Þó svo föstudagsviðtölin hafi byrjað sem uppfyllingarefni þá eru viðtölin nú orðinn 21 og sannarlega fastur liður sem margir greinilega bíða eftir því þessi liður hefur verið ört vaxandi hluti hér á Lappari.com. Eins og venjulega þá er tilgangurinn fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Það er aðeins ein leið til að halda uppá þessi tímamót og það geri ég með því að kynna til leiks öðlingspiltinn hann Gumma Ben sem ætti að vera flestum landsmönnum kunnugur. Án þess að vilja styggja fyrri viðmælendur þá er Gummi Ben líklega frægasti einstaklingurinn sem hefur komið í viðtal hjá Lapparanum..
Sturluð staðreynd: Báðir fæddir 1974, báðir Unitedmenn, báðir KRingar og við erum “mögulega” jafngóðir í fótbolta.
Ég eins margir aðrir fylgdist grannt með Gumma meðan hann var að spila fótbolta. Bestu minningar mínar eru sannarlega þegar hann spilaði með KR en þar spilaði hann lengst af sínum ferli. Ég fór líklega á alla heimaleiki KRinga á þessum tíma, Gummi man það nú líklega ekki en hann reddaði mér KR-bolta áritaðan af öllum hetjunum sem unnu Íslandsmeistaratitilinn árið 1999 og á ég hann enn vel varðveittan.
Það eru margir búnir að renna yfir ferilinn með Gumma Ben og er best að benda bara viðtal sem meistari Gunnar á Völlum tók við hann 26. september 2013
Gummi hefur átt nokkrar æði hressar innkomur sem íþróttafréttamaður hjá 365 en hann einhvernveginn smellpassaði í það starf að mínu mati. Ég fann helling af skemmtilegum tilvitnum í Gumma og hér eru nokkrar sem ég fann á Facebook sem ég birti hér (vonandi með þeirra leyfi)
- Hann er kominn í 950 leiki! Hversu mikið er það? Svo við setjum það í samhengi á hann 50 leiki eftir í 1000 leiki.
- Sjáiið hvernig krullurnar síga aðeins niður í rigningunni, gaman að sjá.
- Sokratis ehhhhh… já Sokratis, látum það bara duga, alltof langt eftirnafn.
- Að ráðast á kolo er eins og að ráðast á ísskáp
- Þarf ekkert að sjá markið, það var sett þarna fyrir mörgum, mörgum, mörgum árum og það er enn á sama stað.
- Þetta er hornspyrna í venjulegum knattspyrnu leikjum, en ekki þessum.
Áður en Gummi kemst að þá er hér smá upphitun fyrir Landsleikinn á eftir en í upphafi endurgerðar hjá StopWaitGo kemur Gummi Ben hraustlega fyrir
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Gummi Ben, 39 ára Akureyringur sem flutti í Vesturbæinn ’95 og sit þar enn.
Við hvað starfar þú?
Íþróttalýsandi er líklega rétta nafnið yfir starf mitt en er titlaður íþróttafréttamaður.
Lífsmottó
Ekkert eitt mottó en reyni bara að hafa gaman.
Hvernig ertu í hnénu
Hef verið betri, er samt misjafn eftir dögum og kaldir dagar eru verri en góðir sumardagar. Annars er ég ekkert að væla.
Hvort ertu meiri Þórsari eða KRingur
Er ákaflega mikill KRingur eftir tíu-ára feril þar í boltanum en hef einnig mjög sterkar taugar heim í Þorpið.
Verður þú að lýsa leiknum á eftir og hvernig fer hann (hver skorar)
Lýsi leiknum á Bylgjunni og á von á 1-1 jafntefli, Gylfi með gott skot af ca 18 metrum.
Hvernig er dagurinn hjá landsliðsstrákunum okkur?
Hann er klárlega mis-jafn, menn eru mis-stressaðir og mis-ánægðir með byrjunarliðið. Annars vona ég bara innilega að við gerum færri mis-tök en Króatar. Dagurinn sjálfur fer samt aðalega í það að hvíla sig og koma sér í rétt hugarástand fyrir stríðið sem framundan er í kvöld.
Notar þú einhver öpp til að undirbúa þig fyrir lýsingar, leiki eða við þjálfun?
Nota Twitter óspart fyrir allar lýsingar, byrjunarliðin detta t.a.m. alltaf fyrst inn þar. Í þjálfun hef ég aðeins fiktað við Video on Tactics moves.
Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?
Windows, Firefox, Chrome, ég nota bara það sem birtist neðst á skjánum.
Hvernig síma ertu með í dag?
Iphone 4
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Ákaflega þægilegt og einfalt viðmót sem hentar vel mönnum eins og mér sem verð seint sakaður um að vera tækninörd.
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Ég hef mikið jafnaðargeð en þó kemur fyrir að rafhlaðan pirri mig örlítið. Og í þessum skrifuðu dó rafhlaðan og varð aðeins pirraður! En þetta save-aðist samt sem gladdi mig mjög mikið!
Í hvað notar þú símann mest?
- Tölvupóst
- Símtöl
- Myndatöku
- SMS
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Fékk síma hjá Tal á sínum tíma, var tilraunadýr hjá þeim þegar fyrirtækið var að prófa sig áfram í þeim bransa.
Rámar í að hafa fengið Nokia síma en man ekki hvað tækið hét.
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Fengi mér líklega Iphone 5s þar sem að það væri einfaldast fyrir mig að læra á hann.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Fylgist lítið með tæknisíðum en verð að viðurkenna að lappari.com var skoðaður í þaula eftir að hafa fengið spurningalistann frá þér.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Hvað getur maður sagt?
2 athugasemdir
Ég hef ekki mikið vit á tölvum en eitt veit ég: Firefox og Chrome eru ekki stýrikerfi 🙂
hehe
Þetta er bara copy/paste frá Gumma, ég passa mig á að ritskoða ekkert sem kemur… Ég er samt alveg viss um að Gummi viti alveg að stýrikerfið er Windows og síðan notar hann bara þann vafra sem er við höndina þó að þetta hafi komið svona