Heim Ýmislegt 1 skjár, 2 skjáir, lítill skjár eða stór skjár?

1 skjár, 2 skjáir, lítill skjár eða stór skjár?

eftir Gunnar Ingi Ómarsson

Það var ekki fyrir löngu sem ég fór úr því að vinna á 3 skjáum, hérna heima, niður í 2 skjái. Í byrjun fannst mér það skrýtið en það tók ekki langan tíma að venjast bara 2 skjáum og eftir smá tíma þá fór ég að hugsa hreinlega hvort ég þyrfti á þriðja skjánum að halda. Úr þessum pælingum varð til önnur pæling. Hvert er raunvirði aukaskjás eða stærri skjás? Ég settist því niður, las aðeins internetið og reiknaði pínu, hérna er það sem kom útúr því bardúsi.

 

Rannsóknir/Athuganir

Það hafa verið gerðar nokkrar athuganir/rannsóknir á þessu og einhverjar þeirra voru gerðar fyrir skjáframleiðendur sem þýðir að þær gætu verið örlítið ýktar en við tökum þá bara lægri endann á skalanum þegar við sýnum útreikninga.

Jon Peddie Research

Í einu úrtaki er talað um að afköst aukist um 20-30 prósent við það að bæta við öðrum skjá og þær tölur eru síðan 2006. Því miður kostaði að komast í þessi gögn en ég fann grein hjá blaðamanni sem var að mestu að fjalla um hvernig annar skjár hjálpaði honum í vinnunni sinni. Hann bendir líka réttilega á hvernig það er ódýrara að kaupa t.d. tvo 23″ skjái en einn 30″ skjá.

Apple

Í annarri rannsókn sem Pfeiffer Consulting gerði fyrir Apple var farið yfir muninn á því að vinna á mismunandi stærðum skjáa í forritunum InDesign, Photoshop, Excel og Word. Notendur sáu strax töluverðan mun þegar þeir komust í stærri skjái og gátu því skoðað meiri upplýsingar í einu og verið með alla valmöguleika uppi, eins og í photoshop, sem leiddi til þess að tími sparaðist við úrvinnslu mynda, texta og annara gagna. Þegar notendur eru bara með einn skjá þá fer óneitanlega dálítill tími í að alt-tab’a sig á milli forrita, hvort sem þú ert að rifja upp upplýsingar eða bera saman gögn úr tveimur eða fleiri skjölum. Þessi rannsókn talar um að tími sem fer í að vinna verkefni styttist allt frá 39% uppí 74%.

Microsoft

Rannsókn sem Microsoft gerði árið 2003 talar um að aukning á afköstum, við að bæta við aukaskjá, geti verið allt frá 9% uppí 50%. Þeir fara reyndar ekki djúpt í það hvernig þeir mæla þessar afkastabreytingar en það er eitt og annað sem er talað um. Meðal þess sem rætt er um er aukinn ánægja starfsmanna og hvernig það hefur líka áhrif á afkastaaukningu. Þeir fara líka dálítið í samanburð á því að vinna á skjá, vinna með pappír og vinna á skrifborði, þar sem meðalstærð skjáa á þessum tíma var á stærð við blað sem var 20cm X 27,5cm, ég verð að viðurkenna að ég kæmi ekki miklu í verk á svo litlu skrifborði.

NEC

NEC fékk University of Utah til að gera könnun á afkastabreytingum hjá fólki þegar það notaði stærri skjái og jafnvel tvo skjái. Ég fann reyndar ekki síðan hvenær þessi könnun er, en hún er gerð fyrir desember 2010. Þessi könnun sýndi fram á afkastaaukningu uppá allt að 52%, hvað er sparað í kostnað og hvað sparast í vinnu. Það kemur líka fram í þessu að það er bestun sem tengist þessu líka, þ.e. ef skjástærðir eru of stórar eða skjáir of margir þá er afkastaaukningin ekki eins góð. Ég vil þó sjálfur meina að það fari eftir notendum og verkefnum.

Dell

Dell tók saman PDF skjal til sýna fram á kosti þess að vera með tvo skjái, þeir notuðust við upplýsingar um 3 rannsóknum og sem dæmi er talað um að á 20 mínútna verki voru notendur rúmum 2 mínútum fljótari með tvo skjái. Þessi munur, reiknaður flatt út, þýðir 6 mínútur á klukkutíma, 48 mínútur á einu vinnudegi, 6 klst á einni vinnuviku og 24 klst á einum mánuði. Þarna kemur líka fram að notendur eru yfirleitt bara ánægði með uppsetningu sem samanstendur af tveimur skjáum eða meira plássi til að vinna á.

 

Útreikningar

Þeir sem reka fyrirtækin eða deildirnar horfa oft líka bara á tölulegar staðreyndir eins og kostnað, þeir sjá semsagt ekki alltaf hvað þeir eru að spara með þessu heldur bara útgjöldin, eins og kostnaðurinn á skjánum og rafmagnið við að hafa hann í gangi. Oftar en ekki er talað um ROI (Return on Investment) eða hverju skilar fjárfestingin mér? Við skulum því setja upp eilítið reikningsdæmi. Ég sá að klukkutíminn hjá tölvuverkstæði kostaði kr. 5.990, ég ætla að gefa mér að hann nái að selja ca. 4 tíma á dag og notar einn skjá við vinnu sína (hafið í huga að þetta er bara eitthvað sem ég set upp sem dæmi). Þá skulum við vera svartsýn og miða við 10% afkastaaukningu, ég var búinn að nefna 9% lægst hér á undan, en það þýðir á einu degi ætti hann að geta náð selja 24 auka mínútur á dag. Við gefum okkur að nýi skjárinn hans hafi kostað 49.900 krónur, svona aðeins rúmlega meðalverð á 24″ skjá. Þá er að finna út hvað það tekur langan tíma fyrir hann að vinna uppí kostnaðinn á skjánum. Ef við deilum kaupverði skjásins (49.900) í útseldan tíma á verkstæðinu (5.990) þá fáum við út að það tekur ca. 8klst og 20 mín að borga skjáinn upp (49.900/5.990=8,33 eða ca. 8klst 20mín). Þá skulum við breyta 8klst og 20 mín í einungis mínútur en það eru 500 mínútur, deilum því í 24 sem er fjöldi aukna útseldra mínútna á dag og fáum út að það tekur um rétt tæpan 21 dag að borga skjáinn upp. Já það tekur ca. 1 vinnumánuð að borga skjáinn upp sem þýðir að þessi 10% aukning er þá, gróflega sagt, hagnaður á meðan báðir skjáir lifa. Útfrá þessum tölum getum við gert ráð fyrir því að sé vinnuaukninginn meiri þá styttist tími sem tekur að borga upp skjáinn og einnig ef útseldur tími kostar meira en tími lengist ef útseldur tími er ódýrari eða aukning er lægri. (Liggur kannski í augum uppi)

 

Lokaorð

Þegar ég settist niður til að skrifa niður þennan litla pistil þá kom guttinn minn inn til mín og heimtaði að fá að horfa á teiknimynd í öðrum skjánum mínum. Ég ákvað að halda frekar í friðinn og leyfa honum það í stað þess að þurfa hlusta á væl og skæl, hugsaði að ég væri nú með 2 skjái og gæti alveg unnið þennan pistil á einum skjá á meðan hann horfði á hinn. Það tók mig ca. 6 mínútur að byrja pirrast yfir því að þurfa vera flakka á milli flipa í vafranum til að kíkja á hinar greinarnar og skrifa þennan pistil, hefði verið flott að vera með þriðja skjáinn. Ég er einmit vanur því að notast að mestu við 2 skjái í daglegu starfi sem kerfisstjóri og hef alveg lent í því að óska þess að vera með þriðja skjáinn þegar mikið er að gera, en ég læt mér 2 duga þar sem það er nóg í langflestu sem ég geri. Ég hef samt orðið var við að 2 skjáir er ekki eins algengt og maður hefði haldið, það er mikið af fyrirtækjum sem sér ekki hag í því að láta notendur hafa 2 skjái, hér er þá smá upplýsingar sem þið getið sýnt yfirmönnum.

Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst 1 vinnumánuður ekki langur tími til að borga upp búnað, sérstaklega þegar horft er til þess að allt eftir það er hagnaður, á meðan búnaðurinn lifir. Það sem fylgir þessu líka er að starfsfólk er ánægðara og ánægt starfsfólk er afkastaríkt starfsfólk, semsagt fer minni tími í að kvarta og kveina.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira