Við hér á Lappari.com höfum verið með Lenovo Yoga 3 Pro vél til prófunar en þetta er glæsileg og fjölhæf vél sem hefur fengið mikið lof tæknimiðla um allann heim. Þetta er svo sem ekki fyrsta Yoga vélin sem við prófum en áður tókum við unboxing á Lenovo Yoga 13, Lenovo Yoga 2 og prófuðum síðan Lenovo Thinkpad Yoga. Eftir að hafa prófað þessar Yoga vélar þá hreifst ég mikið af þeim, þetta eru vel smíðaðar vélar með fjölbreytt notagildi og hafa sannað sig hjá notendum sem ég þekki til.
Það verður því gaman að prófa Yoga 3 Pro og sjá hvort hún sé jafn góð og sagt er?
Hér má sjá afpökkun á þessari vél.
Hönnun og vélbúnaður
Yoga 3 Pro er líklega ein fallegast tölva sem ég hef handleikið hingað til og hef ég þó prófað nokkuð margar. Vélin er um 1,19 KG og því mjög létt og hún er aðeins 12,7 mm að þykkt og því örþunn en á sama tíma virkar hún sterkbyggð og virðist vera vel smíðuð vél. Vélin er mjög stílhrein og með fullt af litlum krúsidúllum sem ég hef fallið fyrir í þessum prófunum.
Það er svo sem ekki hægt að flokka Yoga 3 Pro sem venjulega fartölvu þar sem hægt er að stilla henni í fjórar mismunandi stellingar.
- Laptop: Bara eins og venjuleg fartölva
- Stand: Vélin stendur á lyklaborðingu en ég nota þetta mikið þegar ég er að horfa á bíómynd en svona þvælist lyklaborðið ekki fyrir á meðan
- Tent: Vélin stendur eins og tjald, notaði þetta við pönnukökubakstur í gær (já ég baka oft en man aldrei uppskriftirnar)
- Tablet: Þarna er hún brotin alveg saman og er bara eins og venjulega spjaldtölva
Lamirnar á Yoga 3 Pro eru ótrúlega magnaðar og merkilegar en þær eru að sama skapi frekar umdeildar. Þær vekja mikla athygli og það fyrsta sem fólk spyr um sem sér vélina hjá mér. Þær eru settar saman úr 813 hlutum og mynda spennu (viðnám) þannig að skjárinn er stöðugur í hvaða stöðu sem er.
Myndband frá Lenovo sem sýnir lamirnar betur og hvernig þær eru smíðaðar
Ég fékk spurningu á Twitter um hvort líkamshár flækist í lömunum…. ég er ekki stoltur af því en ég get svarað þessu neitandi 🙁
Lenovo Yoga 3 Pro vélin sem ég fékk er vel búin vélbúnaðarlega en það er samt eitt sem ég átti von á að mundi valda vonbrigðum en það er lár klukkuhraði á örgjafanum. Yoga 3 Pro er með Intel Core M 5Y70 örgjörva sem keyrir á 1.1 – 2.6GHZ klukkuhraða sem er töluvert lægra en t.d. Yoga 2 Pro keyrir á. Þetta virðist samt ekki skipta máli þar sem vélin er með 8 GB af vinnsluminni ásamt því að vera með mjög hraðvirkum SSD disk en það er 512 GB diskur í vélinni sem ég prófaði. Lægra klukkaður örgjörvi gerir Lenovo reyndar kleift að nota minni rafhlöðu og þannig smíða Últrabók sem er þynnri og léttari en forveri sinn var án þess að notenda verði var við hraðamun.
Lenovo Yoga 3 Pro er með þokkalegri 720p vefmyndavél fyrir ofan skjáinn og skilar hún sínu verkefni ágætlega. Myndavélin hentar vélin vel í allt þetta venjulega sem við notum þessar vélar í eins og Skype símtölin.
Tengimöguleikar
Yoga 3 Pro er með 4-1 kortalesara sem styður flestar gerðir minniskorta (SD, MMC, SDXC, SDHC) sem er þægilegt til að tæma af heimilismyndavélinni. Einnig eru tvö hefðbundin USB 3 og síðan eitt auka USB 2 tengi sem fæstir átta sig líklega á. Það er sambyggt hleðslutengi sem er svipað og USB tengi í laginu en með auka haki, þegar vélin er ekki í hleðslu þá er hægt að nota það sem venjulegt USB tengi. Yoga 3 Pro er líka með Micro-HDMI tengi, 3.5mm tengi fyrir heyrnartól, Bluetooth 4.01 og góðu þráðlausu netkorti sem styður b,g,n böndin og 2.4 og 5 GHZ tíðnir.
Rafhlaða og lyklaborð
Lenovo Yoga 3 Pro eins og fyrr segir mjög þunn og meðfærileg og er það eins og fyrr segir mjög líklega á kostnað rafhlöðu. Vélin er með 44.8 Wh rafhlöðu sem er gefinn upp fyrir 7-9 tíma endingu en ég náði ekki að teyja það lengur en 6-7 tíma sjálfur. Mér var bent á að fjarlægja forrit sem heitir Harmony og við það jókst rafhlöðuending um klukkutíma sem er áhugavert.
