Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 55 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Viðmælandi okkar í dag flokkast nú seint sem “harður tölvunörd” en hann er og hefur verið áberandi í sjónvarpi síðustu árin. Það þekkja flestir Þórhall Gunnarsson úr hinum ýmsu þáttum á RÚV, Stöð 2 og Skjá 1 en ég man eftir honum úr þáttum eins og Návígi og Kastljósi svo eitthvað sé nefnt.
Okkur er sannur heiður að hafa fengið viðtal við Þórhall og hleypum honum því að án frekari tafa…
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég er ósköp einfaldur maður sem var alinn upp í Kópavogi, flutti í miðbæ Reykjavíkur fyrir 20 árum og hef búið þar síðan. Ættaður frá Kópaskeri og er ákaflega stoltur af því….
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég er framkvæmdstjóri hjá Sagafilm og stýri þar allri framleiðslu á sjónvarpsefni. Síðustu ár hef ég nánast eingöngu verið að búa til og stýra framleiðslu og hugmyndavinnu sjónvarpsþátta af öllum stærðum og gerðum. Samhliða því hef ég ritstýrt nokkur þáttum og einnig komið fram í einhverjum þeirra.
Hvernig er venulegur dagur hjá þér?
Stanslausir fundir…. Hugmyndafundir, skipulagsfundir, samningafundir, framkvæmdastjórafundir, fjármálafundir, fjármögnunarfundir, kynningarfundir, handritafundir, tæknifundir…. Man ekki nöfnin á öllum þessum fundum en þeir eru flestir skemmtilegir og hafa það eina markmið að búa til gott sjónvarpsefni….
Hvernig leggst veturinn í þig og hvaða verkefni eru framundan?
Veturinn leggst vel í mig…..Nú erum við að undirbúa tökur á stórum tónlistarþætti fyrir RÚV, einnig neytendaþætti fyrir RÚV, erum nýbúin að klára upptökur á stórum skemmtiþætti fyrir Skjá 1 og erum að fara í tökur á Biggest Loser sem einnig verða sýndir á Skjá einum. Erum þessa dagana í æfingum á Stelpunum og byrjum tökur á þeim þáttum 1. september en þeir verða sýndir á Stöð 2. Svo eru handritaskrif á lokastigi á a.m.k. fjórum leiknum þáttaröðum og tveimur mini seríum sem eiga að fara í tökur á næsta ári. Til viðbótar eru allir þeir þættir sem of snemmt er að segja frá til að viðhalda trúnaði við sjónvarpsstöðvarnar. Hinsvegar eru fjölmargir þættir í undirbúningi og þróun sem bæði eru í samstarfi við íslenska og erlenda aðila og fara í tökur eftir áramót.
Einhverjar fréttir liðina daga eða vikna sem standa uppúr að þínu mati?
Því miður eru of margar fréttir úr íslenskri pólitík sem snúast meira um dellumál en framtíðarsýn og ég nenni ekki að fara nánar út í hér. Sömuleiðs fréttir af getuleysi ráðandi þjóða og alþjóðastofnana gagnvart ástandi í einstaka heimshlutum sem valda flestu heilbrigðu fólki vonbrigðum.
Lífsmottó?
Að vinna með skapandi og skemmtilegu fólki sem er klárara en ég! (sem er frekar auðvelt).
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Dr. Gunni, Valli í Fræbblunum, Guðrún Gunnarsdóttir, Sigfús Halldórsson, Hannes Friðbjarnarson….
Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni? (Win-Osx-Linux)
OSX 10.9.2
Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?
Þetta er mjög sérstök spurning…. Þú gætir allt eins spurt mig hvaða brauðrist er best í heimi…. en ég nota Apple MacBook Pro.
Hvernig síma ertu með í dag?
iPhone 5
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Hef ekki mikinn samanburð við Samsung sem margr mæla með…. Get gert allt á þessum síma sem ég þarf að gera en skjárinn mætti vera örlitið stærri…
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Bara nokkrir einstaklingar sem hringja í mig og ég kenni símanum um…
Í hvað notar þú símann mest?
- Hringja
- Svara
- Senda SMS
- Skoða tölvupósta
- Spotify
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Nokia 3210 minnir mig…
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Framtíðarútgáfu af IPhone – örugglega númer 14
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Síðum sem fjalla um erlent sjónvarpsefni…. Veit ekki hvort þær teljist vera tæknisíður
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Til hamingju með þennan nýja fjölmiðil… bráðskemmtilegur.