Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 74 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég heiti Ragnhildur Ágústsdóttir og er nú svona héðan og þaðan – aðallega þaðan. Ætli Hafnarfjörður eigi þó ekki mest tilkall til mín.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég er forstöðumaður Hýsingar og reksturs hjá Advania þar sem ég hef verið síðastliðið ár. Meðal þeirra verkefna sem ég hef lagt hvað mestan tíma í og áherslu á er að hámarka þjónustuupplifun viðskiptavina, skerpa á verkferlum til að auka rekstraröryggi og síðast en ekki síst að gera Advania að leiðandi aðila í skýjalausnum.
Ég var áður hjá Expectus þar sem ég starfaði sem rekstrarráðgjafi. Á árunum 2010-2012 lagði ég stund á meistaranám í stefnumótun og stjórnun frá Copenhagen Business School. Þar áður starfaði ég sem forstjóri Tals, framkvæmdastjóri SKO og markaðsstjóri hjá SkjáEinum.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Hmm… það er svo misjafnt. Ætli „busy“ sé ekki helsti samnefnarinn. Undanfarnar vikur og mánuði hef ég til dæmis verið mjög „busy“ við að stýra innleiðingu á nýjum og spennandi skýjalausnum hjá Advania sem ég tel að marki ákveðin tímamót á íslenskum upplýsingatæknimarkaði. Á mínum eigin tíma reyni ég bara að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita!
Ég var nokkuð efnileg í fótboltanum hérna í denn og var meðal annars valin til að spila fyrir Íslands hönd með unglingalandsliðum. Í einum Evrópumótsleiknum skoraði ég eftirminnilegt skallamark á móti Ítalíu sem jafnaði leikinn og tryggði okkur dýrmætt stig í baráttunni. Ég man ennþá hvernig tilfinningin var – ólýsanleg.
Lífsmottó?
Að vera jákvæð og glöð og gefast aldrei upp.
Viltu segja okkur aðeins frá CSP og er eitthvað sérstakt sem þú getur deilt með okkur?
CSP stendur fyrir „Cloud Solutions Provider“ og er sérstakt prógram á vegum Microsoft sem aðeins örfáir útvaldir samstarfsaðilar Microsoft fá aðild að sem uppfylla ströng skilyrði um gæði, stærð og lausnaframboð. CSP vottaðir samstarfsaðilar Microsoft geta boðið viðskiptavinum sýnum að kaupa Office 365, Intune, Azure (væntanlegt) og fleiri Microsoft skýjalausnir beint í gegnum sig.
Svo skemmtilega vill til að Advania var eitt af 20 fyrstu upplýsingatæknifyrirtækjum í heimi sem varð fyrir valinu af hálfu Microsoft til að hefja innreið CSP á markað sem hlýtur að teljast mikil viðurkenning og gæðastimpill fyrir starfsemi Advania.
Cloud OS er afar áhugaverð skýjalausn sem er, líkt og CSP, aðeins í boði fyrir fáa útvalda samstarfsaðila Microsoft. Advania er nú komið í þennan úrvals hóp, eitt upplýsingatæknifyrirtækja á Íslandi. Cloud OS byggir alfarið á Windows Azure sem er tölvukerfi í skýinu hjá Microsoft sem tengt er við okkar innlendu gagnaver. Azure umhverfið býður upp á óteljandi möguleika en helstu kostir þess eru hvað umhverfið er einfalt, opið og sveigjanlegt, m.a. hvað varðar möguleika á því sem hægt er að gera í þróun og uppbyggingu á forritum.
Þar sem Cloud OS er tengt við gagnaver Advania sem staðsett er innan landsteinanna gerir það Advania kleyft að bjóða viðskiptavinum sínum upp á blandaða nálgun (e. hybrid cloud solutions) sem felur í sér að viðskiptavinurinn velur sjálfur hvaða þjónustur hann vill halda hjá sér (on-premise), hverju er best borgið í hýsingu hjá Advania og hvað hentar að færa upp í skýið. Í raun alveg brilliant lausn og eitthvað sem öll stærri fyrirtæki og opinberir aðilar á Íslandi ættu að skoða alvarlega.
Afhverju valdi Microsoft Advania fram yfir aðra skýbirgja ?
Umfram allt held ég að framtíðarsýn okkar í skýjamálum hafi fallið þeim vel í geð en við tikkuðum líka í öll boxin sem til þurfti. Í því fólst meðal annars fjölbreytni í vöruframboði, sterk staða á markaði, öflugir innviðir, sérfræðiþekking og gæði reksturs og þjónustu svo eitthvað sé nefnt.
Windows vs MacOS og afhverju?
Það fer eiginlega alveg eftir því hvaða tæki ég er að nota og í hvaða tilgangi. Ég er til dæmis búin að eiga iPhone í allnokkur ár en nota Windows í vinnutölvunni – ekki síst vegna Excel.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
- Jet Black Joe
- Emilíana Torrini
- Botnleðja
- Jón Jónsson
- Quarashi
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Windows 8.1
Hvernig síma ertu með í dag?
iPhone 6
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Plús: Touch ID
Mínus: ekkert ennþá – nema kannski að hann er full ávanabindandi!
Í hvað notar þú símann mest?
- Calendar
- Spotify
- Snapchat
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Philips Diga
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
My precious
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
- Gartner
- Forrester
- The Verge
- Microsoft (Cloud)
- I fucking love science
- …og auðvitað lappari.com 🙂