Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 86 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég heiti Gunnar Þór Hafdal, fæddur á Húsavík en uppalinn á Glæsibæ II í Hörgársveit sem er næsta sveitarfélag norðan við Akureyri. Er annars búinn að búa í Árósum síðan vorið 2006.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég vinn sem “front-end developer” hjá Valtech sem er alþjóðleg stafræn ráðgjafastofa. Þar hef ég verið að vinna með fyrirtækjum eins og Arla, Bayer, Novo Nordisk og Vestas.
Svo hef ég ásamt vini mínum Gísla Dúa verið að gera myndir og myndbönd um týndan hest í líkama manns sem við köllum Knaldemand. Mjög súrt en gott og inniheldur smá listræna nekt sem flestir fíla held ég bara. Fyrir þá sem vilja þá má nálgast hann á knaldemand.dk.
Spila líka handbolta með Mjölni sem er íslendinga handboltafélagið hérna og svo er ég meðlimur í Íslendingafélagi Árósa og nágrennis og hef verið í Þorrablótsnefnd síðustu 4 ár.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Fyrir utan vinnu þá er ekkert alltof mikið að ske, sem er fínt því það er búið að vera mikið um ferðalög og svoleiðis uppá síðkastið, er oft á fundum í Kaupmannahöfn.
En núna er það bara að nýta það að sumarið er komið, ég ætla t.d. á tónlistarhátíðina Northside í næsta mánuði og svo plana og halda uppá 30 ára afmælið mitt í sumar. Svo reynum við örugglega að taka upp einhver myndbönd fyrir Knaldemand.
Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?
Bara í allt, vinnan mín væri ekki til ef tölvan hefði ekki verið fundin upp. Allt frá hönnun á heimasíðum, til forritunar á þeim og að skoða þær. Þetta er allt gert á tölvum. Við notum reyndar pappír og penna í hönnunarfasanum og skrifum á töflur á fundum en allt er gert á tölvum og ef það er ekki gert á þeim þá endar það sem maður gerði inní einni á endanum.
Ætli maður væri ekki að vinna með hesta ef tölvur væru ekki hér, eða ljósmyndun.
Hvaða nýjungum í IT eiga lesendur að fylgjast með í náinni framtíð?
Róbótar og sjálfkeyrandi bílar/flugvélar/fararæki. Þetta eru byltingar sem mun hafa mikil áhrif á hvernig við munum vinna í framtíðinni.
Ég ráðlegg fólki að horfa líka á Humans Need Not Apply eftir CGP Grey
Mjög áhugavert myndband um hvaða vandamál með atvinnu og þessháttar eru að koma á sjónarhornið útaf þessu.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Ég nota Mac OS X og iOS til dags daglega á tölvunum mínum. Nota svo Windows 8.1 í Parallels alla daga til að keyra Visual Studio. Þar sem allar síður sem við gerum keyra á .Net þá þarf ég það í augnablikinu (vona að maður geti bráðlega keyrt þessar síður á OS X). Danmörk er soddan .Net land nefnilega, greyin.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég er með gull iPhone 6. Besti sími sem ég hef átt og ég hef átt þónokkra.
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Kostir eru hvað þessi tæki eru orðin snögg og hvað myndavélin er góð. Aðal gallinn við þennan síma er hvað hann er sleipur, er t.d. búinn að stúta skjánum einu sinni. Verst að ég hata covers meira svo hann er alltaf nakinn bara.
Í hvað notar þú símann mest?
- Samskiptaforrit eins og Messenger, Snapchat og Twitter
- Myndavélin og forrit tengd því
- Tónlist og podcasts
- Google Maps
- Fantastical
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Fyrsti síminn var Nokia 3210. Alger snilldar sími, var með Snake, útskiftanlegum covers og bara allt sem maður þurfti í síma á þeim tíma, eins og T9 fyrir SMS.
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Held að næsti sími verði Plus útgáfan af næsta iPhone. Væri til í stærri skjá. Annars er iPhone 6 mjög góður og ég er sáttur við iOS eins og stendur.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Af Íslenskum síðum fylgist ég með Lappari. Annars er það Daring Fireball, The Loop, Six Colors og MacStories. Fer svo reglulega inná The Verge. Í Danmörku skoða ég mest Version2.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Munið að borða nóg af ís í sumar.