Eins og venja er með Lenovo vélar þá er lyklaborðið á Yoga 3 Pro frábært og þægilegt í notkun í alla staði. Svipað og með IdeaPad U430 þá mundi ég vilja hafa takkana örlítið hærri en það er líklega bara sérviska í mér. Yoga 3 Pro er með gúmmí sem umleikur lyklaborðið en það gerði notkun enn þæginlegri því gott og mjúkt undirlag undir únlið er gott ef skrifa á mikið en á móti getur það verið skítsælt. Músin er ágæt og leysti flest allt sem ég vildi þó það hafi verið nokkrar Lenovo Windows 8 músahreifingar sem ég þekki úr ThinkPad vélum sem mér fannst vanta.
Hljóð og mynd
Skjárinn á Lenovo Yoga 3 Pro er í algerum sérflokki og líklega einn sá besti sem ég hef notað á fartölvu. Upplausnin á þessum 13,3″ QHD+ snertiskjá er 3200 x 1800 sem er með því hæsta þarna úti í dag en skjárinn styðir 10 punkta snertivirkni. Litir eru mjög skarpir á skjánum, litadýpt góð og ekkert mál að nota hann þótt hann sé ekki alveg beint á móti notenda. Reyndar ef ég horfði mikið á hlið (meira en 45 gráður) þá dökknaði myndin og ég sá liti renna saman.
Það er ekki allt frábært við að hafa svona mikla upplausn þar sem sum (mörg) forrit eru ekki uppfærð fyrir svona mikla upplausn. Með því að fikta í skjástillingum (DPI) þá náði ég flestum forritum góðum…. nothæfum allavega.
Þrátt fyrir fjölhæfni þá er Yoga 3 Pro bara venjuleg PC tölva og því get ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með öflugan örgjörva, nóg af vinnsluminni, hraðvirkum disk og vel fær um að leysa flest margmiðlunarverkefni með stæl.
Yoga 3 Pro er með JBL hátölurum og Waves MaxxAudio hugbúnaði og er hljómur með þeim betri sem ég hef heyrt í fartölvu en það skiptir máli í hvaða stöðu vélin er. Ef vélin er notuð sem fartölva eða í spjaldtölvuham þá er hljóðið svolítið kæft en mun betra í tjald- eða standham enda eru hátalarar undir vélinni.
Margmiðlun
Fjölhæfni og flottur vélbúnaður gerir Lenovo Yoga 3 Pro að bestu vélinni á markaðnum til að neyta margmiðlunefnis. Hún er með öllum þeim tengjum sem getur vantað til að tengja við hana USB lykla eða flakkara ásamt því að vera með HDMI tengi og Miracast stuðning.
Mjög einfalt, vélin gerði allt sem ég lagði fyrir hana og er hún í sérflokki vegna Yoga eiginleika.
Hugbúnaður og samvirkni
Yoga 3 Pro kemur með Windows 8.1 og því hægt að setja upp öll venjuleg Windows forrit ásamt snertivænum forritum sem eru aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Með innbyggðum forritum og Office 365 áskrift þá er þessi klár í flest öll verkefni hvort sem það er heima fyrir eða í skólanum.
Eins og venjulega prófaði ég vélina með Office 2013 Pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust, þetta er spræk og skemmtileg vél í alla staði.
Finnst alltaf jafn skemmtilegt að setja upp nýja Windows 8.1 vél því ég skrái mig bara inn með Microsoft notendandum mínum og eftir 5 mínúndur þá er tölvan eins og ég vill hafa hana. Tölvan sækir notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) en þar hef ég ókeypis 15GB til að afrita ljósmyndir af símanum mínum eða til að hýsa gögn..
Stæðsti gallinn við þessa vél er sannarlega sá að hún er hlaðinn auka hugbúnaði sem kemur á vélinni frá Lenovo. Þetta er án efa umdeilanlegt og hver hefur sína skoðun á þessu en yfirleitt eru 1-3 forrit nothæft meðan restinn er söluvara eða óþarfi. Notendur geta vitanlega fjarlægt það sem þeir vilja ekki eins og með öll önnur Windows forrit en…. þetta pirrar mig og pirrar mig mikið.
Niðurstaða
Lenovo Yoga 3 Pro fjölhæf, öflug og falleg vél sem ætti að vera öðrum framleiðendum til fyrirmyndar og er það reyndar nú þegar þar sem aðrir framleiðendur eru komnir með ýmisleg Yoga afsprengi til sölu. Það er margt jákvætt skrifað um þessa vél hér að ofan og stend ég fyllilega með því öllu því þetta er besta fjölnota heimilisvélin sem ég hef prófað hingað til. Að geta notað vélina á mismunandi vegu eftir því hvað ég er að gera er frábært og varð hún strax orðin hluti að tæknibúnaði heimilisins sem allir vildu sækja í og nota.
Ég mundi ekki kaupa Yoga 3 Pro sem vinnutölvu því þó það standi Pro í nafni vélarinnar þá er Home útgáfa af Windows 8.1 á vélinni og því ekki hægt að skrá hana á domain. Þetta er engu að síður ein af betri vélum sem ég hef prófað síðustu árin og er það nokkuð mikið sagt því ég er alltaf að prófa eitthvað sniðugt. Vélin er þó ekki gallalaus en helstir eru þeir að þetta er ekki ThinkPad vél og vantar því TrackPoint músasnípinn, powertakkinn er á hliðinni og vélin er of hlaðin af auka hugbúnaði.