Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 46 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Það er spurning hvað viðmælandi minn í dag fellur inn í ofangreindar skilgreiningar en má ekki segja að hann sé venjulegur nörd sem er og hefur verið áberandi í mörg ár. Reyndar ekki svo mikið í tækniheiminum en það þekkja líklega flestir landsmenn til hans.
Sá sem í heita sætinu situr er enginn annar en Heiðar Örn söngvari í Pollapönk sem er ásamt öðrum Pollapönkurum staddur í Danmörk og að fara að keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision. Ég veit ekki með ykkur en ég er rífandi stolltur af strákunum og eru þeir og boðskapur þeirra, landi og þjóð til sóma.
Heiðar er flottur kall og góður félagi, við höfum þekkst frá því við vorum smápollar en við vorum bekkjafélagar í Lækjarskóla Hafnarfirði og ávallt mjög góðir félagar. Við höfum kannski ekki verið í sambandi í síðustu árin en það var gaman að heyra í h0num og átta sig á því að hann hefur ekkert breyst frekar en ég. 🙂
Við hér á Lappari.com óskum þeim félögum góðs gengis á morgun og vonandi vita þeir að það standa allir við bakið á þeim.. Ef þú ert í Eurovision stuði eins og við þá ertu ekki of sein/n að vinna Domino’s inneign
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Heiðar Örn Kristjánsson heiti ég, er gaflari og gríðarlegur FH-ingur.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég er leikskólakennari og hef starfað sem slíkur frá því ég útskrifaðist úr KHÍ 2006. Einnig starfa ég við tónlist. Sent frá mér 5 plötur með Botnleðju og þrjár með Pollapönki svo eitthvað sé nefnt.
Eftirminnilegasti kennarinn úr Lækjaskóla?
Jón Myrdal
Lífsmottó?
Meiri gleði, minni ógleði!
Uppáhalds íþróttafélag?
Fimleikafélag Hafnarfjarðar
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Björgvin Halldórsson, Maggi Kjartans, Halli & Laddi og Þröstur skrítni á Skerseyrarveginum!
Hvernig er Euróvision dagur hjá Pollapönkara?
Það er ræs kl. 9:00. Klætt sig í pollastuttbuxur og bol og farið í ræktina á hótelinu, sturta og svo beint í morgunmat í pollasloppnum. 11:00 viðtöl við hina ýmsu fjölmiðla á sloppnum og með sólgleraugu (mjög mikilvægt) 13:00 fataskipti, Henson pollagalli, farið með rútu á æfingu. Að henni lokinni eru tvö gigg, viðtöl og myndatökur. 18:00 farið upp á hótel, fataskipti, matrósaföt, svo matur. 20:30 er farið í partý á euróklúbbnum, viðtöl og myndatökur. 12:00 farið upp á hótel og hljóðfærin sótt. 02:00 spilerí. 3:00 upp á hótel að sofa, pollanáttföt!
Ertu með eitthvað Eurovision slúður sem þú getur deilt með okkur?
Nothing jaw dropping 😉
Breytið þið einhverju fyrir lokakeppnina á laugardaginn?
Það þarf ekki að laga það sem ekki er bilað.
Hvernig síma ertu með í dag?
Iphone 5
Hver er helsti kostir og ókostir við símann þinn?
Frábært að grípa í hann þegar maður fær hugmyndir, hvort sem er tónlist eða textar og nota hin ýmsu öpp sem í boði eru til þess. Ókostir: tímaþjófur!
Í hvað notar þú símann mest?
E-mail, facebook/twitter, hlusta á tónlist, búa til tónlist og taka myndir.
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Iphone allan daginn.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Engum sérstökum, einhverjar hugmyndir? /// Lappari: mæli með Lappari.com
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Enga fordóma 😉