Nú er komið að ellefta viðtalinu hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið. Eins og venjulega þá er tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Sá sem er í heita sætinu að þessu sinni ætti að vera þeim sem fylgst hafa með snjallsímum vel kunnugur. Þetta er enginn annar en Atli Stefán sem er stofnandi og formaður á snjallsímablogginu Simon.is. Ég kynntist Atla undir lok síðasta árs þegar við “lentum óvart í ritdeilu” á Twitter en þetta var fyrsta af þó nokkrum sem við höfum tekið síðan þá. Þessi ritdeila varð til þess að ég gekk í lið við Simon menn og hef stundum skrifað t.d. umfjallanir eða leiðbeiningar fyrir Windows símtæki á Simon.is þegar það á við eða óskir um það berast frá lesendum þeirra.
Þó svo að við Atli séum oft ósammála þá er hann góður félagi til að leita og alltaf boðinn og búinn til að svara spuringum og leiðbeina á faglegan hátt. Simon hópurinn er þrælflottur hópur, samsettur af aðilum sem koma víðsvegar að en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á snjallsímum og tækni almennt. Allir eigum við það sameiginlegt að hafa alltaf rétt fyrir okkur en þetta býður vitanlega uppá líflegar umræður og skemmtilegar uppákomur.
Atli verður með fyrirlestur klukkan 13:20 á Haustráðstefnu Advania sem ber heitið “Straumar og stefnur í farsímaheiminum” og verður hann án efa mjög áhugaverður.
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég heiti Atli Stefán G Yngvason og er fæddur og uppalinn í Reykjavík (105 Hlíðar).
Við hvað starfar þú?
Ég er svo heppinn að vinna í fjarskiptum, sem er líklega harðasti og skemmtilegasti markaðurinn á Íslandi í dag.
Ég er forstöðumaður tækniþjónustu hjá 365 miðlum, sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjarskiptabransanum. Ég hef verið í bransanum í yfir 8 ára með stuttu stoppi í ferðaþjónustu, hjá ævintýrafélaginu Arctic Adventures.
Ég er einnig formaður áhugamannafélagsins Simon.is, sem rekur óháð og hresst tækniblogg.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég er nýkominn með HTC One, eftir marga góða mánuði á LG nexus 4.
Þetta er án efa einn fallegasti sími sem ég hef séð (ásamt HTC Diamond, HTC One X og iPhone 5) . Hann er ótrúlega vel byggður og búinn til úr áli (sem heillar mig meira en plastið sem aðrir nota).
Hér má lesa umfjöllun um HTC One á lappari.com
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Það var þrennt sem pirraði mig við nexus 4: hátalari, myndavél og 4G-leysið.
Ég fékk mér einmitt HTC One til að leysa þetta þrennt, sem sá sími nær algerlega að negla.
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Mér finnst allir flaggskipssímar of stórir í dag. Ég vil sjá meira af almennilegum símum með 4,1-4,4″ stærðinni, sem fara vel í hendi og vasa.
HTC Sense er bara ekki nógu gott, en ég er á leiðinni í root aðgang og eitthvað gúrmet viðmót (paranoid android eða google nexus).
Nýtist síminn við vinnu? Mögulega ómissandi?
Algerlega ómissandi. Ég hef verið snjallsímamaður síðan dögun þeirra. Án dagatals myndi ég ekki mæta á fundi. Án aðgangs að vafra og tölvupósti væri ég handalaus. Ég var þrjú ár í kvöldskóla og snjallsíminn algerlega bjargaði mér þar. Ég nota símann sérstaklega mikið þessa dagana í spjallforrit eins og Hangouts, Facebook og Chatter (Salesforce).
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Fyrsti síminn minn sem ég keypti sjálfur var blár Ericsson T28.
Yndislegur sími með mjög góðan Tetris tölvuleik!
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Ég myndi velja HTC One Mini með NFC, image stabilization, 32GB geymsuplássi og 2GB í vinnsluminni! Sá sími er hinsvegar ekki til, þannig ég fékk mér HTC One. Annars er ég spenntur fyrir næsta iPhone, sem á að vera aðeins kúptari.
Hvaða tæknisíðum fylgist þú reglulega með?
Simon.is – theVerge.com – Cnet.com – Engadget.com – Mashable.com – Gizmodo.com – Electronista.com – PhoneArena.com – GSMArena.com – ArsTechnica.com – AndandTech.com – TomsHardware.com – SlashGear.com – Techchrunch.com – TheNextWeb.com
Innskot Lappara…. Vantar ekki Lappari.com á þennan lista ??
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Ég býð alla velkomna á fyrirlestur minn um strauma og stefnur í farsímamálum á Haustráðstefnu Advania á föstudaginn. Ég lofa spennandi umræðu, enda mun Lappari.com mæta til að heckle-a mig til dauða.
Skjáskot frá Atla