Heim Föstudagsviðtalið Haukur Heiðar Hauksson

Haukur Heiðar Hauksson

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 77 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Við höldum áfram með Eurovision þemað með þessu aukaviðtali, núna við Hauk Heiðar sem keppir einmitt á úrslitakvöldinu í kvöld. Við kvetjum alla til að taka þátt á Twitter í kvöld með #12stig og með því að kjósa uppáhaldslagið ykkar.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Haukur Heiðar og er tónlistarmaður og læknir, faðir og sonur, eiginmaður og stuðpinni. Ég er uppalinn á Álftanesi (já, þar sem forsetinn á heima) en bý nú í Vesturbæ Reykjavíkur og stefni hraðbyri að því að verða Vesturbæingur.

 

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa bæði sem læknir og tónlistarmaður. Svo hef ég líka verið að gefa út barnabækur og sitthvað fleira. Maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni. Ég er í hljómsveit sem heitir Dikta og hef verið í henni með sömu þremur vitleysingunum lengur en ég man. Ég er núna að klára sérnám í heimilislækningum og á sama tíma að klára 5. hljóðversplötu Diktu. Og svo er ég líka að taka þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins þessa dagana og er einmitt að keppa til úrslita í kvöld.

Eru ekki allir komnir með númerið 900-9907 í hraðvalið í símanum sínum?

 

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna, sé til þess að börnin komist í föt og borði morgunmat, fer í vinnuna á Barnaspítalanum, negli úr vinnu til að sækja börnin, versla í matinn, borða með fjölskyldunni og kom börnunum í rúmið og nota svo kvöldið í eitthvað skemmtilegt með konunni eða fer að vinna í Diktuplötunni, eða skrifa fyrirlestur eða bara eitthvað á langa, langa to-do listanum mínum.

 

 

Lífsmottó?

Finndu það sem vekur hjá þér gleði og ánægju og vertu þar eins mikið og þú getur.

 

 

Hvaða liði heldur þú með í enska?

Liverpool að sjálfsögðu. Hvers lags spurningar eru þetta eiginlega?

 

 

Hvað er helst að frétta af tónlistinni hjá þér? Eitthvað nýtt eða væntanlegt frá Dikta?

Já, eins og áður sagði er ný plata væntanleg frá Diktu á næstunni. Hún verður allsvakaleg, get lofað þér því. Við fengum þýskan upptökustjóra til að stjórna upptökum á plötunni og fórum tvær ferðir út í hljóðverið hans og gistum þá í stúdíóinu. Svo kom hann hingað til lands sl. nóvember og var hér í um mánuð til að klára upptökurnar. Ég hlakka gríðarlega til þess að koma þessu í eyru fólks.

 

 

Hver vinnur söngvakeppnina og ertu með eitthvað slúður af keppendum?

Ég vinn að sjálfsögðu. Nei, annars hlakka ég aðallega bara til að taka þátt í úrslitakvöldinu, ég held að þetta verði mjög gaman. Ef svo fáránlega vill til að ég vinn þetta ekki, þá held ég að Frissi félagi minn taki þetta eða mögulega María litla. Ég tel möguleika StopWaitGo strákanna gríðarmikla. Bjössi Jör og félagar eiga líka góðan séns.

 

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Álftanes? Ætli það sé þá ekki bara rapparinn KáJoð? Það halda allir að ég sé úr Garðabæ, en þar hef ég aldrei búið og aldrei æft íþróttir. Ég gekk þó í Garðaskóla í 3 ár og kynntist þar strákunum í Diktu, sem eru jú allir Garðbæingar í húð og hár. Sjálfur bjó ég bara í hressleikanum á Álftanesi og æfði íþróttir með UMFB og í knattspyrnuskóla FH. En nú er ég kannski kominn aðeins út fyrir efnið. Hver var spurningin?

 

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OsX. Var alltaf Windows maður og þoldi ekki Makka fyrr en ég eignaðist fyrsta iPhone 3G símann. Hann sneri mér. Á staðnum.

 

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6 128 GB.

 

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Hann er þunnur og þægilegur og skjárinn í fullkominni stærð. Vil ekki hafa stærri skjá, þá hættir síminn að komast í vasa. Svo er hann með frábæra rafhlöðuendingu, sérstaklega ef maður miðar hann við síðasta síma sem ég átti, sem var iPhone 5… rafhlaðan í honum var hörmung alveg frá byrjun. Hef enn ekki fundið neina galla á símanum… en skal hringja í þig ef ég finn einhverja.

 

 

Í hvað notar þú símann mest? (top 5 listinn)

Hringja, SMS (iMessage), email, netið, skipulagstól (calendar).

 

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 6150. Varð að vera aaaaaðeins öðruvísi en allir hinir sem voru með 5110. Þrælfínn sími bara. Saknaði hans lengi eftir að hann hvarf á braut.

 

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

iPhone 7.

 

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Lappari.com að sjálfsögðu og svo iClarified.com.

 

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já, reyndar. Ég vil bara minna alla á að kjósa rétt. Svona í lífinu almennt.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira