Heim Föstudagsviðtalið Sigurður Mikael Jónsson

Sigurður Mikael Jónsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 51 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Það er nær öruggt að flestir ættu að þekkja þann sem er viðmælandi okkar að þessu sinni, má með sanni segja að hann sé B-O-B-A eins og Bubbi mundi segja það. Hann er einn af þeim sem fóðrar “virka í athugsemdum” á DV.is, okkur öllum til ánægju og yndisauka.

Þetta er enginn annar en Mikael Jónsson blaðamaður á DV.is en hann sér einmitt um neytendahluta DV eins og frægt er. Fyrir utan samskipti mín við Mikael tengdum þessu viðtali og vegna greinar sem birtist fyrir skemmstu í DV.is þá þekki ég hann þó ekki persónulega. Þetta er flottur strákur og góður penni sem gaman að er fylgjast með á DV og Twitter, virðist vera létt ofvirkur sem líklega spillir ekki fyrir í hans starfi.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Kallaður Mikael, fæddur 1983 og uppalinn á Akranesi, búsettur í Reykjavík síðastliðin sex ár. Ég vonast til að eiga svar við því hver ég er á næstunni, eða þegar ég verð stór. Þangað til ætla ég bara að reyna að vera.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er á mínu sjöunda ári sem blaðamaður á DV þar sem ég hef að mestu starfað við að fóðra virka í athugasemdum og aðra lesendur á DV.is með efni. Þegar ég byrjaði var DV.is nýr og lítill vefur með tæplega 18 þúsund notendur á viku. Í dag er þetta þriðji stærsti vefur landsins með um og yfir 300 þúsund notendur á viku sem er glæsilegur árangur miðað við mannafla “stóru miðlanna.” Ég á eitthvað pínulítið í þeim árangri finnst mér. Fyrir nokkrum vikum var mér falið að taka við neytendahluta DV svo ég er meira að skrifa í prentútgáfuna núna. Neytendamálin henta mér líka einstaklega vel enda er ég sítuðandi.

Annars hefur dóttir mín átt hug minn og athygli alla síðan hún kom í heiminn í september 2012. Síðan þá hef ég eiginlega farið eins langt og nokkur maður hefur komist í að pabba yfir sig.
Jafn ótrúlega klisjukennt og það er fyrir blaðamann þá hef ég gengið með skáldsögur í maganum undanfarin ár sem ég legg mig sérstaklega fram við að fresta og ýta á undan mér svo þær munu líklega aldrei líta dagsins ljós. Ég verð því andlega óléttur eitthvað áfram.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég er morgunmaður sem aldrei hefur átt í vandræðum með að vakna svo venjulegur vinnudagur byrjar snemma, vanalega nokkuð fyrir klukkan sjö.
Þá hendir maður sér í sturtu, lagar eitthvað leiðinlega hollt boozt eða hafragraut fyrir familíuna og í sameiningu reynum við hjónaleysin að koma barninu í föt, út úr húsi og til dagforeldranna samhliða því sem við reynum að koma einhverri næringu ofan í okkur á hlaupum. Ég fer til vinnu þar sem ég sit fyrir framan tölvu í 8 tíma og skrifa ósköpin öll af efni, drekk kaffi og reyni af fremsta megni að finna þessa hárfínu blöndu á milli þess að vera fyndinn og alvarlegur á Facebook án þess að æra alla í kringum mig. Þaðan fer ég rakleiðis að sækja dóttur mína til dagforeldra. Við reynum að leika eitthvað aðeins úti ef veður leyfir en oftar en ekki tekst henni að plata mig inn að horfa á Despicable Me en frá og með síðustu viku þá eigum við einmitt heimsmetið í því að horfa á þá mynd. Bæði eitt og tvö. Það er mikill heiður. Heimsmetabók Guinness er með númerið mitt.

Síðan er bara stanslaus tveggja til þriggja tíma keyrsla af matargerð, uppvaski, baði, svæfingum og duddu-æfingum þar til maður sekkur ofan í sófann fyrir framan sjónvarpið með kannski eins og einn ískaldan. Er vanalega farinn frekar snemma að sofa til að endurtaka leikinn næsta dag. Þetta er formúlan sem þegar maður segir hana svona upphátt hljómar bara hreint ekki svo spennandi en svona er hversdagsleiki fjölskyldufólksins.

 

Lífsmottó?

Eru það ekki bara crossfit-gaurar og afreksfólk sem á sér innblásin lífsmottó? Ég á enn eftir að finna mitt. Fyrst þarf ég þarf ég afrek, svo fæ ég mér mottó.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Við Skagamenn eigum, og höfum í gegnum tíðina alltaf átt, mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki en einhverra hluta vegna höfum við ekki verið að brjótast inn í mainstreamið með hljómsveitir. Fremstir í þeim flokki fara þó líklega vinir mínir í raftónlistarsveitinni Worm is Green. Svo eigum við einstaklinga á borð við Davíð Þór Jónsson, Börk Hrafn Birgisson, Orra Harðar og þar sem ég er mikill blúsmaður þá nefni ég líka blússveitina Ferlegheit.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni? (Win-Osx-Linux)

Mig verkjar illilega í OCD-ið mitt þegar gerðar eru breytingar á einhverju sem ég hef vanist og fékk ég því mikinn sting þegar tölvumaðurinn í vinnunni henti upp Ubuntu á tölvuna mína. Lesendur ykkar þekkja þetta stýrikerfi líklega en ég hafði ALDREI heyrt um það áður. Það fékk hæstu meðmæli frá Árna tölvumanni. Á meðan engdist ég um á gólfinu í fósturstellingu og Windows-fráhvörfum. Ég er enn að venjast þessu Linux-dæmi.

 

Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?

Mig hafði um árabil langað að prufa að eiga Macbook-tölvu. Jú, þetta var vafalaust eitthvað froðuhæp og milljón betri tölvur þarna úti en Apple markaðsmaskínan hafði bara læst klónum í mig. Ég lét loks verða að því í fyrra að eignast nýjustu útgáfuna af Macbook Air. Ég held ég geti með sanni sagt að þetta sé besta tölva sem ég hef átt þó líklega séu “betri” tölvur þarna úti. Hún er bara eitthvað verkfræði-hönnunar undur og mér finnst eins ég sé með eitthvað listaverk í höndunum. Lítil, létt, örþunn en samt svo þægileg og snerpan uppmáluð. SSD hefur eyðilagt alla aðra harða diska fyrir mér og sú snilld sem það er bætir upp fyrir plássleysið á Air-tölvunni.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég hoppaði úr iPhone 3Gs yfir í iPhone 5 sem ég á enn í dag þannig að það var eitt stykki risastökk.

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Mér finnst hann öflugur, stórfín myndavél og hið stílhreina og einfalda notendaviðmót iOS, þar sem allt er bara á sínum stað, hentar mér einstaklega vel.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég eignaðist símann var slök rafhlöðuending. Hann dugar mér enn daginn blessaður en kvöldin mín fara alltaf í að hlaða hann fyrir komandi átök næsta dag.

 

Í hvað notar þú símann mest? (top 5 listinn)

  1. Facebook
  2. Twitter
  3. Taka barnamyndir (Ég er jú, að pabba yfir mig)
  4. Netflakk (Tek rúntinn á frétta- og sportsíðum)
  5. Candy Crush (Já, ég er einn af þeim)

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Eins og svo margir aðrir á mínum aldri þá fékk ég mér Nokia 5110. Ég var samt seinn til og með ákveðinn mótþróa og fordóma gagnvart þessu farsímabulli sem unglingur. Ætlaði sko aldrei að fá mér farsíma! En þegar ég var farinn að nota símann hjá vini mínum til að senda og taka við SMS-skilaboðum frá stelpunni sem ég var skotinn í þá sá ég að þetta væri óumflýjanlega framtíðin.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég er orðinn hættulega háður iPhone og iOS-stýrikerfinu. Ég er enda svo vanafastur að ég verð eiginlega að segja að draumasíminn minn sé sá nýjasti frá Apple hverju sinni. Konan mín á Galaxy S4 og ég hef mikið fiktað í honum og reynt að venjast og ná áttum í þessu Android-dæmi en það er bara ekki fyrir mig. Ég verð bara ringlaður og pirraður. Það er því hæpið að ég myndi þora að prófa eitthvað út fyrir þægindarammann nema mér væri hreinlega gefinn Windows- eða Android-sími. Þetta er orðin svo stór fjárfesting að kaupa sér fínan síma að maður tekur enga sénsa með aurana sína.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég dett reglulega hingað inn á Lappara.com í gegnum Twitter og finnst þetta frábær síða með virkilega vandaða og mjög ítarlega umfjöllun. Ég er þó lítið að flakka um hreinræktaðar tæknisíður, það sem ég les er vanalega í tækniundirflokkum stóru erlendu fréttasíðanna.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira