Dell XPS 15

eftir Jón Ólafsson

Eins og fram hefur komið þá er ég er sjálfur að leita mér að nýrri fartölvu í vinnuna. Þegar ég prófaði Lenovo Thinkpad Yoga þá var ég strax beðinn um að prófa Dell XPS 15 sem er nýlega kominn í sölu hjá Advania. Dell XPS 15 er ólíkt Yoga vélinni hefðbundin fartölva og á pappírum lítur þessi vél all svakalega vel út, því áhugavert að sjá hvernig Dell XPS 15 hentar mér og hvernig hún kemur út í prófunum..

Eins og venjulega lagði ég fartölvunni minni og notaði prufuvélina eingöngu við vinnu og leik. Ég fékk reyndar ekki með vélinni docku (tengikví) en það hefði létt mér lífið við að tengja vélina við auka skjá, netsnúru, lyklaborð, mús og hátalara sem eru á skrifstofunni.

 

Hönnun og vélbúnaður.

Ég hef sett upp, átt og þjónustað fjölmargar Dell vélar í gegnum tíðina og vissi því nokkurn veginn hverju ég átti von á en Dell XPS 15 er með sama frábæra stuðning frá framleiðanda og notendur ættu eru vanir. Þessi Dell XPS 15 vél er mjög vönduð, sterkbyggð og glæsileg ásýndar. Það finnst greinilega þegar XPS 15 er handleikinn hversu sterkbyggð hún er og hversu frágangur á vélinni og íhlutum er vandaður að öllu leiti.

 

xps15_5

 

Ég fékk eins og fyrr segir mjög öfluga vél í þessar prófanir og þar að auki vél sem er með gullfallegan QHD+ snertiskjá sem er einn aðalstyrkur vélarinnar en þetta er án efa einn fallegast skjár sem ég hef prófað á fartölvu. Skjárinn er varinn horna á milli með Gorilla Glass og ætti því að rispast síður og þola meira.

Vélin er rúmlega 2 KG og verður að segjast að hún virkar stór og þung miðað við ultrabókina sem ég hef verið að nota síðustu vikurnar. Hún er samt léttari en vél sem ég hef mest notað undanfarin ár en einhvernvegin þá er pundið þungt í henni þessari. Vitanlega skiptir máli hvort notendur þurfi að ferðast mikið með vélina sína eða ekki en ég er ekki viss um að ég hefði áhuga á því að bera þessa vél í og úr vinnu á hverjum degi.

 

 

Vélin sem ég prófaði er með tveimur harðdiskum eða einum 32GB m-SATA SSD og síðan 1TB harðdisk. Ég gef mér að stýrikerfi og flýtiminni sé á SSD disknum sem ætti létta á og hraða vinnslu vélarinnar töluvert og síðan er hefðbundinn 1 TB diskur undir gagnageymslu. Ef ég væri að kaupa þessa vél má mundi ég hugsa alvarlega um að skipta út þessum venjulega disk fyrir SSD disk því það hraðar á vélinni, minnkar hita og eykur rafhlöðuendingu ásamt því að verja gögn betur við krefjandi aðstæður.

Vélin er með 16GB DDR3 vinnsluminni (2 x 8GB kubbum) og Intel i7 örgjörva sem er 2.2 GHZ (4702HQ) og er vélin því mjög öflug vélbúnaðlega. Eins og við er að búast þá keyrir vélin stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel. Ég prófaði smá COD og FM í vélinni og keyrði hún þessa leiki með stæl.

 

xps15_1

 

Vélin var um 10 sekúndur að innskráningar glugga og síðan í heimaskjá þaðan á örfáum sekúndum. Dell XPS 15 er með ágætis 720p myndavél fyrir ofan skjáinn sem hentar vel í myndsamtöl, myndavélin sinnir sínu hlutverki ágætlega og veitir skarpa mynd í myndsamtölum.

 

Tengimöguleikar

Dell XPS 15 er með 3-1 kortalesara og er með þrjú USB 3.0 port ásamt einu USB 2.0 port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem eða minnislykil svo eitthvað sé nefnt.

 

xps15_2

xps15_3

 

Vélin er einnig HDMI tengi (v1.4) ásamt mini-DisplayPorti og því einfalt að tengja auka skjá eða jafnvel sjónvarp við Dell XPS 15. Vélin er með Bluetooth 4.0 ásamt þráðlausu netkort (Intel AC7260) sem styður 802.11a (ac/b/g/n) og þannig allt að 300Mbps. Vélin er einnig með tengi fyrir heyrnartól og hljóðnema.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Dell XPS 15 er með 6 sellu Lithium rafhlöðu og samkvæmt Dell þá má reikna með rúmlega 6 klst endingu miðað við eðlilega notkun. Hugtakið eðlileg notkun er alltaf sveiganlegt en ég reikna með að þessi gullfallegi skjár, hefðbundin harðdiskur og þessi öflugi örgjörvi dragi nokkuð vel á rafhlöðuna. Ég var með vélina í töluverðan tíma og gat því prófað rafhlöðuendingu mjög vel og má í stuttu máli segja að hún uppfyllir mínar væntingar til fartölvu. Í helmingi tilfella sem ég lét reyna á það þá gat ég látið rafhlöðuna endast heilann vinnudag með einföldum sparnaðaraðgerðum eins og að minnka skjábirtu.

Hleðslutækið í Dell XPS 15 er í stærra lagi en með mjúkum og rúnuðum brúnum sem gera það nettara. Tengið sem fer í fartölvuna sjálfa virðist ekki vera of sterklegt en það er byggt á tilfinningu frekar en álagsprófunum. Það er í góðu lagi þegar vélin stendur á borði eða hörðu undirlagi en ég var hálfsmeikur við það þegar ég var að böðlast með vélina á vömbinni í sófanum.

Það sem Dell XPS 15 notar venjulegt Windows þá er lyklaborðið hefðbundið og á Íslensku, ef stýrikerfið er stillt á Íslensku þá sækir vélin sjálfkrafa tungumála pakka frá Microsoft og breytir öllum helstu valkostum og útskýringum yfir á Íslensku. Dell XPS 15 er eins og fyrr segir með snertiskjá og þegar smellt er með fingri á textareiti á skjánum þá kemur upp venjulegt Windows 8 lyklaborð á skjáninn (onscreen keyboard) með íslenskum stöfum eins og lög gera ráð fyrir.

 

xps15_4

 

Mat á því hvort að lyklaborð sé gott eða ekki er ávallt byggt á tilfinningu og persónulegri skoðun hvers og eins og er það vitanlega eins með þessa vél. Það er eitthvað við lyklaborðið á vélinni sem pirrar mig, bilslá (Space takki) er lærri en ég á að venjast og örvatakkar of litlir meðan aðrir takkar eru passlega stórir. Það sem pirrar mig líklega mest við lyklaborðið er þó líklega ekkert tengt lyklaborðinu sjálfu, eins furðulegt og það hljómar en sýndu mér smá þolinmæði. Vélin er með 15.6″ skjá og er því frekar stór og neðri partur hennar er engin undantekning. Plássið frá fremri brún og að lyklaborði er furðulega langt og sama gildir við um plássið frá lyklaborði og út að hliðum. Plássið að framan getur vitanlega verið kostur því það getur verið gott að leggja hendurnar á vélina meðan lengri pistlar eru skrifaðir, eins og þessi umfjöllun.

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á þessari Dell XPS 15 vél er 15.6″ QHD+ LED IPS fjölsnerti skjár sem styður 10 snertipunkta. Það sem lýsir þessum skjá best er einstök litadýpt og skerpa, allt sem ég prófaði leit vel út á honum. Ef ég þarf að gagnrýna eitthvað þá er það endurkast ef það er bjart á bakvið mig en þessi gagnrýni er varla sanngjörn þar sem þetta er sameiginlegt með mörgum vélum með snertiskjá. Þetta er mest sjáanlegt ef verið er að horfa á eitthvað með dökkum bakrunni eða bíómynd.

 

xps15_6

 

Skjárinn er með mjög nákvæma snertiskynjun og virkar mjög vel með Windows 8 hvort sem er í leikjum eða starfi. Skjáinn er rispuvarinn (Gorilla glass) og það er ljósnemi á skjá sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur þægilegri. Upplausnin er mögnuð eða 3200 x 1800 sem er töluvert miklu meiri en hin rómaða Retina upplausn sem margir vilja miða við, allur texti og myndir komu mjög vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði frábærlega, bjartur og góður skjár sem sýnir liti eðlilega og hægt er að horfa á skjáinn frá öllum hornum.

Margar fartölvur eru með innbyggða skjástýringu en Dell XPS 15 er með 2GB NVidia GeForce GT 750M skjákorti sem ræður vel við þyngri vinnslu og leyfði ég henni aðeins að svitna nokkrum leikjum og leysti hún það með sóma.

Hátalarar eru tveir og eru þeir staðsettir fremst undir vélinni og gefa ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Þeir eru einnig hannaðir þannig að þeir varpa hljóði að notenda sem er nokkuð ólíkt mörgum vélum sem ég hef prófað.

Ég mæli alltaf með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátalarar eru ekkert sérstaklega hljómmiklir en þeir leysa þó verkið ágætlega, Dell XPS 15 er einnig með tveimur stafrænum hljóðnemum sem vinna ágætlega á móti umhverfishljóðum (noice cancelation).

 

Margmiðlun

Þar sem Dell XPS 15 er venjuleg PC tölva þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Vélin var vel fær um að leysa öll margmiðlunarverkefni sem mér datt í hug með stæl.

 

xps15_0

 

Þarf svo sem ekki að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum en til viðbótar við hefðbundnar fartölvur þá hefur Dell XPS 15 þennan frábæra skjá og mjög öflugt skjákort, mikið af vinnsluminni og öflugan örgjörva eins og fyrr segir.

 

Dell XPS 15 í vinnuumhverfi

Eins og alltaf þá var það fyrsta sem ég gerði að skrá vélina inn á Domain og keyra scriptu sem tengir vélina við netdrifin mín og virkaði það allt fumlaust. Eins og við er að búast á fartölvu gat ég með einföldu móti tengst VPN (Cisco client og/eða innbyggt VPN) og þannig netdrifum og netþjónum yfir þráðlaust net eða 3-4G.

Með þetta eins og margt í þessari umfjöllun… það þarf í raun og veru ekkert að segja meira þar sem allt sem ég gat reiknað með að gera í vinnu leysti Dell XPS 15 með stæl. Dell eru vanir leikmenn á fyrirtækjamarkaði og vita vel hvað þarf að fylgja með í pakkanum. Notendur ætti því að geta treyst því að fá sterkbyggðar og vel prófaðar vélar þegar Dell vélar eru annarsvegar og þessi engin undantekning.

Lúxus vandamál við vél með svona mikilli upplausn er að þegar ég var kominn með auka skjá, þá var mismunandi upplausn á milli tölvu og auka skjáar. Tölvan styður 3200×1800 og auka skjárinn aðeins 1440 x 900 og því var letur, textabox, innsláttur og myndir stundum furðulega skalað þegar dregið var á milli skjái. Mig grunar að þetta sé Windows frekar en skjákortsreklar, mismunandi DPi stillingar milli skjáa löguðust mikið við Windows 8.1 update 1 og lagast vonandi meira fljótlega.

 

 

Hugbúnaður og samvirkni.

Öll hefðbundin forrit (vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv.) fylgja með vélinni en það sem vantar uppá er aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Þar sem vélin er með snertiskjá og Windows 8.1, þá er þessi forrita markaður mikilvægur. Hann gerir það að verkum að á Dell XPS 15 hefur notandi aðgang að markaðnum og þessum tugum milljóna forrita sem eru til fyrir Windows stýrikerfið.

 

xps15_7

 

Þar sem ég hugsaði Dell XPS 15 sem arftaki fartölvunar minnar þá setti ég upp sömu forrit og ég venjulega eins og Office 2013 Pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDeck, Skype, TeamViewer, Visual Studio, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust og eins vel eða betur en það gerir á gömlu fartölvunni.

Ég skrái mig alltaf inn í öll Windows 8 kerfi sem ég nota með Microsoft notendanum mínum, hvort sem það er fartölvan, borðtölvan, spjaldtölvan eða Windows Phone síminn minn. Það sem þetta gerir er að tækin mín samstilla sig við notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) en þar hef ég ókeypis 7GB til að afrita ljósmyndir af símanum mínum eða til að hýsa gögn..

Dell hugbúnaður kom mér skemmtilega á óvart en hann þvælist sama og ekkert fyrir mér en yfirleitt er of mikið af hugbúnaði frá samstarfsaðilum sem verið er að reyna að selja mér. Þetta er persónulegt mat eins og margt annað og yfirleitt einfalt að fjarlægja af tölvum en þetta kom mér skemmtilega á óvart.

 

 

Niðurstaða

Dell XPS 15 er gríðarlega öflug og vel búinn vélbúnaðarleg. Hún er sterkbyggð, falleg, stílhrein og því vél sem notendur og fyrirtæki í fartölvuleit ættu að skoða vel. Helsti kostur Dell XPS 15 er þessi öflugur vélbúnaður og gullfallegur skjár en þessi vél mundi sóma sér frábærlega á skrifborði starfsmanna á flestum vinnustöðum.

Ef þessi vél er hugsuð á skrifborði í vinnu, tengd við doccu og verður lítið á ferðinni þá skipta þessir ókostir sem ég hef talið upp hér að ofan ekki nokkru máli. Miðað við mína notkun og hversu mikið ég er á ferðinni þá er vélin of þung, of stór ásamt því að lyklaborðið og svæðið í kringum það pirrar mig eitthvað.

Mér finnst þó eins og Dell hafi ákveðið að búa til “landsliðstölvu” sem á að geta leyst hvaða vinnustöð af hólmi og finnst mér þeim takast það með Dell XPS 15. Hún er sannarlega valkostur sem ber að taka alvarlega þegar hönnun, vélbúnaður og skjár er skoðaður ásamt því að Dell vélarnar eru þekktir fyrir áræðanleika og mikið notaðir í vinnuumhverfi.

Dell XPS 15 mun ekki svíkja þá sem skoða þessa og reikna með venjulegum Dell gæðum.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira