Við höfum verið með Lenovo IdeaPad U430 í prófunum síðustu vikurnar og því komin tími á að setja eitthvað á blað um vélina
Þetta er fyrsta IdeaPad vélin sem við prófum sem er svolítið sérstakt þar sem þær hafa verið töluvert lengi á markaðnum og notið töluverðra vinsælda. Vélin smellpassar í Ultrabook flokkinn en Lenovo hefur gert nokkrar málamiðlanir til að ná verðina á henni niður samanborið við high-end fartölvur eins og til dæmi Lenovo Thinkpad X1 Carbon. Ultrabook vélar eiga það sameiginlegt að vera litlar, þunnar, léttar en engu að síður öflugar. Þetta smellapassar því að leit minni að nýrri fartölvu í vinnuna og áhugavert að sjá hvort þessi vél dugar mér sem power-user..
Lenovo IdeaPad U430 kemur með Windows 8.1 og getur því notað öll venjuleg Windows forrit ásamt því að hafa aðgang að tugum þúsunda forrita í gegnum Windows Store sem er kostur þar sem vélin er með snertiskjá.
Eins og venjulega lagði ég fartölvunni minni og notaði prufuvélina eingöngu við vinnu og leik. Lenovo IdeaPad U430 er ekki með 3G-4G og því þurfti ég að bjarga mér þegar ég var að vinna úti í bæ en það er svo sem ekkert mál eins og sést hér.
Hönnun og vélbúnaður.
Ég hef sett upp margar Lenovo vélar í gegnum tíðina og vissi því nokkurn veginn hverju ég átti von á. Það finnst greinilega þegar IdeaPad U430 er handleikinn hversu sterkbyggð hún er og er frágangur mjög vandaður að öllu leiti og gott að sjá að Lenovo fórnaði ekki miklu í þeim flokki. Botn og toplok á vélinni er úr áli og frágangur til fyrirmyndar, vélin er smekklega og stílhrein en á móti er hún í þyngra lagi miðað við aðrar Ultrabook vélar.
Ég fékk mjög öfluga vél í þessar prófanir og þó ég hafi prófað margar vélar síðustu mánuði þá er ég enn gáttaður á því að hægt sé að koma svona öflugum vélbúnaði í svona lítilli vél. Vélin er með 14″ HD+ LED snertiskjá sem styður 1600 x 900 punkta upplausn sem er með minnsta móti í dag en útskýrir ágætlega hvernig Lenovo tekst að bjóða vélina á þessu hagstæða verði. IdeaPad U430 er 1,9 kg að þyng og 21 mm að þykkt og eins og hef áður sagt þá virðist hún vera mjög sterkbyggð og vel hönnuð.
Hér er myndband frá Lenovo sem rennir lauslega yfir kosti IdeaPad vélanna.
Vélin sem ég prófaði er með 500 GB SSHD harðdisk sem er hybrid SSD og venjulegur 5400 rpm harðdiskur. Vélin er með 8GB DDR3 vinnsluminni (mest 8 GB) og Intel i7 örgjörva (1.7-3.0 GHz 4500U Haswell) sem er mjög öflugur og keyrir stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði hnökralaust, t.d. hoppar vélin milli forrita hratt og örugglega. Vélin ræsir upp í heimaskjá á örfáum sekúndum (2-3 sec frá cold boot) og slekkur á sér á 2-3 sekúndum.
Lenovo Ideapad U430 er með þokkalegri myndavél fyrir ofan skjáinn sem dugar ágætlega í myndsamtöl. Myndavélin sinnir sínu hlutverki ágætlega og veitir ágætis mynd í myndsamtölum en er aðeins 0.9 MP og því alls ekki skörp. Myndir eru pixlaðar og grófar, sérstaklega ef birta er ekki í lagi en duga þokkalega í hefðbundin Skype símtöl.
Tengimöguleikar
Lenovo IdeaPad U430 er með kortalesara sem styður flestar gerðir minniskorta (MMC og SD) sem er þægilegt til að tæma af heimilismyndavélinni. Einnig eru tvö hefðbundin USB2 og eitt USB3 port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem eða minnislykil svo eitthvað sé nefnt.
Vélin er einnig HDMI tengi og því einfalt að tengja auka skjá eða jafnvel sjónvarp við vélina. Vélin er með Bluetooth 4.0 ásamt þráðlausu netkorti (Intel 7260) sem styður 802.11n (b/g/n) og vélin er einnig með 3,5 mm tengi fyrir heyrnartól.
Rafhlaða og lyklaborð
Lenovo IdeaPad U430 er með 4 sellu LiPol rafhlöðu og samkvæmt Lenovo þá má reikna með um 10 klst endingu með við eðlilega notkun sem er hreint ótrúlegt. Ég hef verið að nota vélina töluvert og því náð að prófa rafhlöðuendingu ágætlega. Mjög einfalt að láta rafhlöðuna endast heilann vinnudag og jafnvel lengur með einföldum sparnaðaraðgerðum. Í prófunum hjá Laptopmag þá náði hún 8:26 tímum sem er töluvert betra en meðaltalið í þessum flokki sem er 7:00.
Lenovo IdeaPad U430 er með baklýstu AccuType lyklaborði sem mér líkar mjög vel við. Eina sem ég get sagt um lyklaborðið er að ég hefði viljað hafa takkana örlítið hærri en það er líklega sérviska í mér frekar en eitthvað annað. Þar sem vélin er með snertiskjá þá er einnig venjulegt lyklaborð á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef smellt er á skjáinn og eru þar vitanlega allir hefðbundnir íslenskir stafir aðgengilegir.
Hljóð og mynd
Skjárinn er eins og fyrr segir með 14″ HD+ LED snertiskjá sem styður 1600 x 900 punkta upplausn og 10 punkta snertvirkni. Allur texti og myndir komu mjög vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði mjög vel.
Það skiptir samt máli hvernig er horft á skjáinn og renna litir saman og hann verður dökkur ef horft er á hann fá hlið. Einstaka sinnum fannst mér hann blæða lítillega bláum litablæ í þegar horft var á myndbönd en þetta var svo sem ekki áberandi.
Skjárinn er engu að síður mjög skarpur og skemmtilegur að nota og má telja líklegt að hann henti vel við almenna heimilis- eða skólanotkun.
Hátalarar eru tveir og eru staðsettir á hliðum, framarlega undir vélinni og gefa þeir ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Almennt finnst mér hátalarar í fartölvum lélegir vegna stærðar þeirra en þetta Dolby Home Theater kerfi er með besta móti
Margmiðlun
Þar sem IdeaPad U430 er bara venjuleg PC tölva þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með mjög öflugan örgjörva, nóg af vinnsluminni, hraðvirkum disk og vel fær um að lesa flest margmiðlunarverkefni með stæl.
Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum
Hugbúnaður og samvirkni.
Vélin kemur með Windows 8.1 og því hægt að setja upp öll venjuleg Windows forrit ásamt snertivænum forritum sem eru aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Með innbyggðum forritum og Office 365 áskrift þá er þessi klár í flest öll verkefni hvort sem það er heima fyrir eða í skólanum.
Ég prófaði hana með Office 2013 Pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust, þetta er spræk og skemmtileg vél í alla staði.
Finnst alltaf jafn skemmtilegt að setja upp nýja Windows 8.1 vél því ég skrái mig bara inn með Microsoft notendandum mínum og þá er tölvan eins og ég vill hafa hana. Tölvan sækir notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) en þar hef ég ókeypis 15GB til að afrita ljósmyndir af símanum mínum eða til að hýsa gögn..
Eins og oft áður þá pirrar mig örlítið af hugbúnaði sem fylgir vélinni en hann þvælist of mikið fyrir mér, hugbúnaður sem ég bað ekki um, vill ekki og mun aldrei nota. Vitanlega er þetta persónulegt mat og einfalt að fjarlægja af tölvunni.
Niðurstaða
Lenovo IdeaPad U430 er sterkbyggð, öflug, stílhrein og góð vél sem ætti að vera vænlegur kostur fyrir á hvaða heimili sem er. Vélin er létt og meðfærileg og því tilvalin fyrir skólafólk sem vantar öfluga vél með frábærri rafhlöðuendingu.
Tvennt sem mér finnst að þessari vél en það fyrra er hefðbundinn harðdiskur sem mun alltaf verða flöskuháls á i7 vél með 8 GB af DDR3 minni, hann einfaldlega hefur ekki undan og því mundi ég vilja þessa vél með alvöru SSD disk. Hitt er að skjárinn pirrar mig eitthvað, það er eitthvað við hann sem hentar mér ekki en þetta er vitanlega bara mitt persónulega mat og þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar.