Við hér á Lappari.com höfum verið með Lenovo Yoga Tablet 2 vél til prófunar í nokkrar vikur og því kominn tími á að setja eitthvað á blað um vélina. Yoga vélarnar frá Lenovo eru mjög sérstakar að mörgu leiti en helst eru það mismunandi stillingar/form sem hægt er að setja vélarnar í eins og fjallað er um í Yoga 3 Pro umfjöllun hér.
Yoga Tablet 2 er svo sem ekki hefðbundin Yoga vél eins og við þekkjum þær en hefur samt þó nokkrar stöður sem hinar Yoga vélarnar hafa.
Hér má sjá Yoga Tablet 2 afpökkun
Það eru líklega flestir með Android eða iPad spjaldtölvur á heimilum sínum en Windows spjaldtölvur hafa verið að bæta við sig fylgi síðustu mánuði. Það eru margir að mér meðtöldum sem sjá kosti þess að hafa venjulega PC tölvu í spjaldtölvu skrokki því hún keyrir öll forrit sem maður er vanur í venjulegri tölvu.
Þessi 10″ Yoga Tablet 2 vél sem við ætlum að prófa hér lítur vel út á blað, með fullri útgáfu af Windows with Bing, búin öflugum vélbúnaði og er á nokkuð góðu verði…. hvað getur klikkað?
Hönnun og vélbúnaður.
Ég varð strax mjög hrifin af útliti og hönnun á þessari vél en einso g ég hef oft sagt þá er það er í raun og veru ótrúlegt að hægt sé að koma svona öflugri vél fyrir í svona lítilli skel. Vélin er aðeins 619 g án lyklaborðs og þegar ég handlék hana þá fékk ég strax þá tilfinningu að vélin væri sterkbyggð og vel hönnuð.
Lenovo Yoga Tablet 2 kemur í þremur útfærslum en þær eru 8″ með AnyPen tækni ásamt 10″ sem hér er prófuð og að lokum 13″ vél.
Yoga Tablet 2 eru með útsmellanlegum fæti sem er með gati og því hægt að hengja hana upp ef það hentar. Spjaldið er allt mjög þunnt en síðan þykkt á annari hliðinni þar sem lömin er, þetta gerði það að verkum að gott er að halda á vélinni og er jafnvægið gott ef hún stendur á borði.
Vélin er með 32GB geymslurými sem hægt er að stækka með 64GB microSD korti. Vélin er með 2GB DDR3 vinnsluminni og fjögurra kjarna Intel Atom Z3745 örgjörva (allt að 1.86 GHz) sem er nokkuð öflugur og keyrir stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði nær hnökralaust, t.d. hoppar vélin milli forrita hratt og vel. Þó svo að hægt sé að setja upp þung PC forrit á vélinni þá er samt eðlilega margt sem mælir gegn því 🙂
Það eru tvær myndavélar á Yoga Tablet 2, ein 1,6MP að framan sem hentar vel í myndsamtöl og síðan önnur 8MP (f2.2) aftaná skjánum fyrir myndatökur. Báðar sinna sínu hlutverki ágætlega en sem áður myndi ég aldrei ráðleggja notendum að nota spjaldtölvu við myndatökur. Staðsetning á myndavélunum er samt furðuleg en fram myndavél er á vinstri hlið ef vélin stendur á fætinum og bakmyndavélin neðst vinstra megin ef vélin stendur, furðulegar staðsetningar en venjast svo sem ágætlega.
Tengimöguleikar
Yoga Tablet 2 er eins og fyrr segir með microSDXC rauf sem styður allt að 64GB minniskort sem er ódýr og einföld leið til að auka við geymsluplássið. Einnig er hefðbundið microUSB port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem eða minnislykil svo eitthvað sé nefnt en ég var með microUSB í USB breytistykki sem tengt var í 8 porta USB hub í mínum prófunum.
Á Yoga Tablet2 er einnig hefðbundið microHDMI port tengi þannig að hægt er að tengja vélina við auka skjá, sjónvarp eða skjávarpa og senda þannig mynd og hljóð á stærri skjá með stafrænum gæðum. Það er einnig auka microUSB port á lyklaborðinu sem virkar ágætlega.
Vélin er með Bluetooth 4 ásamt dual-band þráðlausu netkort (b/g/n) og vélin er einnig með 3.5mm tengi fyrir heyrnartól. Vélin er með A-GPS kubb og því tilvalin ferðafélagi, hvort sem er í bílnum eða á rölti um áður óþekktar slóðir.
Rafhlaða og lyklaborð
Yoga Tablet 2 er með 9600 mAh rafhlöðu og samkvæmt Lenovo þá má reikna með allt að 15 klst rafhlöðuendingu við eðlilega notkun. Hugtakið eðlileg notkun er alltaf sveiganlegt en vélin dugði vel í nokkra daga miðað við mína heimanotkun. Ég tók vélina með mér í nokkur ferðalög og varð ég skemmtilega hissa á hversu vel hún dugði. Ég var til dæmis með þessa vél á #MWC15 í Barcelona í byrjun mars notaði ég hana nær eingöngu í stað þess að veltast með fartölvuna endalaust á bakinu þessa daga.
Með Yoga Tablet 2 fylgir eins og fyrr segir glæsilegt Bluetooth lyklaborð sem virkar líka eins og einskonar lok á tölvuna sem hlífir skjánum vel eins og sést í myndbandinu hér að néðan. Lyklaborðið er mjög gott og dugði mér vel til lengri innsláttar, eins og t.d. við að hammra inn þessa umfjöllun. Takkarnir eru vel úthugsaðir og þægilegt að láta vélina standa eina og geta síðan tekið lyklaboðið frá og nota það þar sem hentar. Það er einnig touchpad (mús) á lyklaborðinu sem er merkilega góður í léttari vinnu en mundi ég ekki vilja nota hana eingöngu í lengri tíma.
Lyklaborðið legst undir spjaldtölvuna en festist samt ekkert við hana en þetta fannst mér á stundum hálf vandræðalegt. Þegar ég var með vélina á ferðinni eða í fanginu þá fannst mér oft vanta festingu/segul sem festi lyklaboðið almennilega við spjaldtölvuna því oft fékk ég á tilfinningunni að vélin væri að detta afturfyrir sig þó svo að ég hafi haldið lyklaborðinu.
Hér má sjá hvernig þetta virkar
Þar sem Yoga Tablet 2 kemur með fullri útgáfu af Windows 8.1 þá er lyklaborðið á Íslensku og ef stýrikerfið er stillt á Íslensku þá sækir vélin sjálfkrafa tungumála pakka frá Microsoft og breytir öllum helstu valkostum og útskýringum yfir á Íslensku. Windows er einnig með venjulegu lyklaborði á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef annað lyklaborð er ekki tengt við vélina eða ef smellt er á snertiskjáinn í innsláttar glugga. Ef skjályklaborð er notað þá eru allir hefðbundnir íslenskir stafir aðgengilegir.
Hljóð og mynd
Skjárinn á Yoga Tablet 2 er 10,1″ IPS LCD skjár sem er með 10 punkta fjöldsnerti virkni. Skjárinn er með nokkuð nákvæma snertiskynjun og lenti ég sjaldan í því að smella á eitthvað vitlaust. Skjáinn er rispuvarinn (Scratch-resistant) og það er ljósnemi á skjá sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur á texta þægilegri.
Upplausnin er 1980 x 1200 sem er Full-HD við 16:10 en allur texti og myndir komu mjög vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði frábærlega, það má með sanni segja að þetta sé bjartur og góður skjár sem sýnir liti eðlilega og hægt er að horfa á skjáinn frá öllum hornum.
Hátalarar eru tveir og snúa beint að notanda en þeir gefa vélinni ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir en þeir eru Dolby vottaðir með Wolfson Master Hi-Fi codecum. Ég mæli alltaf með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátalarar í spjaldtölvum eru ekkert sérstaklega hljómmiklir en þessir leysa þó verkið þokkalega.
Margmiðlun
Yoga Tablet 2 er svo sem ekki margmiðlunar mulningsvél sem slík en stendur sig vel til afspilunar á margvíslegu efni. Á heimaskjá er flýtivísun í venjulegt skjáborð (desktop) sem Windows notendur þekkja vel en heimaskjárinn er eins og á öllum útgáfum af Windows 8.x. Þaðan er hægt að nálgast „My Computer“ og þau netdrif, USB lykla eða flakkara sem eru aðgengileg þaðan og umhverfið eins og á venjulegri tölvu að sjá. Þar sem skjárinn er aðeins 10,1″ að stærð þá gera notendur svo sem ekki mikið þar en það er samt hægt með lyklaborðinu og músinni.
Þar sem Yoga Tablet 2 keyrir sama stýrikerfi og venjulegar PC tölvur þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hnökralaust hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við venjulegar PC vélar.
Skjáhlutföllin á Yoga Tablet 2 eru eins og fyrr segir 16:10 sem á mannamáli þýðir að skjáinn er Widescreen (breiður og ekki hár), það getur því verið klaufalegt að halda á henni nema að hún sé lárétt. Þetta hentar minni notkun reyndar mun betur en 4:3 þar sem ég nota vélina mest sitjandi við skrifborði eða liggjandi í sófanum að horfa á eitthvað margmiðlunarefni sem er nú allt í widescreen eða 16:9.
Hugbúnaður og samvirkni.
Öll hefðbundin forrit (vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv.) fylgja með vélinni en snertivæn forrit og leikir eru einnig aðgengilegt í gegnum Windows Store sem er forritamarkaður Microsoft. Þó svo að ég flokki þessa vél seint sem vinnuvél þá var gaman að prófa Office 2013, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. á þessari litlu vél en í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust og upplifun merkilega góð.
Þessi vél eins og aðrar Windows vélar fá ókeypis uppfærslu í Windows 10 þegar það kemur í sumar og er gott að vita af því að þessi vél fær góðan stuðning og uppfærslur inn í framtíðina.
Eins og venjulega þá skráði ég mig inn í vélina með Microsoft notendanum mínum en við það fékk ég aðgang að öllum mínum gögnum sem hýst eru á OneDrive ásamt því að allar sérstillingar sem ég hef á öðrum Windows 8.x tölvum samstilla sig á nýju vélina.
Þetta þýðir í mjög stuttu máli:
- Þegar ég breyti um skjámynd á Windows 8 fartölvunni þá breytist skjámyndin á Yoga Tablet 2.
- Þegar ég bý til Office skjal á tölvunni þá verður það strax aðgengilegt á spjaldinu og öfugt.
- Þráðlaus net sem ég hef tengist með fartölvunni afritast yfir á spjaldtölvuna. Því þurfti ég bara að setja inn WEP lykill við fyrstu uppsetningu og síðan þekkti vélin þráðlausu netin sem ég nota að staðaldri.
- Ég er alltaf með sömu upplýsingar á spjaldtölvunni og öðrum tölvum sem ég nota sama Microsoft notenda á og þarf því ekki lengur að senda skjöl sem ég útbý á spjaldtölvunni yfir á fartölvu með tölvupósti.
Flash efni og annað netstreymi hefur fullan stuðning á Windows eins og allir vita. Þetta þýðir að ég gat spilað allt flash efni af heimasíðum sem er mikill kostur þar sem mikið af efni er enn í Flash. Tilraunarinnar vegna þá prófaði er ég að horfa á nokkra fótboltaleiki yfir internetið með Yoga Tablet 2 og gekk það hnökralaust fyrir sig.
Niðurstaða
Yoga Tablet 2 er sterkbyggð, falleg og stílhrein spjaldtölva sem ég á eftir að sakna mikið þegar ég skila henni. Þetta er alls ekki fullkominn vél en fyrir þennan penning þá er þetta góð kaup. Notendur fá prufu af Office 365 og virkaði Office pakkinn mjög vel á þessari vél í prófunum mínum.
Ég sé vélina henta vel til heimilisnota og við létta vinnu því þó svo að skjárinn sé ekki stór þá veitir frábær rafhlöðuending, lyklaborðið og standurinn þessari vél nokkra sérstöðu.
Vélin fær ókeypis uppfærslu í Windows 10 sem segir okkur að hún fái uppfærslur frá Microsoft í mörg ár í viðbót.