Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 39 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Gestur okkar í heita sætinu þessa vikuna er sveitungi minn og orkubolti mikill, Sveinn Arnarsson. Við Sveinn eigum greinilega mikið sameiginlegt, erum báður úr #220, báðir með gráði úr HA, búum báðir á Akureyri og eigum báðir konur sem bera þrjú nöfn. Þó svo að við búum báðir á Akureyri þá hef ég ekki hitt Svein persónulega (ekki enn) en það stendur til bóta. Mér líður eins og ég hafi “þekkt” Svein í töluverðan tíma en ég hef lesið mikið eftir hann á Twitter og síðan á akv.is sem er aðalfréttamiðill okkar Akureyringa. Sveinn er skemmtilegur og drífandi einstaklingur sem gaman er að fylgjast með.
Hættum nú þessu rausi og gefum Sveini orðið..
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég heiti Sveinn Arnarsson, Hafnfirðingur, búsettur á Akureyri. Ég er að detta í þrítugt og er núna ritstjóri www.akv.is. Ég er að klára meistaranám í rannsóknartengdum félagsvísindum við Háskólann á Akureyri með áherslu á byggðafræði og áhrif samgöngubóta á samfélög. Einnig hef ég afar gaman að Kotru (backgammon) og Skák. Það má eiginlega segja að byggðafræði og kotra sé góð uppskrift af leiðinlegum manni! Ég er hinsvegar til þess að breyta þessu og gera bæði kotru og byggðafræði kúl.
Já svo á ég unnustu sem ber hið undurfagra nafn Elísabet Þórunn Jónsdóttir. Saman eigum við síðan tvo litla gutta, 6 ára og næstum tveggja ára. Ekki má svo gleyma hrossum á sjötta vetur og þriðja vetur!
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég er búinn að starfa við allan fjandann síðustu ár. Hafði afar gaman að því að stunda rannsóknir á samfélagslegum áhrifum Héðinsfjarðarganga frá 2009-2012 meðfram námi. Síðan hef ég unnið við margvíslegar rannsóknir í HA, verið stundakennari þar meðfram og haft það ágætt. Einnig tók ég að mér nokkuð erfitt verkefni síðastliðið vor, að vera kosningastjóri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi. Þetta var víst ekki árið þar sem Samfylkingin toppaði og starfið því svolítið erfitt. Ég er með breitt bak þannig að ég tek fylgistap þeirra bara á mig! Í upphafi þessa árs fór ég síðan að prufa mig áfram í blaðamennsku og stuttu seinna varð ég ritstjóri akv.is sem er fréttavefur á Akureyri. Það í bland við barnauppeldi er kjörið! Síðan hef ég eitt skemmtilegt áhugamál. Ég er nefnilega þjónn á Goya Tapas Bar í listagilinu. Það er afar gefandi að hitta fólk og þjóna því til borðs… án gríns.
Hvernig er venulegur dagur hjá þér?
Venjulegur dagur hefst svona um og upp úr sex um morguninn þegar litli snáðinn vekur mann. þá er oft farið inn í stofu og horft aðeins á Bangsimon eða disney myndir, allt haganlega keypt á netinu. Þegar búið er að skutla fjölskyldunni á sína staði, grunnskóla, leikskóla og dagmömmu (konan mín vinnur á leikskóla semsagt) þá er hafist handa við fréttaöflun og skrif. Nú svo þarf að fara og kíkja á þessi hross. Það er töluverð binding að eiga hross víst. Maður lærir ekkert af reynslunni. Meðfram því er auðvitað Tweetdeck opið þar sem maður rífst og skammast yfir hinu og þessu og hlær að 2.5aurunum hans Trausta ! Svo er bara þetta venjulega, ná í börn skutla á æfingu, elda kvöldmat, setja í þvottavélar… eða allavega reyna það, baða, þrífa, koma í háttinn og rotast svo yfir einhverjum bandarískum sjónvarpsþætti í sófanum, sem er einnig haganlega keyptur á internetinu.
Lífsmottó?
Ég á í raun engin lífsmottó, átti eitt hérna í gamla daga en þegar allir fóru að senda svona myndir af sólarlagi á indlandi og einhverri lífsspeki með á facebook þá fékk ég ógeð. Hata lífsspekistatusa!
Ljótu hálfvitarnir, Hvanndalsbræður eða Rúnar F.?
Það yrði allavega góður kokteill saman á sviði í Hofi. Annars er ég þokkalegur hálfviti, komandi úr 220!
Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?
Heyrðu, ég á svona líka æðislega litla fína macbook air tölvu og nota því Osx version 10.8.5 (ekki það að ég viti hvað það þýðir, ef einhver heldur að ég eigi að uppfæra þá láta mig bara vita)
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég lenti í þeim hremmingum síðastliðið sumar að síminn minn gjörsamlega hvarf. Saka þar litla guttann minn að hafa hent honum í ruslið. Því hann hringdi stanslaust í nokkra daga. Hann hefur aldrei fundist. Þannig að ég þurfti að fara að skoða síma og svona. Það var einn góður twitter náungi sem var að sýna fram á hversu æðislegir þessir Nokia Lumia símar voru, því var ekki annað hægt en að handleika svona stykki. Ég ákvað síðan að fjárfesta í 820 týpunni. Í sannleika sagt sé ég ekki eftir því og ætla mér aldrei aftur í android. #MinSkodun
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Hann er ofsalega fljótur að gera það sem hann á að gera. Styður allt sem ég þarf að gera. Ég er bara obboslega skotinn í honum! Mér er líka tjáð af reyndum aðilum í bransanum að hann er öruggari en android símarnir og ég get verið viss um að vera alltaf með nýjustu uppfærslu af stýrikerfinu. Öryggi er til alls fyrst.
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Já… eða nei… mér finnst svolítið leiðinlegt með snapchat. Við vinirnir erum mest að skiptast á myndum af börnunum okkar og eitthvað krúttlegt… svona eins og maður sé orðinn hundgamall. En forritið heitir ekkert snapchat heldur 6snap. Mér finnst það of klúrið nafn fyrir mig, miðaldra manninn 😉
Í hvað notar þú símann mest?
Email (email1, email2 og email3) Rosa gott að geta bundið þetta allt saman Twitter Facebook Phonealytics(google analytics fyrir windows síma) Flashlight (ég er búinn að týna “lokunum” á öllum fjarstýringunum mínum og þarf því oft að leita að rafhlöðunum undir sófa)
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Nokia 3210 – Ætli maður sé kominn hringinn. Kominn aftur í Nokia og ætli ekkert þaðan aftur? Ég man að þetta var rosa sími maður. Það var hægt að fá sent sms með hringitón sem maður þurti að kópera og fara með inn í eitthvað Tones dót… man að ég keypti tékknesku klaufabárðana á erlendri síðu, það var framúrstefnulegt á sínum tíma. Og síminn hafði rosa gott símanúmeraminni! Maður gat geymt alveg helling af símanúmerum!
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Lumia 1520. Auðveldasta spurningin hingað til!
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með
Ég les svolítið mikið lapparann, sérstaklega afpökkunarvídjóin, þau leyna á sér. Hins vegar er ég lítið nörd hvað þetta varðar, vill bara að þetta virki. Það er ekkert leiðinlegra en bilað tölvudót. En þá er ég nú fljótur að rífa upp símann og heyra í @ThorAdam vini mínum sem kann á allt svona !
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Já, ég vil segja það að ég á rosalega erfitt með tímasetningar. Ég þoli ekki óstundvísi í fólki. En samt sem áður get ég stundum ekki losnað við þetta úr mér sjálfum!.