Sony Xperia Z1

eftir Jón Ólafsson

Það er tæplega ár síðan ég eyddi einhverjum tíma á Android síma og því fagnaði ég tækifærinu að fá að prófa Sony Xperia Z1 frá Nýherja/Sony Center. Xperia Z1 er glænýtt flaggskip frá Sony sem leysir að hólmi Xperia Z sem kom út fyrr á þessu ári.

Sony eru búnir að vera í ansi mikilli endurskipulagningu síðustu mánuði og ár en töluverð vinna hefur verið lögð í að samræma og stilla af framleiðslulínur og vöruframboð þeirra. Sony er gríðarlega sterkt og þekkt vörumerki en þeir hafa svo sem aldrei slegið í gegn með farsímum sínum og vilja vitanlega breyta því.

Sony Xperia Z var alls ekki gallalaus sími en með Z1 þá ætlar Sony að laga það sem sett var útá og byggja á þeim grunni sem Z lagði. Það verður gaman að sjá hvernig sú tilraun gengur. Ég ákvað að fara alla leið og færa gögnin mín yfir í Android kerfið (eco-system) til þess að fá marktæka prófun.

Þar sem ég hef mikið fjallað um myndavélar í Nokia Lumia 920, 925 og 1020 þá þótti mér áhugavert að sjá hvort myndavélin í Sony Xperia Z1 standist samanburð við þá. Sony Xperia Z1 er með 20.7 MP myndavél og gerir símtækið því sannarlega tilraun til vera tekinn alvarlega sem myndavélasími.

 

Hér má sjá Sony Xperia Z1 afpökkun

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Sony Xperia Z1 er stór glæsilegt símtæki og vill ég meina að þetta sé einn fallegasti sími sem ég hef haldið á. Ég fékk strax á tilfinningunni að í höndunum hafi ég sterkan og vel smíðaðan síma. Xperia Z1 er svipaður í útliti og Xperia Z en núna er símtækið samsett utanum álramma (eitt heilt stykki) sem gerir það að verkum að símtækið er mun sterkara og „massífara“

Álramminn þekur hliðar símans og gefa notenda „premium“ tilfinningu þegar síminn er tekinn upp ásamt því, eins og fyrr segir, að styrkja símann til muna. Xperia Z1 sem ég prófaði er svartur en hann kemur einnig í hvítu og fjólubláu.

 

Z1_1

 

 

Sony Xperia Z1 auglýsing

 

Framhlið er öll úr einu heilu glerstykki og ver stóran og fallegan 5.5″ skjá en það eina sem sést á framhlið er örþunn rauf að ofan þar sem hátalarinn er. Allur frágangur á framhlið er til fyrirmyndar og greinilega vandað vel til verka.

Eina sem ég get sett útá framhlið símans er að það nokkuð stórt svæði efst og neðst sem nýtist ekkert, þykkur svartur rammi sem þekur 20-30% af framhliðinni. Efst er Sony logo og myndavél en neðst er dautt svæði sem er ekkert nýtt.

Xperia Z1 er með þrjá takka á hægri hlið, sértakki fyrir myndavél, hækka/lækkatakka ásamt power takka sem sker sig örlítið úr. Síminn er svartur og sama á við um alla takka nema power takkann sem er út ljós gráu áli og er pínkulítill. Staðsetning takka er engu að síður mjög góð og einfalt að ná til þeirra með annari hendi.

Síminn er frekar kassalaga en hann liggur vel og örugglega í hendi en bakhlið á símanum er þakinn einu heilu glerstykki og því slétt, eina sem sést á bakhlið er Sony logo og 20MP myndavél.

 

Stærðir

  • Hæð  144.4 mm
  • Þykkt  8.5 mm
  • Breidd  73.9 mm
  • Þyngd 169 gr

 

Sony Xperia Z1 tekur af alvöru þátt í vélbúnaðarkapphlaupi annara framleiðanda en hann er mjög vel búinn vélbúnaðarlega. Hann er með fjórkjarna Snapdragon 800 örgjörva sem keyrir á 2.2 GHz ásamt því að vera með 2GB í vinnsluminni sem er á pari við öflugustu símtæki á markaðnum í dag. Þessi öflugi örgjörvi og vinnsluminni skilar sér í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við mikið hökt í símann, hvort sem er í stýrikerfinu sjálfu, forritum eða í leikjum enda óeðlilegt á svo dýrum síma.

