Mér var að barst fréttatilkynning sem mig langar að deila með ykkur en svo virðist vera sem við Íslendingar vorum að “eignast” annan MVP vottaðan Microsoft sérfræðing.
Á myndinni hér að ofan má sjá Heimir Fannar, framkvæmdastjóra Microsoft á Íslandi, afhenda Gunnari Þór Gestssyni hugbúnaðarsérfræðingi hjá Advania (til hægri á myndinni) viðurkenningarskjal og verðlaunagrip fyrir MVP vottunina í verslun Advania.
Ég átti alltaf von á að verða fyrsti MVP íslendinga (spaug) en ég hef nú þegar sagt ykkur frá Gísla Guðmundsyni og núna Gunnari Þór sem ég óska vitanlega til lukku með þennan merka árangur.
Eftirtektarvert að þeir eru báðir starfsmenn Advania en hér á eftir kemur fréttatilkynning sem mér barst:
Nýr MVP sérfræðingur Advania rekur alþjóðlegan Microsoft Dynamics NAV fræðslumiðil á Sauðárkróki
Gunnar Þór Gestsson hugbúnaðarsérfræðingur sem starfar á starfsstöð Advania á Sauðárkróki fékk á dögunum hina virtu „Microsoft Most Valuable Professional“ (MVP) vottun en hana fá aðeins fáir útvaldir meðlimir Microsoft notendasamfélaga.
Gunnar er sérfræðingur í hinni vinsælu Microsoft Dynamics NAV viðskiptalausn en hana nota hátt í hundrað þúsund fyrirtæki á heimsvísu. Hann fær MVP vottun sína fyrir framlag sitt til NAV notendasamfélagsins. Síðan 2010 hefur Gunnar haldið úti vinsælu NAV bloggi á slóðinni Dynamics.is. Vefurinn er sannkallaður þekkingarbrunnur fyrir NAV notendur út um allan heim en að sögn Gunnars lesa um 300 – 400 notendur vefinn á hverjum virkum degi. Hann er einnig virkur á notendavefnum Mibuso.com sem helgaður er viðskiptalausnum frá Microsoft.
Eins og áður segir starfar Gunnar á starfsstöð Advania á Sauðarkróki en þar starfa fjórir forritarar. Advania rekur að auki 29 manna starfsstöð á Akureyri, þrír starfa hjá fyrirtækinu á Húsavík, tveir eru á Austurlandi og einn á Vestfjörðum.
„Ég hlustaði á fyrirlestur um samfélagsmiðla á Haustráðstefnu Skýrr haustið 2010 og í framhaldi af því ákvað ég að gera mig og mína þekkingu sýnilega. Ég byrjaði að skrifa og vefurinn náði hægt og bítandi að verða þekktur í sérfræðingaheimi NAV. Þegar þessu skrefi var náð þá fór ég að kynna mér hvað þessi MVP vottun var og ákvað að leggja mig fram um að ná henni. Að halda henni verður ekki minna mál en það er að sjálfsögðu stefnan hjá mér. Mér finnst mjög skemmtilegt að kenna og hjálpa öðrum notendum að leysa verkefni“, segir Gunnar. Hann fær einnig nokkrar fyrirspurnir um persónulega aðstoð frá Dynamics NAV notendum og þjónustuaðilum. „Tölvupóstarnir sem ég fæ koma víða að úr veröldinni og snúast helst um lausnir og virkni sem ég fjallað um á blogginu sem notendur hafa ekki náð að útfæra sjálfir,“ bætir Gunnar við.
Það þykir mikill heiður að fá MVP vottun en af þeim rúmlega 100 milljónum manna sem taka þátt í notendasamfélögum Microsoft lausna fá aðeins um 4.000 MVP vottun á hverju ári. Gunnar er annar af tveimur Íslendingum sem er með MVP vottun og einn af þeim 25 Dynamics NAV sérfræðingum sem eru með MVP nafnbótina. Hinn Íslendingurinn er hýsingarsérfræðingurinn Gísli Guðmundsson sem einnig er starfsmaður Advania. Hann fékk sína vottun síðastliðið sumar. Magnus Haglund er þriðji starfsmaður Advania með MVP vottun en hann vinnur hjá Advania í Svíþjóð og fékk vottunina fyrir sérþekkingu sína á Microsoft Surface spjaldtölvum.
„Microsoft vill óska Gunnari innilega til hamingju með þennan framúrskarandi árangur. Það er mikill prófsteinn á hans þekkingu að ná MVP vottun og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að það sé innan Dynamics Nav, sem er einmitt einn útbreiddasti viðskiptahugbúnaður á Íslandi. Advania er greinilega að standa vel við bakið á sínu fólki og frábært að sjá 2 aðila frá Advania ná þessum merka áfanga á stuttum tíma. Við óskum Gunnari enn og aftur innilega til hamingju og vitum að hann er vel að þessu kominn“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft Ísland ehf.
Þeir sem fá þessa vottun þykja skara fram úr hvað varðar tækniþekkingu, leiðtogahlutverk í notendahópum og aðstoð við aðra Microsoft notendur. Það eru ýmist starfsmenn Microsoft, aðilar með MVP vottun eða meðlimir notendasamfélaga sem tilnefna menn til MVP vottunar en endanlegt val er í höndum Microsoft. Þeir sem fá MVP vottun koma frá 90 löndum, tala 40 tungumál og teljast hafa sérþekkingu á tæplega 90 Microsoft lausnum. Samanlagt svara þeir meira en 10 milljón fyrirspurnum meðlima Microsoft notendahópa á hverju ári.
„Við óskum Gunnari innilega til hamingju með MVP vottunina. Það er okkur mikill heiður að vera með tvo MVP vottaða starfsmenn í okkar röðum. Þetta sýnir glöggt hversu mikill og góður mannauður er hér hjá fyrirtækinu en hér starfa um 600 hámenntaðir einstaklingar sem leysa krefjandi verkefni bæði hér heima og á heimsvísu, segir Ægir Már Þórisson framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðssviðs Advania.
MVP vottaðir einstaklingar fá margháttaða aðstoð og þjónustu frá Microsoft. Í eitt ár fá þeir beinan aðgang að sérfræðingum Microsoft sem þróa vörur hugbúnaðarrisans, fá upplýsingar um vöruþróunaráætlun og hafa sérstakan tengilið hjá Microsoft. Þannig fá þeir margvísleg tækifæri til að hafa áhrif á vöruþróun Microsoft og gefa endurgjöf um vörur og þjónustu fyrirtækisins. Ennfremur fá þeir boð um að sækja hina árlegu MVP Global summit ráðstefnuna þar sem aðilar með MVP vottun geta borið saman bækur sínar og fræðst um áætlanir og vörur Microsoft.
Um Advania
Advania er stærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins og starfa þar um 1.100 starfsmenn: 600 hér á landi og 500 til viðbótar í Noregi og Svíþjóð. Advania býður fjölbreyttar lausnir og þjónustu, sem spanna upplýsingatækni frá A til Ö. Starfsemi fyrirtækisins er vottuð samkvæmt alþjóðlegu gæða- og öryggisstöðlunum ISO 9001 og ISO 27001.