Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 52 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Þar sem viðtalið hefur nú verið hvern föstudag í heilt á þá ákváðum við að leggja höfuðið í bleyti og vanda val okkar á viðmælanda sérstaklega vel. Föstudagsviðtalið að þessu sinni er við einn öflugasta framkvæmdastjóra í upplýsingatækniiðnaðinum á Íslandi í dag, Sigríði Margréti Oddsdóttur. Sigríður Margrét og teymið hennar hjá Já-upplýsingaveitum hafa á undanförnum árum nánast afstofnanvætt gömlu góðu 118 og Símaskránna sem voru lengi vel hluti af grunnstoðum Pósts og síma og gert að einni flottustu lausninni á tæknimarkaðnum hérlendis.
Það þarf ekki að orðlengja mikið þegar slík þungvigtarmanneskja mætir í viðtal hjá okkur og því gefum við henni einfaldlega orðið í okkar vikulega viðtalshluta.
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég heiti Sigríður Margrét Oddsdóttir en þú mátt kalla mig Siggu Möggu. Ég er Reykvíkingur, Skagstrendingur, Njarðvíkingur og Akureyringur.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég leiði mjög hæfan hóp starfsmanna hjá Já sem forstjóri og einn af eigendum fyrirtækisins. Viðskipti eru mín ástríða, Já er í dag framsækið nýsköpunarfyrirtæki sem byggir á yfir hundrað ára gömlum grunni. Um tíma stýrði ég einnig Skjánum en bæði Já og Skjárinn voru þá í eigu Skipta samstæðunnar, fjölmiðlaumhverfið er bæði lifandi og skemmtilegt.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Yfirgengilega venjulegur en jafnframt hrikalega spennandi af því að ég elska að vinna. Ég er stöðugt að reyna að breyta heiminum. Venjulegir dagar innihalda fullt af kaffibollum, frábæru fólki, sköpun og krefjandi verkefnum. Mér finnst alveg einstaklega gaman að vera ég, ég vildi óska þess að ég gæti leyft þér að prófa.
Lífsmottó?
Að láta verkin tala.
Hvernig síma ertu með í dag?
Samsung Galaxy S3
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Hann er léttur og fer vel í hendi, keyrir á Android stýrikerfi sem þýðir að ég get talað við hann á íslensku og notað uppáhalds öppin mín, hann er með HD skjá, frábæra myndavél og er hraðvirkur, þetta er bara öflugt vinnutæki í stöðugri notkun.
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Hann endist of vel, mig langar í nýja útgáfu.
Í hvað notar þú símann mest? (topp 5 listinn)
- Tölvupóst
- Hringja símtöl (og sía út símtöl með Já Núna appinu)
- Fylgjast með rauntímanotkun á vefjum og öppum Já
- Finna heimilisföng og rata á réttan stað með Já.is appinu
- Fylgjast með fréttum
Fyrirgefið þúsundfalt allt „plöggið“ – en ég er að svara frá hjartanu!
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Nokia 5110
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Samsung Galaxy S5
Af þeim tækjum sem þú hefur keypt þér í gegnum tíðina, hvert þeirra hefur valdið þér mestum vonbrigðum?
Elska tæki, hef keypt fullt af þeim og af mjög fjölbreyttum ástæðum en hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum en væntingarnar og kröfurnar hafa sannarlega aukist með hverju einasta nýja tæki.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Ég fylgist aðallega með áhrifum tækninnar á viðskipti, les reglulega skýrslur frá McKinsey, fylgist vel með samantektum frá KPCB, efni frá skráðum félögum sem tengjast rekstri Já, sæki ráðstefnur erlendis og nota Twitter óspart til að fylgjast með fagaðilum.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Takk fyrir að bjóða mér í heimsókn!