 

Z1_3

 

Eins og þegar við prófuðum Nokia Lumia 1020 sem er símtæki með 41MP myndavél þá set ég spurningarmerki við aðeins 16GB geymslurými (Lumia 1020 er með 32GB). Sérstaklega vegna þess að aðeins 12GB eru laus fyrir notendur, restin fer undir ROM og innbyggð forrit. Þetta segi ég því myndir sem notendur taka á 20MP myndavél vistast á þessi 12GB ásamt því að það samnýtist undir stýrikerfi og annað margmiðlunarefni. Munur á Lumia 1020 er að Xperia Z1 er með rauf fyrir microSD kort og því einfalt og ódýrt að bæta við auka 64GB af geymslurými undir ljósmyndir og margmiðlunarefni.

Einnig er hægt að sækja og setja upp lausnir eins og SkyDrive, GDrive eða Dropbox til að vista ljósmyndir og gögn

 

 

Tengimöguleikar

Ég hef aldrei fundið þörf eða löngun til þess að taka myndir með símanum mínum í vatni en það eru líklega margir sem heillast af því. Sony Xperia Z1 er vatnsheldur og eru því flest tengi varinn með loki sem þarf að opna til þess að komast í þau, þetta er stór ókostur að mínu mati en þetta er málamiðlun sem verður að vera til að gera tækið vatnshelt.

Kostur fyrir þá sem vilja vatnsvarinn síma en ókostur fyrir alla aðra.

Xperia Z1 er með IP55 og IP58 vottun sem þýðir að hann er rykvarinn og ef allar hlífar eru lokaðar þá ætti hann að þola vatnsskvettur ásamt því að vera vatnsheldur niður að 1.5 metra af ferskvatni í allt að 30 mínútur.

 

Á hægri hlið Sony Xperia Z1 fer SIM kortið inn í vatnshelt hólf

Z1_5

 

Á vinstri hlið er rauf fyrir microSD kort og USB tengi bakvið vatnshelt lok.

Z1_4

 

Ég tengdi símtækið við tölvuna (Windows 8.1) til að sækja ljósmyndir sem ég hafði tekið og var það nokkuð einfalt. Síminn kom fram sem „C69“ í My Computer og myndirnar þar inni í möppu sem heitir „innri geymsla\DCIM\100ANDRO“.

Þetta er kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf. Þetta tengi er sameiginlegt með “öllum” snjallsímum…. öðrum en iPhone.

Efst á síma er einnig 3.5 mm heyrnartólstengi sem er alltaf opið, þarf ekki lok yfir til að gera tækið vatnshelt. Xperia Z1 er með Bluetooth 4.0 (A2DP) og með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 a/b/g/n/ac og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli eins.

Sony Xperia Z1 er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars uppá borganir, samnýtingu gagna, og notkun NFC merkja. Ég nota NFC eingöngu með NFC merkjum og þá helst til að ræsa leiðsögn þegar ég set tækið í vöggu í bílnum.

LTE (4G) væðingin er komin af stað hjá Íslenskum símfyrirtækjum og verður notast við 800/1800 böndin á Íslandi. Sony Xperia Z1 styður 4G að fullu en týpan sem ég prófaði heitir C6903 og styður hún eftirfarandi flóru af 4G böndum: 800 / 850 / 900 / 1700 / 1800 / 1900 / 2100 / 2600

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan var uppfærð töluvert eða um 29% miðað við Xperia Z en núna er hún 3000 mAH og lofar Sony notendum nú mun betri endingu eins og sjá má.

  • Tal yfir 2G: 13:50 tímar
  • Tal yfir 3G: 15 tímar
  • Biðtími: 35 dagar

Rafhlöðuending er frábær og algerlega á pari við það sem erlendir miðlar segja. Flestir gefa Xperia Z1 fullt hús stiga fyrir rafhlöðuendingu og núna eftir tveggja viku notkun erum við sammála því. Við erum alltaf að klára daginn með töluverða hleðslu eftir í lok dags, jafnvel þó svo að við notum símann og myndavél töluvert.

Venjulegur dagur hjá mér er að taka nokkuð af ljósmyndum ásamt því að vera ávallt tengdur við WiFi eða 3G og að samstilla 3 EAS tölvupóstreikninga. Má hafa í huga að léleg ending á fyrstu 1-2 dögum er oft eðlileg meðan símtækið er að index´a gögn notenda.

Sony Xperia Z1 kemur með segulvöggu sem síminn getur staðið í en samkvæmt Sony á vaggann að hlaða símtækið líka. Ég prófaði vögguna við þrjár tölvur og fékk hana ekki til að hlaða en líkar þó agalega vel við þessa hugmynd og er hún stórgóð þegar verið er að horfa á mediaefni í símanum.

 

Z1_6

 

Hér má sjá nokkur ráð sem ég tók saman fyrir Windows síma en þau eiga við önnur símtæki ef þú vilt lengja rafhlöðuendinguna .

Stýrikerfið og lyklaborð er á íslensku sem er kærkominn viðbót og ætti að einfalda og létta mögum lífið, íslensk þýðing á kerfinu er nokkuð góð og tiltölulega einfalt að rata um kerfið. Lyklaborðið í Xperia Z1 er mjög gott og þæginlegt er að nota það til innsláttar. Síminn er með innbyggðu „Swipe“ lyklaborði sem þýðir að notendur geta bara strokið yfir lyklaborðið til þess að skrifa og þeir sem nota þetta segja almennt að hraðinn við inslátt lagist mjög mikið.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Sony Xperia Z1 er stór og fallegur TFT skjár sem leysir verkefnið ágætlega. Skjárinn er 5″ stór og varinn með „brotvörn“ og er rispufrír, hann styður upplausnin uppá 1980×1080 punkta (Full HD).

Það er eitthvað við skjáinn sem pirrar mig, þó að hann sé byggður á hinum frábæru Bravia HD sjónvörpum frá Sony. Speccalega er hann mjög góður en ég get ekki gert að því að mér þykir hann samt frekar líflaus og það er eins og það vanti „eitthvað“. Litir og texti eru í lagi ef horft er beint á símtækið en um leið og síminn hallar aðeins þá renna litir saman og texti verður ólesanlegur eins og ég fjalla um hér.

Punktaþéttleikinn er 441ppi sem er með því hæsta sem þekkist í snjallsímum og öll snertivirkni er mjög góð í Xperia Z1 en erfitt er að nota símann með blauta fingur eða í vettlingum sem mér þykir sérstakt þar sem síminn er vatnsheldur og því líklega ætlaður til notkunar við erfiðar aðstæður.

 

Myndir sem ég tók á Xperia Z1 (default stillingar) voru 1 – 2.5MB að stærð og í 3840×2160 upplausn. Sony er alls ekki nýliði þegar kemur að framleiðslu myndavéla og hafa þeir lagt mikið á sig til þess að geta keppt við myndavéla síma eins og Lumia 1020 og Galaxy Zoom. Þeir vilja meina að þeim hafi tekist að gera Point-To-Shoot myndavélar óþarfar þar sem gæðinn í Xperia Z1 séu sambærileg og er ég sammála því.

Hér er aðeins um myndavélina og tæknina á bakvið hana

 

Myndavélin í Sony Xperia Z1 sem er 20.7MP með 1/2.3″ Exmor RS sensor. Síminn er með ágætri linsu sem tryggir að áhugaljósmyndarar ættu ekki að verða sviknir af myndum sem símtækið tekur. Notendur munu að mestu fá yfirsamplaðar myndir sem eru 8MP enda er það sjálfgefið við sjálfvirka stillingu en hægt er að fara í handvirkar stillingar til að ná myndum í meiri gæðum sé þess óskað.

Ef vélin er handstillt þá er hægt að velja um eftirfarandi upplausn

  • 20.7 MP               5248 x 3936        (4:3)
  • 8MP                      3264 x 2448        (4:3)
  • 8MP                      3840 x 2160        (16:9)
  • 3MP                      2048 x 1536        (4:3)
  • 2MP                      1920 x 1080        (16:9)

Ég er sannfærður um að fæstir þurfa ljósmyndir úr snjallsímum sem eru meira en 8MP en fyrir dellukalla og áhugaljósmyndara þá skipta þessir hlutir samt miklu máli.

 

Z1_7

 

Sony Lens G linsan er “fljótandi” (Optical image stabilization eða OIS hér eftir) sem þýðir með mikilli einföldun að myndir verða mun stöðugri heldur en þekkst hefur hingað til í snjallsímum. OIS gerir Xperia Z1 kleift að hafa ljósopið (f/2.0) lengur opið þegar verið er að taka myndir, sem skilar sér í mun bjartari og skarpari myndum. Þetta sést best þegar birtuskilyrði eru slæm en ef notandi vill nota flash þá er Xperia Z1 með LED flash sem virkaði ágætlega í prófunum (allt að 2m) en þó ekki nærri jafnvel og Xenon flashið í Lumia 1020.

 

Eins og komið hefur fram tekur Sony Xperia Z1 frábærar ljósmyndir en það er í videóupptöku sem OIS fær að njóta sín til fulls. Þar sem linsan er fljótandi og skilar stöðugri myndum þá skilar hún af sér mjög skýrri og góðri videoupptöku. Hægt er að taka upp í 1080p upplausn (@30 rammar á sekúndu) og með því að fara inn í handvirkar stillingar er hægt að stilla vélina enn meira og einnig kveikja myndabandlýsingu ef taka á myndbönd af stuttu færi við lélega lýsingu.

 

Z1_9

 

Venjulega þarftu að einbeita þér að því að halda myndavélasímum alveg stöðugum til að ná góðum videóum en þetta þarf ekki þegar Sony Xperia Z1 er notaður. Sony Lens G linsan skilar björtum myndböndum og víðu sjónarhorni sem að skilar aftur af sér skörpum ljósmyndum og myndböndum. Xperia Z1 er einnig með 2MP myndavél á framhlið sem hentar þvi vel t.d. í Snapchat eða myndsímtöl eins og Skype eða Hangout.

Það er búið að spyrja mig oft hvort Xperia Z1 sem betri myndavélasími en Lumia 920, 925 eða hinn frábæri Lumia 1020. Ég vill svara þessu á þann veg að þetta er sannarlega besti Android myndavéla síminn sem ég hef prófað. Ég er búinn að bera Xperia Z1 við Lumia 925 og Lumia 1020 og tilfinningin er sú að hann er yfirleitt sambærilegur við Lumia 925 en nær að mínu mati ekki að slá út Lumia 1020. Hann er þó mun sneggri að ræsa myndavéla app og fara að mynda samanborið við Lumia 925 og 1020 en hefur ekki jafn mikið af eða jafn þæginlega stillimöguleika og þeir hafa.

Myndavélaappið býður uppá sjálfvirka upphleðslu á ljósmyndum yfir WiFi en til þess þarf notandi að vera með Sony Entertainment Network reikning (hvað er það). Innbyggða myndavélaappið virðist ekki bjóða uppá upphleðslu á myndum eða myndböndum á hefðbundnar skýlausnir eins og SkyDrive, Dropbox eða Google Drive. Það er samt hægt að nota Google Photos í staðinn fyrir Album app Sony og opna Photos > Settings > Auto Backup og smella þar á ON efst og þá er myndum hlaðið inn á Google+ síðu notenda.

 

Hátalarinn í Sony Xperia Z1 er staddur neðst á síma og skilaði hann mjög góðum hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun. Vitanlega mæli ég alltaf með heyrnartólum frekar en að nota þessa tóngrönnu hátalara við tónlistarafspilun en hátalarinn í Xperia Z1 er þó með þeim betri sem ég hef prófað.

 

 

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Xperia Z1 er mjög góð og ræður hann við að spila og gera “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var leikur sem ég sótti af Google Play, bíómynd af innra-minni, Youtube video eða aðra vefstrauma. Þetta er fyrsti Android síminn sem ég nota eða prófa þar sem ég hef lítið sem ekkert séð hik í vinnslu (lag) símanns enda er hann eins og fyrr segir mjög vel búinn vélbúnaðarlega.

Xperia Z1  er eins og aðrir Android símar með góðum tónlistarspilara en Sony er líka með sinn spilara sem kallast einfaldlega Walkman og á þannig beina skýskotun í Sony Walkman MP3 spilarana sem flestir þekkja. Með innbyggðum tónlistarspilara ásamt þjónustu eins og Spotify áskrift eða Google Music þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Xperia Z1 að ráða við allt sem þú gætir vilja notað hann í annað en að taka ljósmyndir.

 

Z1_2

 

Það er kostur að hafa rauf fyrir auka minniskort þar sem einfalt er að samnýta það fyrir ljósmyndir og annað margmiðlunarefni á stóru SD korti.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Sony Xperia Z1 sem ég var með kemur með Android Jellybean, útgáfu 4.2.2 sem kom út í nóvember 2012 og er því ekki að keyra nýjustu útgáfuna af Android. Það eru um 12.5% af Android símum að nota þessa útgáfu og aðeins og 2.3% sem eru búnir að fá uppfærslu í 4.3 útgáfuna samkvæmt tölum frá Google, Simanum og Vodafone.

Það hafa verið miklar vangaveltur um hvort eða hvenær Xperia Z1 fái Android 4.3 eða KitKat útgáfu 4.4 sem kom út í oktober 2013 en samkvæmt heimasíðu Sony þá er áætlað að Xperia Z1 fái Android 4.3 í lok árs og síðan KitKat fljótlega á næsta ári.

Xperia Z1 kemur ágætlega útbúinn hugbúnaðarlega sem gerði það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Suite sem er afsprengi af Office hugbúnaðar svítu Microsoft. Office Suite gerir notenda kleift að opna Word, Excel og PowerPoint skjöl en öll vinna með þau er takmörkuð.

Sony er einnig með nokkur sér forrit á símanum eins og:  Walkman (tónlist)   –   Albúm (Skipuleggja myndir)   –   Kvikmyndir (sækja sýnishorn af Sony entertainment center)   –   Sony Select (forrita og leikjamarkaður Sony)   –   Socialife (Fréttastraumur)   –   FM-útvarp   –   TrackID  (Þekkir lag sem er að spilast í útvarpi)   –   Smart Connect (Til að tengjast öðrum Sony tækjum)   –   Uppfærslumiðstöð (leitar uppfærslum fyrir símann)   –   Xperia Lounge  (Mest SPAM þar sem hægt er að vinna Sony vörur)   –   Xperia Privilege  (Aðgangur að Sony tilboðum en ekki aðgengilegt á Íslandi)   –   Flashlight  (vasaljós)   –   Pixlr Express  (Hægt að setja Instagram effect á ljósmyndir)

 

Þar sem þetta er Android sími þá fylgir Google svítan einnig ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv. Það eru kostir og gallar við hugbúnaðinn sem fylgir með, kostir fyrir vana (power-users) að hafa úr miklu að velja og galli er að margir eru þá með mikið af forritum sem þeir nota aldrei og taka þannig pláss og þvælast fyrir. Það er einnig truflandi að vera með á nýju tæki tvö forrit sem gera sama hlutinn eins og t.d. tvö myndaalbúm og tvo tónlistarspilara. Ég hef áður fjallað um það hér að of mikið val er ekki endilega besta lausnin en hún hentar vitanlega mörgum.

Það er ýmis furðuleg virkni sem Android notendur “lenda í” þegar ýmis forrit eru notuð í fyrsta skipti. Einfalt dæmi þá kom upp gluggi sem þegar ég var búinn að taka fyrstu ljósmyndina sem spurði mig hvernig ég “vildi klára þessa aðgerð”. Þá gat ég valið hvort ég vildi skoða myndir í Sony Albúm eða Google Photo en bæði þessi forrit eru þarna þó svo að ég noti bara annað þeirra. Það má taka fram að þó svo að ég sé nokkuð vanur snjallsímum og þ.m.t. Android þá tók mig töluverðan tíma að finna þessa valkosti í stillingum þegar ég skipti um skoðun og vildi breyta sjálfvali.

 

Sony hafa samt farið góða leið með stýrikerfið að mínu mati en það er ansi nálgt Android eins og það kemur af spenanum (stock). Kerfið er viðbragðsgott og ekki of mikið af krúsídúllum að þvælast fyrir þegar leitað er að einhverju. Sem vinnutæki þá er samstilling á vinnuskjölum milli símtækis og vinnutölvu ekki mikil og lítið hægt að vinna með þau á síma ásamt því að ég hafði ekki aðgang að vinnuskjölum á SharePoint en það eru forrit í Google Play sem bjóða uppá einhverja frekari samþættingu. Einnig er hægt að setja upp Google Drive, SkyDrive eða Dropbox á borðtölvu og síma og samstilla þannig vinnuskjöl en þetta er ekki innbyggt í símtækið.

Þessi takmarkaða skjalavinnsla dugar líklega langflestum en sem vinnutæki sem ég nota mjög mikið þá er þetta frekar lamlandi fyrir mig en þetta á ekkert frekar við Xperia Z1 frekar en annað Android tæki.

 

Z1_8

 

Ég er ekki mikill app maður svo sem en ég sótti mér Facebook, Twitter, Vine, Instagram, SkyDrive, Snapchat, Dominos app og Snjallsjónvarp Símans til viðbótar við innbyggt forrit.

Leiðsöguhugbúnaður sem fylgir nú ókeypis með Android símum en hann er frá Google og byggir á kortum úr Google Maps. Mín reynsla af Google Navigation er sú að þetta virkar mjög vel í borgum erlendis en er takmarkað í minni löndum eins og Íslandi og þá sérstaklega utan Reykjavíkur. Ég er t.d. óendanlega fúll yfir því að gatan mín sé ekki enn kominn í Google Maps þó svo að hún sé aðeins 5 KM fyrir utan Akureyri og er orðin rúmlega 10 ára.

Google Navigation er með ekki með “offline” virkni þó ég hefi einhverntíma fundið viðbót sem leyfði mér að hala niður nokkra ferkílómetra svæði til að eiga á minniskorti. Þetta gerir það verkum að kort og leiðsöguupplýsingar eru sóttar yfir 3G/4G og kosta þannig penning innanlands og er nær ónóthæft erlendis vegna kostnaðar.

 

Hér má sjá Youtube video sem sýnir offline samanburð á Nokia Here Drive og Google Navigation.

 

Þegar ég ferðast erlendis þá er ég oft með erlent SIM kort og gat því notað Google Navigation og er það mjög gott með gagnatengingu.

 

Niðurstaða

Sony Xperia Z1 er mjög góð uppfærsla á Xperia Z símanum, þetta er alvöru alvöru hetjutæki og er almennt fágaðri, öflugri og betri en forveri sinn. Þó að ég setji út á nokkur atriði í umfjöllun þessari þá eru þau fæst símtækinu sjálfu að kenna enda tækið með betri Android tækjum á markaðnum.

Ef þú ert að leita þér að góðum Android síma þá er Sony Xperia Z1 sannarlega tæki sem vert er að skoða betur, sérstaklega ef þú ert að leita að vatnsheldum síma með góðri myndavél til að taka tækifærismyndir (Snapchat í sturtu) eða vilt mögulega losna við að ferðast með heimilismyndavélina. Myndavélin í Xperia Z1 er að mínu mati mun betri en flestar heimilismyndavélar sem fólk notar í dag.

 

 

Xperia Z1 er gríðarlega öflugur og góður sími, búinn vélbúnaði á pari við það besta sem mögulegt er þarna úti í dag. Gríðarlega öflugur örgjörvi, nóg af vinnsluminni og mjög fallegur sími á að horfa.

Fyrir utan hluti sem eru sameiginlegir með öllum Android símum þá er tvennt neikvætt við vélbúnaðinn í Sony Xperia Z1 sem ég vill nefna hér í niðurstöðunni.

  1. Vegna þess að símtækið er vatnshelt, þá þurfa eðlilega að vera lok yfir USB og öðrum tengjum. En þar sem ég þarf ekki vatnsheldan síma þá er þetta stór galli fyrir mig þar sem ég nota tengin nær daglega og stundum oft á dag.
  2. Miðað við „specca“ þá var ég fyrir vonbrigðum með skjáinn, fannst hann sýna frekar líflausa liti ásamt því að hann virkar illa nema horft sé beint á skjáinn.

 

Að þessu sögðu eru lokaorð mín að ef þig vantar vantsheldan snjallsíma þá er Sony Xperia Z1 í algerum sérflokki og með þeim bestu sem þú getur mögulega fengið með Android stýrikerfinu. Frábær myndavél sem virkar ágætlega í erfiðum aðstæðum og skilar mjög góðum myndbandsupptöku.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira