Blackberry Z10

eftir Jón Ólafsson

Hér verður brotið blað í sögu Lappari.com þegar verður fjallað um eitthvað annað en Windows Phone síma. Þetta er kannski ekki svo dramatískt því mér hefur alltaf þótt nauðsynlegt að hafa samanburð og að festast ekki í einhverju einu sem „er best“.

Félagar mínir hjá emobi höfðu samband og buðu mér að prófa Blackberry Z10 sem er nýlegur sími frá Blackberry en emobi eru með nokkuð fjölbreytt úrval af símtækjum sem vert er að skoða. Hér má sjá gríðarlega spennandi afpökkun á Z10.

Ég notaði Blackberry síma fyrir nokkrum árum og þekki þá vel og á þeim tíma voru þetta bestu símar sem ég hafði notað í vinnu. Það hefur margt breyst síðan þá og því áhugavert að sjá hvernig Blackbeery hefur tekist að fylgja eftir þróunn snjallsíma.

Hér má sjá afpökkun

 

Hönnun og vélbúnaður

Blackberry Z10 er við fyrstu sýn ágætlega fallegt símtæki að sjá og minnir mig örlítið á iPhone símana, svipaðar línur og tilfinning. Ég verð samt að segja að síminn er ansi “plastlegur” og gefur frá sér “plastbrak” ef hann er sveigður lítillega. Ég átti von á miklu vandaðri síma frá Blackberry sérstaklega þar sem Z10 er markaðssettur sem hetjusími enda kostar hann frá 89.900 hjá Emobi og uppí 139.990 hjá öðrum endursöluaðilum (verð 09.08.2013).

 

Það tók mig um klukkutíma að geta hafið prófanir á símanum þar sem það beið 526MB uppfærsla í Blackberry V10.1 sem ég varð að setja upp áður en ég gat haldið áfram.

WP_20130719_032

Framhliðin er frekar minemalísk að því leyti að það eru engir takkar og mjög lítið fer fyrir grilli fyrir hlustun eða öðrum búnaði. Blackberry gera enga tilraun til að fella skjáinn að plastinu sem umleikur hann eins og ég þekki frá Nokia Lumia eða Samsung Ativ. Þetta svarta plast sem umleggur skjáinn leggst síðan nokkuð vel að hvítu plasti sem síminn er úr en síminn er ferhyrnur með kúptum hornum.

Hliðar eru sem sagt úr plasti, þær eru eins og fyrr segir sléttar og fellur síminn ágætlega í hendi þó svo að ég hefði kosið að hafa hliðar kúptar. Hægt er að fjarlægja bakhlið til að komast að rafhlöðu, microSD rauf og SIM korti en á bakhliðinni er myndavél og flash.

Blackberry_Z10_2

Blackberry Z10 er ekki þungur sími en hann vegur aðeins 136 gr sem er sambærilegt við Lumia 925 og Samsung Galaxy S línuna.

Blackberry hafa ákveðið að sleppa öllum tökkum á framhlið Z10 og olli það mér vonbrigðum. Þetta segi ég vegna þess að Windows Phone, Android eða iPhone notendur eru vanir “heim” takka og fannst flestum sem ég talaði við að hann vanti. Auðvitað eiga framleiðendur ekki að gera hlutina á ákveðinn hátt bara afþví að allir gera það en að sleppa þessum venjulega heimtakka er klúður að mínu mati.

Á hægri hlið símanns er hækka/lækkatakki ásamt hljótt (mute) og efst á síma er powertakki sem er notaður til að opna/loka símanum. Þessi powertakki er eina leiðinn til að vekja símann með annari hendi þegar slökkt er á skjánum. Það er reyndar hægt að strjúka upp skjáinn og þá opnast síðasta forrit sem opið var en þetta er nær ógerlegt með annari hendi.

Ég hef nokkrar athugasemdir varðandi staðsetningar á tökkum og tengjum á Blackberry Z10. Hækka/lækka/mutetakkinn er á góðum stað en að staðsetja powertakkann efst á síma er slæm ákvörðun, sérstaklega þar sem það er ekki heimtakki. Þetta segi ég vegna þess að það er klaufalegt að aflæsa símanum með annari hendi og en með smá æfingu þá tókst það. Ég leyfði nokkrum að handleika símann og það minntust margir á einmitt þetta. Annars finnst mér að takkarnir séu frekar litlir, þeir eru úr plasti og ekkert alltof sterklegir.

Blackberry_Z10_4

Varðandi tengin þá er hleðslu- og HDMI tengið á vinstri hlið símans sem gerði það að verkum að ég átti erfitt með að tala í símanum meðan hann var í hleðslu. Hleðslusnúran þvældist einfaldlega of mikið fyrir mér og HDMI tengið virðist vera klaufalega staðsett þarna á hliðinni, er t.d. ekki í sömu hæð og hleðslutengið sem er við hliðina á því.

Blackberry Z10 er með 1.5GHz Snapdragon Dual-Core örgjörva og með 2GB í vinnsluminni, þessi öflugi örgjörvi skilar sínu í vel viðbragðsgóðu viðmóti.

Z10 er með 16GB geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi, forrit eða ljósmyndir og annað margmiðlunarefni. Það er kostur að hafa microSD rauf fyrir minniskort því þannig er hægt að bæta við allt að 32GB af geymslurými fyrir tiltölulega lítinn pening. Einnig er Dropbox og Box öpp uppsett í símanum og því hægt að bæta við geymsluplássi í skýunum. Þessi skýa hýsing er samt ekki innbyggð (djúpt) í stýrikerfið og því ekki hægt að taka afrit af stillingum eða annari kerfisuppsetningu, sem sagt ekki öðru en margmiðlunarefni og skjölum.

 

 

Tengimöguleikar

Blackberry Z10 er með Micro USB tengi (USB 2.0) þannig að einfalt er að tengja símann við tölvu til að sækja og/eða setja á hann efni. Þetta er kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf. Þetta tengi er sameiginlegt með flestum snjallsímum – öðrum en iPhone, Z10 er einnig með mini-HDMI tengi eins og áður segir til að tengja símann við t.d. sjónvarp, myndvarpa eða HDMI skjá.

Efst á síma er 3.5 mm heyrartólstengi sem og auka hljóðnemi sem gerir símanum kleift að eyða umhverfishljóðum og svo er  Z10 með Bluetooth 4.0. Síminn er með þráðlausu neti eins og við er að búast og styður það 802.11 a/b/g/n og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli.

Blackberry_Z10_3

Blackberry Z10 er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars uppá borganir, samnýtingu gagna og notkun NFC merkja. Ég nota NFC eingöngu með NFC merkjum en ég er með merki á náttborðinu og þegar ég legg símann á það þá slökknar á öllum hljóðum (nema vekjara) ásamt því að póst samstilling hættir. Síðan þegar ég lyfti símanum þá koma öll hljóð aftur á og samþætting á pósti hefst að nýju.

Maður þarf að vera meðvitaður um að Blackberry Z10 kemur í nokkrum útgáfum sem ganga með mismunandi 4G netum. Týpan sem ég fékk frá Emobi virkar hann frábærlega á 4G, hann heitir STL100-2 og styður 800/900/1800/2600 tíðnir en á Íslandi eru 800/1800 tíðnir notaðar.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Ég er nokkuð ánægður með rafhlöðuendingu á Blackberry Z10 en hún dugði mér yfirleitt út daginn. Reyndar voru fyrstu 2 dagarnir furðulegir þar sem síminn var dauður eftir 6 tíma fyrsta dag og um 10 tíma á degi tvö. Þegar Blackberry Z10 kemur úr kassanum þá er skjárinn stillir þannig að hann er frekar dimmur (brightness) og um leið og ég jók birtuna þá sá ég strax áhrif á rafhlöðuendingu til hins verra.

Blackberry Z10 er með útskiptanlega 1800mAh Li-Ion rafhlöðu sem er gefinn upp fyrir.
Tal yfir 3G: 10 tíma
Biðtími: 13 dagar (enginn reynsla á þessu hjá mér)

Hafa má í huga að ég er ávallt tengdur við WiFi eða 3G og að samstilla 3 EAS tölvupóstreikninga ásamt því að lesa töluvert af bæði heimasíðum og nota Twitter og Facebook slatta yfir daginn.

Hér má sjá nokkur ráð sem hjálpa þér að lengja rafhlöðuendinguna en þessi ráð eiga við um Blackberry eins og aðra snjallsíma.

 

Blackberry Z10 er með fullt Qwerty lyklaborð sem ég er mjög ánægður með, ég var fljótur að venjast því og gaman að sjá hvað lyklaborðið er fljótt að læra af því sem ég skrifa. Lyklaborðið er ein af ástæðunum fyrir því að ég notaði Blackberry á sínum tíma og gott að sjá Blackberry leggja svona mikla vinnu í að gera það vel.

Lyklaborðið er ekki með íslenskum sérsöfum en allir íslensku stafirnir eru engu að síður til staðar. Sem dæmi til að skrifa Þ þá er T haldið inni, til að skrifa Ð þá er D haldið inni o.s.frv.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Blackberry Z10 er 4.2″ stór og styður upplausnin uppá 1280×768 punkta og er hann því 15:9. Punktaþéttleikinn er 355ppi sem mikið á flesta mælikvarða og skjárinn því eðlilega mjög skarpur og líflegur.

Almennt má segja að skjárinn sé skarpur og skilar sínu hlutverki ágætlega. Lestur texta var mjög þæginlegur ásamt því að ljós- og bíómyndir komu vel út á skjánum. Ég prófaði Blackberry Z10 úti í sólinni hér á Akureyri og var hann ágætlega nothæfur.

Blackberry_Z10_7

Myndavélarnar eru tvær, ein 8MP vél á bakhlið og önnur 2MP sem er ágæt í myndskilaboð en hún styður 720p myndbandsupptökur. Báðar myndavélarnar eru með Optical Image Stabilization sem með mikilli einföldun má segja að skili notendum skýrari og minna hreyfðum myndum og myndböndum.

Aðalmyndavélin í Z10 er eins og fyrr segir 8MP og leysir hún sitt hlutverk ágætlega þó hún blikni í samanburði við Lumia 920 og sérstaklega 925. Vélin tekur líflegar og góðar myndir við góð birtuskilyrði og má segja að notendur ættu að verða ánægðir með flestar myndir sem þeir taka á símann.

Hér að neðan má sjá samanburðar mynd teknar á Blackberry Z10 og Nokia Lumia 925 þegar farið er að rökva úti. Þó svo að myndir úr Z10 sem teknar eru að degi til séu flestar ágætar þá má greinilega sjá að myndirnar eru grófkorna og dimmar samanborið við Lumia 925.

drumbur

 

Eins og komið hefur fram tekur Blackberry Z10 nokkuð góðar ljósmyndir og er myndbandsupptakan sambærileg. Hægt er að taka upp í 1080p upplausn (@30 rammar á sekúndu) og eru myndgæðin góð í ágætri birtu og slök við erfiðari skilyrði. Minni samt á að það er erfitt að keppa við Nokia Lumia síma þegar kemur að myndavélum og þá sér í lagi Lumia 920 og 925.

Hátalarinn sem staðsettur er neðst á símanum er nokkuð góður og skilar ágætis hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun.

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Blackberry Z10 er góð og réð hann vel við að spila “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var bíómynd af SD korti, Youtube video eða aðra vefstrauma. Stundum hegðuðu embedded myndbönd sér furðulega og oft var erfitt að snúa símanum meðan myndband var spilað en almennt virkaði allt nokkuð vel.
Blackberry Z10 er með góðum tónlistarspilara sem getur spilað tónlist sem búið er að flytja af tölvu. Þó svo að Blackberry markaðurinn sé ekki með Spotify eða sambærilegum tónlistarveitum þá ertu samt með nokkuð gott úrval af leikum til að stytta þér stundir. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Z10 að ráða við flestallt sem þú gætir vilja notað hann í.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Blackberry hafa tekið stýrikerfið í gegn og er það mun fallegra og betra en þetta gamla sem ég þekkti svo vel. Síminn er líflegur og með honum koma mörg af vinsælli forritum sem þig gæti vantað eins og Youtube, Dropbox, Box, Twitter, Facebook svo að eitthvað sé nefnt.

Blackberry_Z10_10

Það er samt áberandi skortur á vinsælum forritum eins og Snapchat og Instagram á app markaði. Það virðist líka vera skortur á forriturum sem eru að hanna (3rd party) forrit fyrir Blackberry, allavega fannst mér erfitt að finna mér 3rd party forrit til að leysa af forrit sem vantaði á markað. Þetta breytir því ekki að síminn kemur með öllu sem þarf til vinnu þannig að þetta ætti ekki að skipta fyrirtæki svo miklu.

Sum virkni í Blackberry pirraði mig örlítið en gott dæmi er ef síminn er læstur og ég fæ tölvupóst.

  1. Það kemur hljóðmerki og síðan blikkar raut led ljós (sem er gott)
  2. Ég vek síman með því að smella á powertakka (efst á síma) til að sjá tilkynningar, því ég vill vita hvort þetta sé vinnupóstur eða prívate.
  3. Ég strýk upp skjáinn til að opna símann
  4.   —  Ég get líka strokið upp skjáinn þegar slökkt er á honum en þá opnast síðasta forrit sem ég var í…
  5. Þegar ég er kominn í síðasta forrit sem var opið þá þarf ég að strjúka upp allan skjáinn til að loka því og opna símann á heimaskjá.
  6. Þá strýk ég frá vinsri til hægri til að komast í Blackberry Hub (eða síðasta messenger app sem var opið)
  7. Þá ætti tölvupósturinn að vera efstur í Blackberry Hub og því hægt að opna hann.

Ef ég var með SMS opið síðast þá þarf ég að byrja á því að loka því líka til að geta opnað email appið. Ef ég gef mér að Facebook hafi verið opið þegar slökknaði á skjá og að SMS app hafi verið opið í Blackberry Hub þá tekur það sjö aðgerðir að opna nýjan tölvupóst annars fimm. Ef ég framkvæmi það sama á Windows Phone síma þá tekur það aðeins fjórar aðgerðir að opna nýjasta tölvupóstinn.

Verst er samt að þurfa að loka forritum með því að strjúka upp allan skjáinn. Þetta gerir það að verkum að ómögulegt er að nota símann með einni hendi og sakna ég mikið að hafa ekki “heim” takk á framhlið símanns.

Blackberry Z10 kemur með nokkuð þéttri hugbúnaðarsvítu sem gerir það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar vegna vinnu. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Docs To Go™ (fyrir Office skjöl) sem gerir notenda mögulegt að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv.

Blackberry_Z10_9

Docs To Go er góður pakki en kemst ekki í hálfkvist við það sem ég þekki af Office pakkanum í Windows Phone. Blackberry er miðað að fyrirtækjamarkaði og skjalavinnsla því viss vonbrigði þó að hún sé vissulega möguleg. Ég hefði viljað sjá skjalasamþættingu með SharePoint eins og ég þekki úr Windows Phone 8 og einhverja samþættingu við Office á borðtölvunni en Blackberry virðist ekki kunna að nota sér kosti skýaþjónustu.

Blackberry vafrinn í Z10 er mjög góður og virkaði mjög hratt að mínu mati, spilaði flash og flest annað mediaefni sem prófaði.

Þar sem ég nota leiðsöguforrit töluvert í mínum snjallsímum þá hlakkaði mér til að prófa það á Blackberry Z10. Í stuttu máli þá er það ónohæft…

Þegar Maps er opnað þá kemur melding sem segir “Map data is currently unavailable in your country” sem þýðir að Íslandskortið er ekki til í grunni hjá Blackberry.

Blackberry_Z10_5

Hefðbundin öryggisvirkni er vitanlega öll til staðar ásamt nýungum eins og leyniorð, dulkóðun “data encryption” og barnavörn (Parental Control). Blackberry Z10 bíður einnig uppá mismunandi prófíla (Work/Play) til að halda vinnu- og einkaforritum aðskildum.

Það þarf að setja upp Blackberry forrit á tölvu til að sækja efni á símann eða til að setja inn á hann, einfalt og gott forrit en er fullt þungt í keyrslu að mínu mati.

 

Niðurstaða

Það kom mér á óvart að fá tækifæri til að leika mér með Blackberry síma þar sem ég hef aldrei skrifað um þá hér. Þar sem ég er “gamall” Blackberry notandi þá fannst mér þetta vera of gott tækifæri til að sleppa því.

Að mínu mati gefur síminn mér smá von um að Blackberry hafi möguleika á því rétta úr kútnum eftir að vera nær útrýmt úr snjallsímaflokknum eftir innreið iPhone, Android og núna Windows Phone. Stýrikerfið hefur verið fært í nútímabúning með marga af þeim kostum sem snjallsíma notendur þekkja. Ekki alla en næginlega marga til að flokkast sem valkostur.

Þessi sími er samt bara von um eitthvað betra því mér finnst símtækið sjálft ekki spennandi ásamt því að stýrikerfið er ekki notendavænt en mögulegt er að þessi furðulega virkni (gestures) venjist með lengri notkun ef ég neyddist til að nota símann lengur. Það hefði líklega unnið með símanum ef ég hefði farið beint af gömlu Blackberry tæki og á þennan en ekki stoppað við á betur þróuð kerfi eins og Android, IOS og Windows Phone.

 

 

Blackberry Z10 er að mínu mati með ágætis myndavél þegar hann er borinn saman við venjulega snjallsíma, það er bara í samanburði við Nokia síma eins og Lumia 925 þar sem hann kemur mjög illa út.
Ef ég vanda mig þá má get ég sagt að Blackberry Z10 séu alvöru snjallsími í vinnu ásamt því að ráða við flest allt annað sem ég ætlaði honum, getur tekið vel nothæfar tækifærismyndir og myndbönd.

Þú ættir að skoðar þennan alvarlega EF þú þarft að uppfæra Blackberry símann þinn. Ég leyfði t.d. einum Blackberry notenda að prófa og var hann mjög hugfangin af símanum og hann því mögulega frábær uppfærsla fyrir hann. Ef þú ert ekki að uppfæra Blackberry símann þinn þá er erfitt að mæla með Blackberry Z10 umfram aðra valkosti á markaðnum.

Blackberry 10 virðist vera stöðugt og hraðvirkt á Blackberry Z10 og var ég aldrei orðið var við neina hnökra við keyrslu á kerfinu sjálfu, í forritum eða leikjum sem ég notaði. Sundum voru forrit smá tíma að ræsa sig upp en ekkert óeðlilega að mínu mati.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira