Eins og áður hefur verið kunngjört hérna þá lagði Steve Ballmer inn $2 milljarða kauptilboð í NBA körfuknattleiksliðið Los Angeles Clippers núna í júní. Mikill hasar hefur fylgt ummælum, sem flokkast sem kynþáttaníð, fráfarandi eiganda Clippers, Donald Sterling. Eftir að eiginkona Sterling hafði samþykkt kauptilboð Ballmers þá fór Sterling af stað með lögsókn til að koma í veg fyrir sölu liðsins. Sterling hélt því fram að eiginkona sín hafi ekki haft rétt til þess að selja liðið og hann yrði að samþykkja kaupsamninginn. Verjendur lögðu helst áherslu á greiningu lækna um að Sterling sé með Alzheimer og því ekki fær um að stjórna sínum málum. Það má segja hrokinn í Sterling hafi orðið honum að falli þar sem ummæli hans í réttarsal voru að stangast á við fyrri ummæli, hann kallaði svo konu sína “pig” eftir hennar vitnisburð og hann missti í raun algerlega einhverskonar tengingu við dómarann.
En getur verið eitthvað annað en einhverskonar hefnigirni í gangi hjá Sterling? Við skulum aðeins setja þetta dæmi upp í tölur. Sterling keypti körfuknattleiksliðið árið 1981 fyrir litlar $12 miljónir sem er um $31 miljón ef framreiknuð er verðbólga. Í janúar á þessu ári (2014) var liðið metið á $575 miljónir, 13. verðmætasta lið NBA deildarinnar, og var á síðasta ári rekið með $15 miljón í rekstrarhagnað. En við setjum þessar tölur saman og setjum þetta fram á annan hátt, miðað við að liðið sé skuldlaust. Miðað við gott gengi félagsins síðustu tvö tímabil og að það haldi áfram á svipuðu róli þá ætlum við að gefa okkur að rekstrarhagnaður liðsins aukist um 20% á ári (þrátt fyrir yfirlýsingar frá þjálfara og leikmönnum um sniðganga liðið ef Sterling verði áfram eigandi). Ef dregnar eru $31 miljón frá kaupverði og segjum ca. $60 miljónir í einhverskonar gjöld þá er hagnaður Sterling um $1,9 milljarðar, miðað við 20% aukinn rekstrarhagnað tæki það Sterling um 18 ár að ná uppí sama hagnað og hann nær á sölu liðsins núna. Þess má geta að eftir 18 ár verður Donald Sterling orðinn 98 ára.
Lögfræðingar eiginkonu Sterling og lögfræðingar Ballmers búast við að salan gangi eftir þann 15. ágúst, en dómari málsins lagði fram dóm þar sem segir að frekari lögsóknir geti ekki tafið sölu liðsins. Eiginkona Sterling hafði það svo á orði að L.A. Clippers væru með besta kaupandann að liðinu, Steve Ballmer, og að framtíð liðsins væri björt með hann í fararbroddi. Við hér hjá Lappara erum oft fullyrðingaglaðir og því segjum við, þegar kaupin ganga í gegn verður þetta metfé sem fengist hefur fyrir NBA lið, þess má einnig geta að verðmætasta liðið í NBA deildinni var metið á $1.4 milljarð í Janúar. Það má líka til gamans geta að eigandi Dallas Maverick er Mark Cuban sem seldi broadcast.com til Yahoo á sínum tíma.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig Steve Ballmer mun koma að rekstri félagsins, hvort hann verði svona “hands-on” eins og Mark Cuban eða láti þetta alfarið í hendurnar á fagfólki og verði frekar leynivopn í samningaviðræðum við leikmenn og/eða auglýsendur.
Heimildir : Forbes.com, ESPN og NBA.com