Heim Ýmislegt Hvernig er búnaðurinn tryggður?

Hvernig er búnaðurinn tryggður?

eftir Gunnar Ingi Ómarsson

Við hérna hjá Lappara höfum aðeins verið að velta fyrir okkur hvernig búnaður er tryggður hjá tryggingarfélögum. Þessi pæling fór nú aðallega af stað vegna þess að ég var spurður um daginn hvort það væri sniðugt að kaupa tryggingu hjá söluaðila. Ég verð að viðurkenna að ég hreinlega hafði ekki kynnt mér hvort þetta væri hagstætt eða hvernig þetta virkaði yfir höfuð. Það var því ekki annað í boði en að hella sér í smá rannsókn á þessu máli, með því markmiði að þú sem neytandi hafir góðan samanburð og vitneskju ef þú þarft að eiga við tryggingarfélagið.

Ekki fyrir svo löngu lenti bróðir minn í því að það kviknaði í þvottavélinni hjá honum og hann byrjaði á því að bölva því, eins og gengur og gerist þegar kviknar í þvottavélum hjá manni, en síðan hugsaði hann að hann væri nú tryggðir. Hann hringir því í tryggingarfélagið sitt og tjáir þeim hvað hafði gerst og spyr hvort þetta sé ekki tryggt, þeir tjá honum að þetta sé jú tryggt og spyrja svo hversu gömul þvottavélin sé, hann segir þeim að vélin sé 7 ára gömul. Þá kemur í ljós, eitthvað sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir, að það eru afskriftir af búnaðinum og sérstök tafla sem fjallar um þetta. Því er þannig háttað að aldrei er hægt að afskrifa meira en 70%, nema í tilfellum tölva, og svo er bætt sjálfsábyrgð ofan á það. Blessaður bróðir minn situr því uppi með örfáa þúsundkalla fyrir þvottavélina sem kviknaði í. Mér varð því hugsað að þar sem ég vissi þetta ekki þá væru kannski aðrir þarna úti sem vissu þetta ekki heldur og það ýtti því ennþá frekar við pistlagerð um þetta mál.

Heimilistryggingar

Ég fór því á stúfana, internet stúfana, og aflaði mér upplýsinga af heimasíðum vátryggingafélaga. Afskriftirnar miðast því út frá verði sambærilegs búnaðar. Hérna er afskriftar tafla fyrir VÍS, Vörð, Sjóvá og TM. Dálkur A er ár án afskrifta og Dálkur B er afskrifta prósenta (%) á ári.

VÍS Sjóvá TM Vörður
A B A B A B A B
Fatnaður 1 20% 1 20%/30%* 1 20%/30%* 1 20%/30%*
Hljómflutningstæki 2 10% 2 10% 2 10% 2 10%
Stafrænar myndavélar 1 20% 2 10% 1 10% 1 20%
DVD og heimabíó 1 20% 1 20% 1 20% 1 20%
Sjónvörp og myndb.tæki 2 10% 2 10% 2 10% 2 10%
Útvörp 2 10% 2 10% 2 10% 2 10%
Önnur rafmagnstæki 1 10% 1 10% 1 10% 1 10%
Reiðhjól 1 10% 1 20% 1 20% 1 20%
Skíða- og viðlegubúnaður 1 10% 1 20% 1 10% 1 20%
Snjallsímar, tölvur 0,5** 10% 1 20% 0,5*** 10% 0,5*** 10%

* Aðeins VÍS gerir ekki greinarmun á barna- eða fullorðinsfatnaði. Það er semsagt 30% afskriftir af barnafatnaði hjá hinum.

** Afskriftir á 6 mánaða fresti og aldrei meira en 80% afskriftir

*** Afskriftir á 6 mánaða fresti og tölvur eldri en 5 ára fást ekki bættar.

Það vakti athygli mína að snjallsímar, tölvur og spjaldtölvur fara í sama flokk og afskrifast á 6 mánaða fresti með 10% afskriftum hjá öllum nema Sjóvá sem afskrifa bara 20% árlega. Einnig taka TM og Vörður fram að tölvur eldri en 5 ára fást ekki bættar.

Fartölvutrygging

Eitt af því sem okkur hefur svo verið selt undanfarin ár er sérstök fartölvu trygging. Hvað með þessa tryggingu? Þetta er nú sérsniðið að sérstökum búnaði og það hlýtur nú að vera eitthvað öðruvísi en innbúskaskó tryggingin sem hægt er að kaupa með heimilistryggingum. Það er rétt, hún er betur sniðin að því leyti að hún dekkar fartölvuna þína allstaðar í heiminum á meðan innbúskaskóið dekkar bara heimilið þitt. Það sem ég ekki vissi um fartölvutryggingar er að hún dekkar ekki hluti eins og hleðslutæki, snúrur, lélegt viðhald, skemmdir sem gætu orðið á verkstæði og fleira. Í þessari tryggingu er eigin áhætta, líkt og í flestum öðrum tryggingum, sem í þessu tilfelli er ævinlega um 10% og ekki minni en einhver upphæð sem er tekin fram á tryggingarskírteini. Ég hélt þá líka að þetta yrði töluvert öðruvísi en innbúskaskóið og það er það að vissu leyti.  Eftir smá leit fann ég  afskriftartöflur fyrir VÍS, Sjóvá og TM.

VÍS Sjóvá TM
Mán Bætt % Mán Bætt % Mán Bætt %
Fartölvutryggingar 0-12 100 0-12 100 0-12 100
13-18 88 13-19 85 13-18 88
19-24 75 20-25 65 19-24 75
25-30 62 26-30 45 25-30 62
31-36 50 31-36 25 31-36 50
37-42 38 37-42 38
43-48 25 43-48 25

Það má sjá í þessari töflu að munurinn í afskriftum liggur fyrst og fremst í að tölvan er 100% tryggð fyrstu 12 mánuðina í stað 6 mánaða eins og í innbúskaskó en svo er afskrifað 12%-13% á 6 mánaða fresti eða 15%-20% eins og Sjóvá gerir. Þessar prósentur eru dálítið hærri en í innbúskaskó og er náttúrulega sú staðreynd að fartölvan er aðeins tryggði í 4 ár, hjá VÍS og TM, eða 3 ár hjá Sjóvá.

Viðbótartryggingar raftækjaverslana

En vindum okkur þá í raftækjaverslanir, þar með talið verslanir með tölvubúnað. Ég rúllaði í gegnum nokkrar heimasíður í leit að upplýsingum og ég fann þennan valmöguleika aðeins hjá 3 aðilum, það skal tekið fram að það getur verið að þetta sé í boði á fleiri stöðum en þá vantar dálítið upp á upplýsingaflæðið.

Tölvutek.

Tölvutek er með 2 ára kaskótryggingu fyrir far- og spjaldtölvur. Þessi trygging kostar kr. 9.990 fyrir vélar að verðmæti allt að kr. 99.999 og kr 11.900 fyrir vélar að verðmæti yfir kr. 100.000. Þessar tryggingar greiðast með eingjaldi við upphafs samnings og hafa enga sjálfsábyrgð. Þessi trygging dekkar mjög svipað og fartölvutryggingar hjá vátryggingarfélögum. Þeir bera ekki fyrir sig neinar afskriftir nema að viðkomandi vilji fá trygginguna greidda út í peningum í stað þess að dekka viðgerðar- eða útskiptikostnað, semsagt það eru engar afskriftir af verðmæti vélarinnar ef þarf að skipta út heldur fær viðkomandi eins vél eða sambærilega. Þetta er jú 1-2 árum styttri tími en hjá vátryggingarfélögum en á þessu er enginn afskrift. Það má líka geta þess að hjá þeim er hægt að kaupa auka ár í ábyrgð á búnaði líka. Frekari upplýsingar um kaskótrygginguna þeirra er hægt að finna hérna.

Heimilistæki.

Heimilistæki bjóða upp á 3ja til 5 ára kaskótryggingu á sínum sínum vörum, í samstarfi með vátryggingarfélaginu Verði. Það er mjög lítið um upplýsingar að hafa á heimasíðu þeirra en það væri sniðugt að spyrja þá vel útí þetta ef þú hefur áhuga á þessu næst þegar þú kaupir vöru af þeim.

Elko.

Elko bíður upp á viðbótartryggingu á valdar vörur hjá sér. Það kemur ekki mikið annað fram um hvaða vörur það eru eða hversu lengi tryggingin gildir. Þeir eru að tryggja t.d. fyrir óhöppum og innbrotum með engum afföllum fyrsta árið en eftir það fara þeir eftir einhversskonar verðmætarýrnun og taka fram að fyrir tölvu- og símabúnað er verðmætarýrnun allt að 20% – 30% á ári. Allar upplýsingar sem þeir gefa upp er að finna á þessari síðu hjá þeim.

Niðurstaða

Ég hef heyrt aðila í tryggingargeiranum tala um að þessar tryggingar raftækjaverslana séu mjög góðar og eftir þessa litlu rannsókn mína þá verð ég að vera sammála því með þeim fyrirvara að þær detti ekki í þessar afskriftarreglur eins og vátryggingarfélög gera. Ég er allavega farinn að benda fólki að gera ráð fyrir 10.000-20.000 aukakostnaði til að fá auka ár í ábyrgð og svo kaupa þessar tryggingar til að vera sem best í stakk búinn til að tækla uppákomu sem geta gerst. Það borgar sig samt alltaf að lesa vel yfir skilmála og sjá almennilega hvað fellur utan tryggingar svo það sé ekkert sem komi manni að óvörum. Undanfarið hefur verið rætt í fjölmiðlum tvö mál þar sem aðilar fengu ekki bætt innbrot þar sem vátryggingarfélagið sagði að engin merki hefðu verið um innbrot þrátt fyrir að það standi í lögregluskýrslu að um innbrot hafi verið að ræða, ég leitaði ekki eftir upplýsingum frá raftækjaverslunum hvernig þeir tækluðu þessa skilgreiningar þar sem ég tæklaði bara upplýsingar sem ég fann á vefum þeirra. En endilega hafið í huga að kaupa þessar tryggingar ef þær eru í boði, en fáið ítarlegri upplýsingar fyrst. Vonandi hefur þessi pistill komið einhverjum ykkar að góðum notum.

 

Mynd tekinn af digitaltrends.com

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira