Föstudagsviðtalið þessa vikuna er ekki af verri endanum en í þetta skiptið er enginn annar en körfuboltasnillingurinn og væntanlegur tilvonandi utanríkisráðherra Íslands, Jónas Haraldsson, sem situr fyrir svörum.
Jónas er margt til lista lagt en fyrir utan að hafa óaðfinnanlegan fatasmekk þá hélt hann úti myndablogginu Cloudstepper um árabil áður en hann lokaði því formlega hjá sér og flutti sig yfir á Instagram með myndaframboðið sitt.
Þessa vikuna er hann bókstaflega spurður spjörunum úr en fyrir ykkur sem viljið hitta á kappann þá eru meiri líkur heldur en meiri á því að hann sé að skora á gesti og gangandi í ‚one on one‘ við körfurnar á Klambratúni.
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Jónas Haraldsson, fæddur á Akureyri 16. febrúar 1980 en alinn upp í Vesturbæ Reykjavíkur.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég vinn hjá utanríkisráðuneytinu og er stundakennari í Háskóla Íslands. Frítíma mínum síðustu árin hef ég varið í ferðalög, körfubolta, vini og svo reyni ég að búa til tónlist þegar tími gefst til. Já og fikta í tæknidóti hvers konar.
Hvernig er venulegur dagur hjá þér?
Vinna + leikur. Og alltaf að reyna að læra eitthvað nýtt.
Lífsmottó?
Lífið er sín-bylgja.
Topp 5 tónlistarmenn/hljómsveitir sem kenna sig við þinn heimabæ?
Ég ætla að nota RVK sem minn heimabæ í þessari spurningu og hérna koma fimm atriði í ekki neinni sérstakri röð.
- Amaba Dama
- Hermigervill
- Gus Gus
- Gluteus Maximus
- Bartónar, Kallakór Kaffibarsins
Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni? (Win-Osx-Linux)
Windows 7 og Apple heima fyrir.
Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?
HAL var klárlega besta tölvan í geimnum. Annars er ég ansi spenntur fyrir Win8 og Surface Pro 3. Svo kann ég líka mjög vel við MacBook Pro vélina mína, sem er með 8GB vinnsluminni, 750GB hörðum disk og 2.9 GHz Intel Core i7.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég á Nokia N9, Lumia 620 og síðan iPhone 5S sem ég nota dags daglega. Hann er reyndar bilaður núna svo Lumia síminn er í vasanum. Mig vantar helst Jawbone UP smáforrit og betri myndavél en annars virkar hann mjög vel, sérstaklega finnst mér tölvupóstsviðmótið gott
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Það eru til öll möguleg og ómöguleg öpp fyrir hann. Og að hann er með 32GB minni.
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Batterý endingin er ekki nógu góð finnst mér – ég hefði verið til í að hafa símann einhverjum millimetra þykkari og betri batteríendingu sem því nemur. Þess vegna er ég eiginlega alltaf með Nokia-batterí á mér ef þurfa skyldi.
Í hvað notar þú símann mest? (topp 5 listinn)
Ég verð að setja Topp Sex lista…
- Samskipti hvers konar (Facebook/Twitter)
- Taka myndir (Instagram/Tumblr)
- Tónlist (Spotify/HypeM/Figure)
- Lestur (Kindle/Pocket/Paper)
- Leikir (Football Manager/Boom Beach/Ticket to Ride)
- UP (Var að fá Jawbone UP24 og er stöðugt í smáforritinu)
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Árið var 1999 og síminn var Motorola d520. Ég fékk hann frá mömmu þegar hún fékk sér nýjan síma og það merkilegasta við hann er sennilega að ég átti hann í fjögur ár!
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Ég er frekar spenntur fyrir Jolla og hvernig hann mun þróast. Svo væri gaman að eiga Lumia 1520. Þeir yrðu þá viðbót við iPhone 5S.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Engadget, The Verge, Wired, GSMArena, BGR og auðvitað kíki ég á Lapparann – og allar nær daglega held ég.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Maður verður að rækta garðinn sinn.