Lappari.com hefur verið með Apple Watch í prófunum en það voru félagar okkur í Macland voru svo almennilegir að lána okkur gripinn. Apple Watch hefur fengið gríðarlega mikla umfjöllun síðan Apple kynnti úrið í fyrra og sérstaklega eftir Apple Watch viðburðin sem fór fram 9. mars.
Margir hafa beðið eftir Apple Watch með eftirvæntingu og við hér á Lappari.com erum engin undantekning. Ég var sérstaklega spenntur þar sem ég skipti fyrir skemmstu úr Android yfir í iPhone og hlakkaði til að sjá samvirknina milli úrsins og símans.
Apple Watch komu í verslanir vestanhafs undir lok síðasta mánaðar en samkvæmt heimildum okkar þá er ekki von á þeim í verslanir hérlendis fyrr en í haust. Þó að við höfum ekkert fyrir okkur í því þá má áætla að úrin komi líklega til með kosta frá 70 þúsund krónum og þau dýrustu munu kosta um eða yfir 3 milljónir króna.
Þær umfjallanir sem við höfum lesið um Apple Watch hafa nær allar verið mjög jákvæðar og því áhugavert hvort okkar niðurstaða verði það einnig.
Hönnun
Við höfum skoðað nokkuð mörg snjallúr sem okkur þóttu falleg eins og t.d. LG G Urbane og Moto360 svo eitthvað sé nefnt en þetta Apple Watch er í allt annari deild. Þetta er án efa fallegasta snjallúrið sem við höfum prófað og séð. Útlit er látlaust og ekki of nördalegt en Apple nær mögulega til fleiri með því.
Metnaður tæknirisans skín í gegn þegar Apple Watch er handleikið og það er mjög vel smíðað og virðist vera nokkuð sterklegt. Þetta er fyrsta tilraun Apple við gerð snjallúra en það ber þess ekki merki þegar kemur að útliti og frágangi. Þó ber að nefna að sú útgáfa af úrinu sem við fengum í prufu er ekki sú ódýrasta af þeim sem Apple býður upp á.
Bakhliðin er mögulega enn fallegri en framhliðin en þar eru nemar eins og t.d. púlsmælir sem úrið notar til að afla upplýsingum og birta notendum.
Horft til framtíðar þá má reikna með því að Apple muni gera úrið þynnra og léttara. Apple Watch er sannarlega þyngra en önnur úr sem ég nota að staðaldri en þó ekki meira en svo að þegar það er komið á únliðinn þá truflar það ekkert.
Uppsetning og samvirkni
Uppsetning á Apple Watch er tiltölulega einföld, tækið sem við fengum í prufu var nánast fjarlægt af handlegg Maclendings svo fyrsta skref var að hreinsa tækið sem var ótrúlega einfalt og gert beint í valmynd úrsins. Þar sem Apple hafði þegar bætt við forriti í iOS fyrir Apple Watch var uppsetningin sáraeinföld. Fyrst var valið tungumálið sem úrið átti að vera á og svo valið að para það saman við símtæki. Við það birtist undarleg mynd af punktum á ferð.
Símtækið var einnig stillt á pörun og við það opnaðist gluggi þar sem viðkomandi var beðinn um að skanna myndina á úrinu með myndavélinni á símanum. Það er reyndar áhyggjuefni hversu einfalt er að eyða notendaupplýsingum af úrinu því eigendur virðast vera algerlega óvarðir ef úrið tapast.
Í framhaldi hófst pörun tækjanna og uppsetning á þeim öppum sem áttu að vera til staðar í úrinu. Úrið bauð upp á möguleikann að setja sjálfkrafa inn þau öpp sem núverandi símtæki væri að nýta eða handvelja inn öpp sem ættu að vera til staðar. Þar sem spenningurinn var í hámarki var ákveðið að leyfa tækinu að setja allt inn og tók þá við smá bið meðan nauðsynleg öpp voru sótt og sett upp.
Tenging milli úrs og síma á sér stað í gegnum Bluetooth og því vert að athuga að þegar langt er á milli tækja (utan þess radíusar sem Bluetooth nær) þá virkar Apple Watch frekar takmarkað, þar sem það er ekki að sækja allar nauðsynlegar upplýsingar og kemst ekki á netið þar sem það sækir þá virkni í símann.
Án símtækis er því virkni Apple Watch nokkuð takmörkuð en þannig er nú reyndar með flest ef ekki öll snjallúr.
Hugbúnaður
Apple voru ágætlega undirbúnir þegar Apple Watch kom í sölu en á fyrsta degi voru ríflega 3.000 öpp í Apple Store tilbúin til notkunar. Fjöldi forrita fyrir Apple Watch eykst jafnt og þétt með hverjum degi og má telja öruggt að flestir finni app sem hentar þeim í Apple Store. Ýmsir hafa þó gagnrýnt gæði þeirra forrita sem eru til en sökum tímaskorts þá náðum við ekki að prófa það ýtarlega.
Hér má sjá úrið í notkun
Þau öpp sem prófuð voru höfðu sína kosti, t.d. var áhugavert að skoða Twitter appið þar sem það hafði einungis tvo valmöguleika, annars vegar að skoða sína eigin tímalínu eða hins vegar að skoða það væri að “trenda” hverju sinni. Ég prófaði að reyna tísta í gegnum úrið, nýtti til þess Siri vinkonu mína sem var viljug til þess upp að vissu marki. Til að klára ferlið þurfti ég að nýta “handoff” möguleikann þar sem ég í raun aflæsti símanum mínum og síminn sá um að klára ferlið fyrir mig. Þannig var með ansi marga möguleika sem ég prófaði Siri á, oftast vildi hún láta símann minn um að klára ferlið.
Þau öpp sem fylgja úrinu, eins og Activity, koma hins vegar rosalega vel út enda hönnuð með úrið í huga og nýta skjáinn til hins ítrasta. Eins og fyrr segir er eitthvað úrval af öppum í versluninni en framleiðendur virðast enn vera átta sig á þeim möguleikum sem búa í úrinu sjálfu. Gallinn virðist vera sá að framleiðendur eru að reyna að láta forritið virka eins á úrinu og í símanum, en eins og gefur að skilja þá getur það reynst vandasamt.
Skjárinn á Apple Watch er bjartur og fallegur, sést vel á hann og auðvelt að lesa texta af honum. Skjárinn er með eiginleika sem kallast Flexible Retina Display sem er aðeins að finna á Apple Watch í dag en mun án efa sjást á fleirri Apple vörum í framtíðinni. Skjárinn skynjar snertingu notenda mismunandi eftir því hversu lengi eða fast notendur að þrýsta skjáinn.
Dagleg notkun og rafhlöðuending
Rafhlöðuendingin kom á óvart á tvenna vegu, fyrst ber að nefna hversu stutt hver hleðsla er samanborið við Pebble. Þó verður að taka fram að allt slíkt er fyrirgefið þegar maður horfir á skjáinn á úrinu. Hins vegar kom einnig á óvart að eftir heilan dag af dágóðu fikti að þó var eftir tæp 40% af hleðslunni við lok dags. Þetta er betra en ég þorði að vona þar sem helsta umkvörtun tæknimiðla og eigenda er döpur rafhlöðuending (þarf að hlaða daglega).
Sú útgáfa af úrinu sem við höfðum í prufu var með þægilegri leðuról og því vandist það ansi fljótt að vera með úrið á úlnliðnum. Fyrir einhvern eins og mig sem gengur dagsdaglega með úr þá gleymdi ég því ansi oft að ég væri í raun með snjallúr á hendinni þó reglulega minnti það á sig með titringi þegar tilkynningar komu eða þegar það vildi að ég stæði upp (hluti af Activity appinu).
Tilkynningar frá Facebook á únliðinn eru gagnlegar.
Þar sem prufutíminn var ansi knappur þá var úrið einungis hlaðið einu sinni og það yfir nótt svo hleðslutími var í sjálfu sér aldrei neitt vandamál.
Á meðan ég var með úrið í prufu hugsaði ég oft hversu mikil snilld þetta í raun væri, en einnig hugsaði ég stundum út í það hversu óþarfi þetta væri í raun og veru.
Niðurstaða
Við vorum ekki lengi með Apple Watch en það skilur okkur eftir með blendnar tilfinningar. Þetta er án efa fallegasta snjallúrið á markaðnum í dag og með mest af nothæfum forritum fyrir notendur. Apple eru sannarlega að leggja öðrum framleiðendum línurnar hvað varðar hönnun og notagildi en Apple Watch er það sem verður miðað við héðan í frá.
Takmarkað notagildi, hátt verð og að rafhlaðan dugi bara daginn eru stærstu gallarnir við Apple Watch. Ef þetta eru yfirstíganlegar hindranir fyrir þig þá einfaldlega þarftu að fá þér eintak og miðað við móttökur markaðarins þá eru margir sem geta sætt sig við þetta því úrið hefur selst gríðarlega vel.
Ætlar þú að fá þér Apple Watch? Láttu okkur vita í commenti hér fyrir neðan.