Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 68 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Kópavogsbúi, fæddur og uppalinn í sjö systkyna hópi. Ættaður úr Borgarfirði, Dölum, Norður- og Norðausturlandi og að austan. Tæknilega sinnaður en finnst ekki síður gaman að skapandi, jarðbundnum hlutum. Smá spennufíkill með allt of mörg áhugamál. Uni mér afar vel úti í náttúrunni á ferðalagi um fallega landið okkar gangandi sem akandi.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ljósmyndun og tölvuvinnslu. Síðustu áratugina hef ég kerfisbundið myndað Ísland fyrst á filmur og síðan stafrænt. Öfugt við flesta ljósmyndara hef ég lagt mig eftir því að mynda allt, öll svæði og myndefni á öllum tímum. Það er margt eftir en ég á orðið býsna yfirgripsmikið og fjölbreytt safn og erfitt að reka mig á gat með myndefni. Hef gefið út nokkrar ljósmyndabækur og átt myndir og texta í öðrum að öllu leyti eða hluta. Samsettar panoramamyndir og örnefnamyndir eru sérgrein hjá mér. Ég hef einnig þróað vefkerfi sem heldur utan um myndasöfn og skrásetningu mynda og söguheimilda sem er í notkunn hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þetta eru mjög skemmtileg verkefni ekki síst að gera gamlar myndir aðgengilegar almenningi eins og t.d. ljosmyndasafn.akranes.is. Svo mætti nefna Stóru söngbækurnar, með samtals um 500 vinsælum lögum bæði með textum og gítargripum sem ég vann og gaf út.
Hér má sjá þessa mynd í meiri gæðum
Hvernig er venulegur dagur hjá þér?
Tölvuvinnsla, myndvinnsla og forritun, auk þess myndatökur og önnur skemmtileg verkefni m.a. í ferðaþjónustu. Reyni að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi, fara í ræktina, labba, hjóla, tala við skemmtilegt fólk eða fræðast um eitthvað nýtt. Svo er gítarinn fastur liður á hverjum degi.
Lífsmottó?
Njóta augnabliksins, fræðast og læra og reyna að koma vel fram við fólk.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Sigfús Halldórsson, Björn Thoroddsen, Stefán Hilmarsson, Jónas Ingimundarson og Tryggvi Hübner.
Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?
Bæði Win og OsX eftir atvikum hvað er á dagskrá.
Hér má sjá þessa mynd í meiri gæðum
Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?
Næsta vél sem ég fæ mér á hverjum tíma. Annars hafa HP tölvur reynst mér sérlega vel í gegnum tíðina.
Hvernig síma ertu með í dag?
Nokia Lumia 1020 og 635
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Myndavélin er langbest af þeim símamyndavélum sem bjóðast, gæðin á skjánum eru frábær svo og hljóðupptaka, Here Maps sem hægt er að nota alveg offline (ókeypis) er stór kostur og svo er stýrikerfið í raun mun rökréttara og betur upp sett en önnur símastýrikerfi enda byggt á útbreiddasta stýrikerfi veraldar, Windows.
Hversu góð er myndavélin í símanum þínum?
Hún er ansi góð, nægjanlega góð til þess að ég skil stóru myndavélarnar miklu oftar eftir heima. Hún getur skilað nærri 40 megapixla DNG skrám, hráfælar með meiri upplausn en flestar SLR vélar. Það þýðir hins verar ekki að myndavélin í Lumia 1020 sé jafn góð og Pro SLR vélar, þar vantar talsvert upp á. En ég treysti mér til að vinna ákveðnar tegundir myndaverkefna eingöngu með Lumia 1020. Það segir talsvert, ég geri miklar kröfur. Hugbúnaðurinn er mjög góður en helstu takmarkandi þættir eru fast ljósop og föst víðlinsa.
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Nei, nema helst þá hvað þetta er vanabindandi apparat.
Eru einhverjir ókostir við símann?
Ekkert tæki er fullkomið eða best í öllu og það má eflaust finna ókosti við símann minn eins og aðra. Aðalatriðið er að þeir hlutir sem ég nota mest svínvirka. Ég rekst aðallega á ókosti í hvernig sum öpp virka og svo hefur verið gagnrýnt hvað fá öpp eru til í Windows. Það er reyndar breytt þar sem í Windows Store eru núna ca. 530.000 öpp sem dugar mér alveg.
Í hvað notar þú símann mest?
- Tala í símann.
- Taka myndir.
- Nota póstinn.
- Netið (frá fréttum í FB)
- Here maps
Að auki er ég farinn að nota símann í ótrúlegustu hluti s.s. sjóða egg, við smíðar, gítarstillir, þýðingar og textaskönnun (OCR) af prentuðu efni sem er innbyggt í WP stýrikerfið.
Sérðu fyrir þér að símar geti komið í stað myndavéla?
Það er í raun þegar að gerast. Flestir símar eru orðnir með myndavél og það eru ótrúleg þægindi að hafa hana alltaf tiltæka. Tæknin og myndgæðin eru hins vegar ekki samkeppnisfær enn við compact myndavélar nema í örfáum símum en samt eru mjög margir að nota símamyndavélar sem sína einu myndavél. Á endanum mun þetta ráðast af viðskiptasjónarmiðum, hvað símnotendur verða tilbúnir til að eyða aukalega í síma með alvöru myndavél. Það yrði mjög gott fyrir alla ef myndavélin yrði stór þáttur í samkeppni símaframleiðenda.
Hér má sjá þessa mynd í meiri gæðum
Hvernig finnst þér símar eiga að þróast í framtíðinni?
Það verður spennandi að fylgjast með því. Mér er efst í huga myndavélin. Myndgæði eru orðin ótrúleg í Lumia 1020 símanum, meira að segja í lítilli birtu. Það er hins vegar fast ljósop og föst víðlinsa á myndavélasímum, bæði takmarkandi þættir. Þarna væri gaman að sjá framfarir, sem mundi stórauka notagildi símans sem myndavélar. Svona lítil tæki mun seint koma í stað Pro myndavéla en þar sem ég treysti mér nú þegar til að nota myndir úr honum í atvinnuskyni (og hef gert það) þá væri gaman að sjá ákveðnar framfarir sem ættu ekki að vera metnaðarfullum framleiðendum ofviða á næstu árum. Ég vil hins vegar ekki sjá símana stækka, aðalkostur þeirra er smæðin.
Það er til stórsniðugt app, Lumia Beamer, sem ég nýti mér þar sem hægt er að sýna það sem kemur fram á skjá símans á tölvuskjám í gegnum vefsíðu. Með þessu er hægt að sýna það sem er í símanum á hvaða tölvuskjám eða gegnum myndvarpa sem er óháð búnaði eða stýrikerfi. Auk þessa eru komnir alls konar möguleikar á svipuðum tengingum í öllum kerfum.
Í framtíðinni vil ég geta lagt símann á þráðlausa hleðslu, notað þráðlaust lyklaborð og mús (eða puttana á símann/skjáinn) og senda það sem er í vinnslu þráðlaust beint úr símanum í næsta skjá, spjaldtölvu, hátalara, prentara, myndvarpa, sjónvarp o.s.fv. Gögnin upp og niður úr skýinu. Allir þessir þættir og tækni er til staðar en eftir er að láta þetta allt virka hnökralaust saman. Sama hér og með myndavélarnar, þetta kemur ekki í stað fyrir öflugar tölvur eða vinnustöðvar, a.m.k. ekki aveg á næstu árum, en allt framangreint drasl mun virka jafn vel með með símanum og vinnustöðinni og síminn geta nýst í stóran hluta tölvuvinnslu þorra fólks. Að hafa sama stýrikerfi, samhæft, á öllu draslinu er stór kostur og þar mun Windows að öllum líkindum verða öflugt í framtíðinni.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Fyrsti færanlegi síminn var 3 kg hlunkur, Mobira eitthvað (NMT). Fyrsti GSM síminn var Motorola eða Philips með útdraganlegu loftneti!
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Tvímælalaust Windows síma, helst næsta módel sem tekur við af Lumia 1020.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Þær eru margar, mest ljósmyndasíður en einnig tölvusíður aðallega um vefforritun. Einnig hljóðfæra og músíksíður og fleira og fleira. Skoða oft lappara.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Já, hvet fólk til að kynna sér Windows Phone, það mun koma mörgum skemmtilega á óvart. Svo er ég mjög ánægður með síðuna ykkar, Lappara, þið eruð að gera þetta vel. Alltaf gaman að sjá þegar hlutirnir eru gerðir af metnaði. Gangi ykkur vel og takk fyrir mig.