Í gær birtist viðtal við forstjóra Nokia, Rajeev Suri, í tímaritinu Manager Magazin í Þýskalandi. Í viðtalinu staðfestir Suri að Nokia muni snúa aftur á símamarkaðinn þegar skilyrði samkomulags Nokia við Microsoft um að Nokia noti ekki vörumerkið sitt í framleiðslu á símum rennur út. Samkvæmt samningnum er Nokia óheimilt að nota vörumerkið sitt í símaframleiðslu til loka árs 2016.
Skemst er að minnast þegar Nokia kynnti Nokia Z1-spjaldtölvuna fyrr á þessu ári sem vakti gríðarlega athygli, ekki bara fyrir glæsilega hönnun og lágt verð heldur fyrir það eitt að Nokia væri enn á raftækjamarkaðnum eftir söluna á símaframleiðslunni sinni til Microsoft haustið 2013.
Suri staðfestir að Nokia muni beita sömu aðferð varðandi símaframleiðslu sína og með spjaldtölvuna þ.e. að Nokia sér um hönnina og leggur nafnið sitt til en síðan mun einhver framleiðandi taka að sér framleiðsluna og dreifinguna. Með Z1-spjaldtölvuna þá tók Foxconn í Asíu verkið að sér.
Engar staðfestingar liggja því fyrir um hvaða stýrikerfi verði notað á hinum nýju Nokia-símum en það mun því ráðast hvaða framleiðandi myndi starfa með Nokia að framleiðslunni. Líklegt þykir þó að Android-stýrikerfið muni sjást á Nokia-síma á næstunni og ætti það eflaust að gleðja margan Nokia-áhangandann.
Stóra spurningin er þá þessi; mun Nokia ná að koma hinni klassísku Nokia-símahönnun aftur á kortið með þessari ákvörðun?