Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 85 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég heiti Hans Rúnar Snorrason. Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri en hef verið búsettur í Eyjafjarðarsveit s.l. 13 ár.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég starfa sem kennari og verkefnastjóri tölvu- og upplýsingatækni í Hrafnagilsskóla. Ég hef starfað við það frá því ég flutti í sveitina árið 2002.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Venjulegur dagur byrjar oftast á kennslu en þá daga sem ég byrja ekki daginn á þeirri göfugu iðju svara ég tölvupóstum og og reyni að tæma verkefnalistann. Við erum með fjóra windows netþjóna og ég reyni að kanna logga á þeim og fara yfir stöðu þeirra einhvern tímann yfir daginn.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Síðustu mánuði höfum við verið að innleiða Google Apps hjá starfsfólki skólans. Ég hef kennt nemendum á það kerfi í nokkur ár og nú er verið að koma starfsfólkinu þar inn og það gengur mjög vel.
Utan skólans hef ég verið að vinna að því að koma kynningarmálum Júdósambands Íslands í sæmilegt horf en ég er formaður útbreiðslunefndar þess ágæta sambands. Mitt verkefni er fyrst og fremst að uppfæra og tengja heimasíðu sambandsins við samfélagsmiðla og senda júdófréttir á fjölmiðla. Framtíðarverkefnið er svo að sýna júdómót í beinni á miðlum eins og youtube.com.
Undanfarið hef ég einnig verið að aðstoða fyrirtæki við að tengja sig við Google Maps. Það er mikil þörf á því að gera ferðamanninum auðvelt fyrir að finna þau. Þá er ég líka að tala um íslenska ferðamanninn.
Hvernig nýtast tölvur/tækni í þínu starfi?
Það gerist ekki mikið án þeirra. Nemendur allt niður í 5-6. bekk nýta þær í kynningar og ritunarverkefni. Unglingar vinna orðið öll stærri verkefni í tölvum. Nánast allur undirbúningur kennara fer fram í tölvu auk þess sem langstærstur hluti samskipta við foreldra fer fram í formi póstskeytasendinga.
Hvaða nýjungum í IT eiga lesendur að fylgjast með í náinni framtíð?
Ég er mjög spenntur að sjá hvernig lokaútgáfa Windows 10 verði. Ég hef verið að nota betaútgáfu í nokkurn tíma og finnst það lofa góðu. Ég hlakka til að sjá það stýrikerfi í spjaldtölvum og farsímum.
Ég er líka hrikalega spenntur að sjá hvað skýjalausnir koma til með að gera í skólastarfi. Það er margt búið að gerast í þeim efnum en það er svo mikið að gerjast. Google Apps er algjör bylting í skólastarfi og hefur gjörbreytt öllu sem nefnist samstarf. Fleiri þjónustur poppa endalaust upp. Bara í morgun var ég að læra á mjög gott vídeóklippi”forrit” sem sækir myndbönd beint úr skýjaþjónustum (Google Drive, Facebook, Dropbox og fl.) og er klippt í gegnum heimasíðu og síðan flutt beint á Youtube, Facebook eða aðra miðla. Myndböndin eiga því aldrei viðkomu í neinni tölvu hjá notandanum. Með þessum þjónustum fækkar stöðugt þeim tilfellum sem nemandinn eða kennarinn verður að fara í ákveðna tölvu til að vinna að einhverju verkefni.
Lífsmottó?
Tökum okkur ekki of hátíðlega.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?
Ég tók þrjú ár á matvælabraut í VMA og ætlaði alltaf að verða kokkur.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
- Þorsteinn Sindri Baldvinsson (Stony)
- Jóhann Axel Ingólfsson
- Birkir Blær Óðinsson
- María Gunnarsdóttir
- Eiríkur Stephensen
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Ég nota betaútgáfu af Windows 10 í heimatölvunni. Ég keypti sér disk fyrir það stýrikerfi og er með gamla diskinn tilbúinn ef Win10 verður með stæla. Í vinnunni er ég með Windows 7 pro.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég er með Samsung Galaxy S3 með Android 4.4.4 KitKat sem ég setti upp með CyanogenMod. Ég þarf að fara að endurnýja.
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Helstu kostirnir eru líklega þeir að það er hægt að skipta um rafhlöðu. Það er ansi gott að geta skipt um rafhlöðu á ferðalagi. Gallarnir eru ansi margir á svona gömlum síma. Hann hefur þó reynst mér nokkuð vel.
Í hvað notar þú símann mest? (top 5 listinn)
- Til að skipuleggja mig. Google Calendar heldur mér gangandi.
- Fara í tölvupóstinn.
- Til að taka myndir.
- Til að vafra á internetinu
- Fara á Twitter og Facebook.
Ef það kæmi nýr Windows sími í dag… hvernig á hann að vera?
Ég verða að viðurkenna það að ég hef litla sem enga reynslu af Windows símum. Skoða þá alltaf vel í símabúðum. Ég vil að Microsoft einbeiti sér að því að gefa notendum kost á að setja Windows á hvaða síma sem ræður við slíkt stýrikerfi. T.d. í? Samsung eða Iphone eins og ég get sett Windows í Apple tölvu. Ég vil sjá Microsoft taka af skarið í þessum málum. Ekki bara lúffa og bíða.
Ef ég fengi mér Windows síma þarf hann að vera fullkomlega samhæfður vinnu- og/eða heimilistölvunni. Öll skjöl eiga að vera aðgengileg í gegnum skýjaþjónustu. Allt sem ég geri í símanum þarf líka að vistast í skýjunum, myndir, skjöl og contacts. Hugsanlega er þetta allt til staðar.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Það var víst Benefon Sigma NMT sem við keyptum þegar við fluttum til Siglufjarðar 1997.
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Það yrði líklega Nexus 6 eða Lumia 930. Báðir hrikalega flottir.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Verður maður ekki að nefna lappari.com sem fyrsta val? Annars fylgist ég mest með Twitter þegar ég er að skanna tækniheima. Þar fær maður allar nýjungar beint í æð um leið og þær koma fram.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Heimur batnandi fer. Unglingar í dag eru miklu skynsamari en þegar ég var unglingur.