reiðu og ekki þarf að kalla þær sérstaklega fram líkt og hjá Apple.
Þrátt fyrir að vera sífellt í gangi tókst okkur að ná fimm til sex dögum á milli hleðslna sem myndi teljast ansi gott fyrir svona vöru en Apple úrið var að duga daginn svona til samanburðar.
Auðvelt er að hlaða úrið en með því fylgir USB hleðslusnúra sem tengist við tölvuna og með segli við hlið úrsins, tekur tæpar þrjár klukkustundir að fullhlaða úrið.
Það sem kom mér einna helst á óvart hversu fljótt úrið varð að “mösti” hjá mér. Úrið myndaði ákveðna heild ásamt símanum mínum sem gerði mig algjörlega háðan því að hafa úrið.
Niðurstaða
Ef þig langar að prófa þennan snjallúra lífsstíl en ert ekki tilbúinn að fara upp í Apple Watch þá er Pebble mögulega lausnin fyrir þig. Þær útgáfur sem þegar eru komnar á markaðinn og eru fáanlegar, meðal annars hjá Tölvutek, eru ekki að fara setja þig á hausinn. Hinsvegar þarftu að gera ákveðnar málamiðlanir eins og að hafa skjáinn svarthvítan, ekki snertiskjá og ekki með púlsmæli.
Pebble Steel er fyrst og fremst snjallúr. Ekki lífsstíls mælitæki sem hefur verið bætt við tímamæli heldur fyrst og fremst úr.
Pebble er áhugavert tæki og í raun ósanngjarnt að fara bera það saman beint við Apple Watch þótt að undirritaður hafi verið mjög meðvitaður um muninn þarna á milli, byggðan á eigin reynslu.
Þannig að til að draga þetta saman, ef þig langar að prófa snjallúr, ert ekki endilega að leita að lífsstíls mælitæki heldur vilt frekar prófa eitthvað sem er framlenging af símtækinu þínu á viðráðanlegu verði og lítur vel út þá er Pebble Steel eitthvað sem hægt er að mæla með.